3115 - Eitt og annað

Kannski er ég að missa af einhverju. Ég fer svotil aldrei á fésbókina, horfi lítið á sjónvarp, kann eiginlega ekkert á símann minn (Iphone 7) og er ekki áskrifandi að neinu blaði eða tímariti. Hverslags líf er þetta eiginlega? Kynni einhver að spyrja. Já, ég veit það ekki. Ég les talsvert og er eiginlega fréttasjúkur, einsog margir fleiri. Þar að auki flakka ég talsvert um Internetið, finn lesefni þar, skoða myndir og ýmislegt fleira. Þetta dugar mér alveg. Belgi mig stundum óhóflega út af mat, en er samt ekki nema 112 til 113 kíló. Klukkan er svosem meira en fimm.

Ég er að hugsa um að stinga mér aftur til kojs. Kannski sofna ég og kannski ekki. Er búinn að fá mér kaffi og rúgbrauð með síld og hver veit nema það hindri mig í að sofna. Pilluskammtinn er ég líka búinn að taka. Út á svalir er ég ekki búinn að fara enda veðrið bæði blautt og dimmt. Er dimman veður? Er ekki viss.

Hvenær eru morgunskrifin mátuleg? Kannski þegar skjárinn er fullur og línurnar fara að hreyfast. Hvað um það. Áfram skrifa ég eins og enginn sé morgundagurinn. Er þessi glósa um morgundaginn ekki ofnotuð? Það finnst mér. Hún er eiginlega alveg merkingarlaus. Þessvegna nota ég hana. Með því nálgast ég skjáfylluna. Hún er að nálgast. Þetta hjal er til þess gert að meiða engan. Sumir meiðast af orðum. Ekki hann ég. Enginn hallmælir mér samt. Sennilega er ég of meinlaus. Jæja, nú eru línurnar farnar að hreyfast svo ég er hættur í bili. Í dag er þriðjudagur, er mér sagt.

IMG 4092Einhver mynd


3114 - Nóvemberblogg

Skilst að ég hafi ekkert bloggað í þessum mánuði. Þetta gengur náttúrulega ekki. Ég er búinn að blogga í mörg ár og er ég farinn að láta undan síga. Alltaf er ég samt að reyna að bæta mig að þessu leyti. Bloggnáttúran hefur ekkert yfirgefið mig, en ég hugsa og skrifa bara svo hægt. Auðvitað ekki svo hægt að ég gæti ekki sent allskyns bull hingað á Moggabloggið. Jafnvel daglega. Ég er allavega að hugsa um að blogga oftar en ég hef gert að undanförnu.

Án alls vafa eru Stjórnarráðshúsið (áður fangelsi), Dómkirkjan, Menntaskólahúsið (áður Lærði skólinn), og Alþingishúsið virðulegustu og sögulegustu húsin í Reykjavík. Aldur þeirra er í samræmi við upptalninguna hérna. Einhverjum gæti dottið í hug að hafa Háskóla Íslands í þessum hópi, en hann var nú ekki byggður fyrr en á tuttugustu öldinni og getur þessvegna eiginlega ekki talist með.

Undanfarið hef ég verið að lesa bók nokkra sem gefin var út árið 1946 á 100 ára afmæli Menntaskólans í Reykjavík. Hún heitir „Minningar úr Menntaskóla“.

Margar frásagnir í þessari bók eru verulega merkileg og fróðleg lesning. Þær eru nærfellt 60 talsins og höfundar þeirra eru að ég held allir saman þjóðþekktir. A.m.k. kannast ég við nöfn þeirra flestra og kennaranna sömuleiðis, sem nefndir eru.

Demókratar í USA eru í vissum skilningi haldnir „vinstri veikinni“. Stjórnmálamenn þeirra í Hvíta Húsinu og báðum deildum alríkisins eiga erfitt með að koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut og koma því litlu í verk.  Trump hafði líka margfaldan meirihluta fyrri tvö árin í forsetaembættinu og tókst að koma í gegn skattalækkun sem kom sér nokkuð vel fyrir ríka og fallega fólkið. Auk þess sem hann var svo heppinn að fá tækifæri til að breyta meirihlutanum í Hæstarétti Bandaríkjanna í íhaldsátt. Að flestu leyti var hann samt misheppnaður.

IMG 4154Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband