2666 - Netútgáfan II

Jæja, þá er komið að öðrum kaflanum um Netútgáfuna. Ég lofa því alveg að hafa þá ekki nema í mesta lagi þrjá og eitthvað hef ég hugsað mér að skrifa umfram þá, þó ég hafi fundið þetta erindi á tölvunni hjá mér.

Margir virðast velta mikið fyrir sér nafngiftum á ríkisstjórnir. Mér finnst það mesti óþarfi. Ríkisstjórnir fá nöfn sín yfirleitt eftir á ef þurfa þykir. T.d. er nútildags oft talað um Jóhönnustjórnina. Á sama eða svipaðan hátt gæti ég trúað að ef sú stjórn sem nú virðist vera í burðarliðnum þarf á nafni að halda í framtíðinni þá verði hún kölluð Katrínarstjórnin. Annars eru þessar spekúlasjónir til marks um algjört tilgangsleysi svona vangaveltna og bera aðallega vott um fáfengileika fjölmiðla.

Til að spara mér fyrirhöfnina, meðan aðrir fjölmiðlar (já, ég álít sjálfan mig einskonar fjölmiðil) eru uppteknir við þá iðju að fylgjast vandlega með því sem stjórnmálamenn eða biskupar láta hafa eftir sér, er ég að hugsa um að halda bara áfram með Netútgáfusönginn:

Það var síðan haustið 2001, sem Netútgáfan hætti að gefa út nýtt efni. Ástæðan fyrir því var einfaldlega sú að við gátum ekki lengur séð af öllum þeim tíma sem í þetta fór. Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði fékk hún aldrei eyrisvirði í styrk þó eftir honum væri leitað, ef frá er talinn sá stuðingur sem fólst í því að Snerpa ehf. á Ísafirði veitti okkur ókeypis aðgang að Netinu og gerir enn.

Þau ár sem við stunduðum útgáfu á Netinu kom okkur mjög á óvart tregða rithöfunda á að setja gömul verk sín á Netið til kynningar.  Okkur fannst það blasa við að hjá langflestum rithöfundum væri höfundarréttur að gömlum útgefnum verkum harla lítils virði. Það kann þó að vera að þeir hafi haft eitthvað til síns máls og tækniþróun verði til  þess að gömul verk geti skilað tekjum, samanber fyrirbærið print on demand, sem ég mun gera svolítil skil hér á eftir.

Ég hef nokkrum sinnum reynt að stuðla að því að endurvekja Netútgáfuna í svipuðu formi og hún var. Nægilegt efni er til þó ekki sé hugsað til þess að gefa út annað efni en það sem höfundarréttur er runninn út á. Netútgáfan hefur unnið sér nokkurn sess einkum meðal skólafólks og ef haldið yrði áfram á svipaðri braut og gert hefur verið mundi það aðeins auka veg hennar. Nauðsynlegt er þó að bæta á allan hátt útlit vefsins, koma upp leitarvél og gera ýmislegt fleira. Gæta þarf þess þó eins og við höfum alltaf gert, að aðgangur blindra og sjónskertra að efni útgáfunnar versni ekki.

Netútgáfan er að mörgu leyti einstakt framtak og ég er dálítið hissa á því að ekki skuli hafa komið fram neitt hliðstætt framtak á þeim 5 árum sem Netútgáfan hefur ekki starfað.

Ekkert er því til fyrirstöðu að endurvekja starfsemi útgáfunnar. Það eina sem þarf er tryggt fjármagn eða að einhverjir einstaklingar eða hópar séu tilbúnir til að leggja fram þá vinnu sem til þarf.

En allt er þetta nú bara sagnfræði, kynni einhver að segja, og satt er það, þó saga Netútgáfunnar sé merkileg í sumra augum þá bendir hún svosem ekki á neinn hátt til framtíðar. Það er mála sannast að víða um lönd eru á Internetinu söfn þjóðlegra bókmennta sem komin eru úr vernd höfundarlaga. Einnig hafa margar tilraunir verið gerðar til þess víða um lönd að selja bækur á lágu verði sem tölvuskrár en þær tilraunir hafa ekki tekist ýkja vel. Það er ekki nóg að hafa yfir merkilegu efni að ráða, ef fáir eða engir vita af því.

Kynningarmálin hafa oftast nær verið erfiðast hjallinn hjá þeim sem vilja hasla sér völl án þess að leita til hinna hefðbundnu bókaforlaga. Einnig er það óneitanlega svo að enn þykir flestum betra að lesa sér til skemmtunar á bók heldur en á tölvuskjá  og ef prenta á út þær tölvuskrár sem keyptar eru er sparnaðurinn enginn orðinn hjá neytendunum. Einnig hefur tilfærsla fjármuna á Netinu alltaf verið dálitlum erfiðleikum háð og mörgum finnst enn eins og á árdögum Netsins að þar eigi allt að vera ókeypis.

Á þeim árum sem Netútgáfan var að hefja starfsemi sína var sú trú ríkjandi meðal margra að bókaútgáfa með hefðbundnum  hætti mundi lognast fljótlega útaf með mikilli útbreiðslu Netsins. Svo fór þó alls ekki og bækur eru auðvitað enn við lýði og vinsælar sem aldrei fyrr.

IMG 0457Einhver mynd.


Bloggfærslur 15. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband