2671 - Fiskur undir steini

Einu sinni höfðu allir greiðuna í rassvasanum. Og þótti fínt. Nú nota engir rassvasana orðið. Samt eru þeir þarna. Jú, einstaka gamalmenni setur veskið sitt og jafnvel greiðuna líka í rassvasann. Hvers eiga rassvasarnir að gjalda? Einu sinni var sagt að í Sahara gengu menn með uppbrot á buxunum af því að það rignir svo mikið í London. Kannski er þetta satt. A.m.k. er máttur tískunnar mikill. Hverjir búa hana til? Nauðsynlegt er að fylgjast eitthvað með tískunni. Þó ekki væri nema til þess að vera á móti henni. Mér finnst poppvælið vera búið að vera ansi lengi í tísku. Kannski hafa einhverjir þörf fyrir það. Til dæmis hefur mér stundum verið hugsað til þess að sennilega mundu þeir, sem þykjast vera að flytja þætti í útvarpið og þessvegna sjónvarpið, verða varir við það ef poppgaulið hyrfi. Segi bara svona. Hefur stundum orðið hugsað til þess að líklega eru þeir til sem þykir þetta merkilegra en flest annað.

Samkvæmt því sem Fréttablaðið segir, er það svo, að flestallir þingmenn hafa í mínum huga og eflaust flestra annarra, næstum tvær milljónir króna á mánuði í laun. Samt geta þeir ekki unnið vinnuna sína og virðing alþingis fer sífellt minnkandi. Ríkisstjórn og framkvæmdavald (þ.e.a.s. ráðuneytisstjórar og ígildi þeirra) veður samt yfir þá og gerir sem því sýnist. Helvítis pakkið. Ég get bara ekki sagt annað. Aumingjarnir sem ekki fá milljónir á mánuði geta bara étið það sem úti frýs.

„Þú getur keypt þér næstum hvað sem er fyrir aukakrónur“. Eitthvað þessu líkt dynur á manni sýnkt og heilagt. Af hverju í ósköpunum ætti ekki að vera hægt að kaupa hvað sem er fyrir aukakrónur? Er það einhver sérstakur gjaldmiðill, eða hvað? Hvaða andskotans gjaldmiðill er það? Ég sé hann hvergi skráðan. Skilst að Landsbankinn standi fyrir þessum ósköpum.

Ætlaði að kaupa fisk í Krónunni hér á Akranesi, en ekkert slíkt var til. Sennilega hafa Skagamenn aldrei heyrt minnst á svo afbrigðilega fæðutegund. Hélt samt að hér hefði í eina tíð verið veiddur og jafnvel verkaður fiskur.

Skelfileg neikvæðni er þetta alltaf. Er ekki hægt að gleðjast pínulítið, þó ekki væri nema í tilefni af jólunum? Gallarnir við bloggið og ekki síður fésbókina er þetta sífellda nöldur. Er það samt ekki einmitt útaf þessu sífellda nöldri, sem allt virðist tosast svolítið áfram. Ef enginn mundi finna að neinu þá mundu sennilega margir (jafnvel flestir) halda að allt væri í lagi. Svo verður samt vonandi aldrei.

Rætt hefur verið um að fá aldrað fólk til kennslu á leikskólum. Margt gæti verið jákvætt við það. Mér dettur þó hug að vel gæti það orðið til þess að erfiðara en ella gæti orðið að bæta kjör leiskólakennara og hugsanlega kennara yfirleitt og allsekki ætti að stuðla að því. Ég mundi eflaust teljast aldraður og í dag fór ég í fyrsta sinn í strætó á milli Akraness og Reykjavíkur. Þegar ég ætlaði að borga (fullt verð að sjálfsögðu) vildi vagnsjórinn ekki leyfa mér að borga 880 krónur eins og ég ætlaði, heldur aðeins 420 krónur. Gott ef þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég er dæmdur umsvifalaust aumingja-afsláttar-verður á þennan hátt. Hvað snertir kennslu á leikskólum held ég að ég gæti eflaust kennt 1-5 ára börnum ýmislegt, væri mér sagt hvað leggja bæri áherslu á.

Hvað ríkisstjórnina snertir hef ég eiginlega enga skoðun á henni. Ekki er að sjá annað en svokallaður stjórnarsáttmáli sé að mestu marklaust plagg. Stefnuræða forsætisráðherra sömuleiðis. Ég bíð bara eftir að Katrín geri eitthvað sem ég get annaðhvort verið á móti eða ekki.

IMG 0356Einhver mynd.


Bloggfærslur 15. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband