2573 - Talibaninn í Hvíta húsinu

Kannski er fyrirsögnin í það grófasta hjá mér. Því er samt ekki að neita að kjör Trumps sem forseta Bandaríkjanna mælist óvenju illa fyrir. Auðvitað eru það aðallega demókratar og meirhluti Pressunnar sem standa fyrir þessu. Samt er það svo að ýmsum finnst samband hans við Rússa talsvert skrítið. Tveir kosningastjórar hans voru látnir hætta m.a. vegna hugsanlegra tengsla við Rússland og Ukraínu. Nú hefur helsti þjóðaröryggisráðgjafi hans verið látinn fara af svipuðum ástæðum. Hvað innanlandsafskipti snertir er forsetinn langt í frá einráður. Alþjóðleg samskipti eru samt meira og minna á hans könnu. Og þar er það sem mestur óttinn við hann á sér stað. Ef einræðisherrann í austri á (svona óbeinlínis) líka að ráða yfir Bandaríkjunum má búast við hverju sem er.

Mér finnst að báðir aðilar í sjómannadeilunni reyni að kasta ryki í augu almennings. Þetta ætti alls ekki að skipta máli og gróði útgerðarrisanna hefur verið það mikill að undanförnu að þá ætti allsekki að muna um þetta. Mér finnst alveg ófært að hvaða hópar sem er geti hrópað á ríkið og ætlast til að það hlaupi undir bagga. Fjárkröfurnar á það eru þegar ansi miklar. Landspítalinn ætti að hafa forgang.

Sá á fésbókinni í gærkvöldi á síðu sem kölluð er „gamlar ljósmyndir“ mynd sem ég hef áreiðanlega tekið. Ég er svosem ekkert að amast við því, en finnst að það geti verið spursmál að birta á þennan hátt myndir af fólki. Allt fólk er nefnilega einstakt. Þó manni finnist myndin ágæt (og jafnvel fleirum) þá er ekki víst að fyrirmyndin sé sama sinnis. Þetta var mynd sem tekin var í Lækjargötunni af konunni minni og tveimur systkinum hennar. Allt orkar tvímælis sem gert er.

Mikið er rifist útaf Guðbergi Bergssyni núna. Heyrði svosem ekki viðtalið sem allir eru að tala um enda er fjölmiðlaneysla mín að minnka mikið. Man samt vel eftir því að ég las „Tómas Jónsson, metsölubók“ á sínum tíma og þótti hún afar vel skrifuð. Það er samt rétt sem sumir segja að hún olli engri byltingu. Kannski hefur Guðbergur sjálfur búist við því. Hugsanlega er hann svona bitur þessvegna.

Veðrið heldur áfram að vera mjög gott. Sé það rétt að veðrakerfi heimsins geti breyst mjög hratt ef hnatthlýnunin verður mikil er kannski alveg eins mikil hætta sem af því getur stafað einsog af kjarnorkustríði. Allskyns dystópía og postapochalypse-bækur eru í hvað mestu uppáhaldi hjá mér um þessar mundir. Leiðast krimmarnir. Finnst íslenskir höfunar samt varla skrifa annað.

Eiginlega öfunda ég þá sem eru sannfærðir um að hafa alltaf rétt fyrir sér pólitískt séð. Á margan hátt er auðveldara að efast aldrei um neitt á því sviði. Tökum t.d. Trump. Ég get alveg skilið að það henti bandaríkjamönnum ákaflega vel að hafa hann. Sérstaklega vegna andstöðu hans við Washington og stjórnkerfið bandaríska í heild. Daður hans við Rússa er samt á margan hátt illskiljanlegt. Umheimurinn allur á þó líklega eftir að líða fyrir ruglið og einangrunarstefnuna hjá honum. En Demókratar koma líklega til með að eiga í vandræðum með að koma honum frá. Auðvitað eru þeir repúblikanar sem hafa gengið kerfinu á hönd óánægðir með margt sem hann gerir. Hann segir nefnilega allt sem honum dettur í hug og á stuðning sinna fylgismanna nokkuð vísan. Bandaríkjamenn dást alltaf mikið að þeim sem þeir álíta ofurríka en Evrópumenn tortryggja þá jafnan.

IMG 2177Einhver mynd.


Bloggfærslur 17. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband