2853 - Sif Sigmars

Enginn svarar Sif. Eins og ég sagði, eða ætlaði að segja um daginn þá ratast Sif Sigmarsdóttur oft satt orð á munn í sambandi við pólitík. Hún veit sannarlega sínu viti og kann að koma orðum að hlutunum. Gallinn er hinsvegar sá að henni er ekki svarað. Auðvitað geta pólitíkusarnir ekki gert það, en þeir gætu þó reynt. Að minnsta kosti gætu þeir afsakað sig smá þó ekki væri annað. En það gera þeir ekki því með því mundu þeir hætta sér útá hálan ís. Allir vita að flokkafjandarnir eru þeim mikilvægari en allt annað. Þar með talinn þjóðarhagur og ýmislegt fleira.

Sennilega er af hálfu Sjálfstæðisflokksins verið að undirbúa endurkomu Sigríðar Andersen í ráðherraembættið sem hún áður gegndi.. Ekki er þó víst að það gangi betur en að koma MAX 8 og 9 þotunum í umferð aftur. Hvorki stjórnendum Boeing fyrirtækisins né íslensku ríkisstjórninni virðist vera það ljóst að almenningálitið er gjörbreytt frá því sem áður var. Samfélagsmiðlarnir eru sú ástæða sem fyrst kemur upp í hugann en hugsanlega eru þær fleiri. Óþolinmæði almennings með spillingu og sjálfsupphafningu stjórnmálastéttarinnar er komin á hættulegt stig. Sú bylting sem hófst í Afríku um 2010 gæti sem hægast breitt úr sér. Eitthvað hlýtur það að verða sem kveikir á endanum í tundrinu sem safnast hefur saman undanfarna áratugi.

Nú er vorið endanlega komið. Meira að segja veðurspámennirnir eru farnir að spá hita og þreytast ögn á þessum sífelldu aðvörunum sínum. Allur snjór er löngu farinn, nema úr hæstu fjöllum. Látum það ekki á okkur fá þó páskahretið breytist í hvítasunnuhret, heldur höldum áfram að vona það besta. Hver veit nema sumarið verði með besta móti.

Fórum upp í Melahverfi í gær til að skoða kanínur og fylgjast með æfingum í körfubolta auk þess að sturta úr nokkrum kaffibollum. Skoðaði líka Kalmansvík og tók nokkrar myndir í morgunsárið. Sannkallað sunnudagsveður.

Ef ég minnist ekkert á Trump eða fésbókina þarf það svosem ekki að þýða það að þessi ógeðfelldu fyrirbæri séu að rétta úr kútnum. Ég er sífellt að sannfærast betur og betur um að fésbókin er stórhættuleg en býr samt yfir möguleikum sem eru ómetanlegir. Vonandi verður það sem tekur við af henni ekki eins hryllilegt og hún. Ekki verður það samt Twitter. Mér sýnist hann engu betri.

Að sumu leyti má lita á það sem heftandi að geta ekki sent snilli sína út í eterinn fyrr en komnar eru allnokkkrar klásúlur, þó mismunandi gáfulegar séu. Líka fylgja þessu kostir að sjálfsögðu. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Það má finna útúr öllu ánægjuvott. Kannski ég fari bara að slútta þessu hér með.

IMG 6932Einhver mynd. 


2852 - Biden og Trump munu berjast á næsta ári

Ekki brást Biden vonum mínum. Það var svosem lengi búið að skora á hann að bjóða sig fram. En hann vildi ekki rasa um ráð fram. Nú hefur hann semsagt tekið ákvörðun og ekki er neinn vafí á því að hann er sem stendur sigurstranglegastur af einum 20 demókrötum sem gjarnan vilja komast í Hvíta húsið. Kapphlaupið um sigur getur orðið spennandi á næsta ári. Mér er engin launung á því að ég vil sjá Biden sem sigurvegara þar.

Mér finnst óþarfi að setja það of mikið fyrir sig að íþyngjandi sé að svipta bílaleigu réttindum til að svindla. Procar á ekki nokkurn skapaðan hlut inni hjá neinum og refsingar í sakamálum finnst mér að eigi að vera íþyngjandi.

Mér finnst það hraustleikamerki hjá hótelum á landsbyggðinni að hafa engar áhyggjur af minnkandi ferðamannastraumi. Ég hef það. Miðað við að gengið hefur staðið Wow-gjaldþrotið af sér er kannski engin furða þó hóteleigendur séu sæmilega bjartsýnir.

Fórum í Cosco í dag (í gær) og keyptum satt að segja fullmikið. En það er nú venjan í Costco-heimsóknum svo ég hef eiginlega engar áhyggjur. A.m.k. verð ég ekki klósettpappírslaus alveg á næstunni. Kannski við ættum að fækka svolítið heimsóknum þangað.

Veðrið varð kannski ekki alveg eins gott í dag eins og maður hafði reiknað með. En ágætt samt. Skýjafar og mistur var meira en búast mátti við. Sumardagurinn fyrsti var í dag og vonandi er að sumarið verði dálítið skárra en í fyrra.

Ekki tókst mér að klára þetta blogg í gær. Þó sumardagurinn fyrsti hafi verið þá og ég ekki haft öðrum hnöppum að hneppa en að fara í Costco. Reyndar er það talsvert afrek þó varla fáist mörg stig fyrir það.

Trump bandaríkjaforseti virðist hafa þá stefnu að segja bandaríkin frá sem mestu af alþjóðlegum samskiptum. Bíð bara eftir því að hann segist ætla að segja sig og bandaríkin úr Sameinuðu Þjóðunum. Með þessu kann að vera að hann auki lítillega líkur sínar á endurkjöri á næsta ári, en um leið held ég að hann tryggi útskúfun bandaríkjanna í framtíðinni. Alls ekki er víst að bandaríkin haldi hernaðaryfirburðum sínum endalaust. Samvinna og samstarf er sú eina aðferð sem dugar til að ráða bót á þeim áskorunum sem þjóðir heims munu standa frammi fyrir á næstu áratugum.

IMG 6946Einhver mynd.


2851 - MAX 8 og 9

Núorðið er það svo að þegar eitthvað gerist og fólk er viðstatt (annars gerist það kannski ekki.) þá eru teknar 260 myndir af því og einar 16 vídeómyndir. Ef hjóli er stolið eða ef kviknar í bíl eru auðvitað um margfalt fleiri myndir að ræða. Hvað skyldi verða um allar þessar myndir? Ekki öfunda ég sagnfræðinga framtíðarinnar af að þurfa að skoða þær allar . Þessvegna er það sem ég er farinn að taka sífellt færri og færri myndir og nýta þær betur. T.d. eru allar þær myndir sem ég birti með bloggunum mínum endurnýttar. Samt hef ég nú tekið þær allflestar. Annars er það að verða mest fyrirkvíðanlegt í sambandi við bloggið að sækja þær alltaf. Ekki hef ég komið mér upp góðu systemi til þess arna.

Eiginlega er ég í mestu vandræðum með hvað ég á að gera við þriðja orkupakkann. Sumir segja að ég verði að vera á móti honum en aðrir að ég eigi að vera meðmæltur honum. Mér er nær að halda að það skipti litlu máli hvorn kostinn ég vel. Blessuð ríkisstjórnin er áreiðanlega búin að ákveða fyrir löngu (fisk) hvort hagstæðara er að vera meðmæltur honum eða andvígur. Gulli er a.m.k. meðmæltur honum. Kannski er það bara vegna þess að Bjarni hefur sagt honum það og kannski ekki. Hver veit nema við getur bara róið í burtu þegar Tjallinn kemur og vill stinga í samband.

Já, vel á minnst. Ég get sem best fjölyrt fjandann ráðalausan um Brexit. Ég er nefnilega kominn á þá skoðun að Bretar fari aldrei úr ESB-buxunum sínum. Á hverju byggi ég það? Skysemi eingöngu. Nú þegar Sambandsherrarnir eru komnir uppá lag með að veita Bretum frest, þá má hiklaust búast við að þeir haldi því áfram. Alltaf fær Bretinn frest á öllu. Kannski þeir fresti því bara að hætta að vera heimsveldi. Þeir reyndu það. Einu sinni héldu þeir meira að segja að þeir gætu eitthvað í fótbolta, en Íslendingar komu þeim í skilning um annað.

Mér sýnist að allar líkur séu á að langur tími muni líða þangað til Boeing fyrirtækið getur aftur farið að selja Boeing 737 MAX 8 og 9. Kannski geta þeir það aldrei og kannski fer þetta fyrirtæki á hausinn eða skiptir um kennitölu. Veit ekki hvort er vinsælla í henni Ameríku. Að láta sér í léttu rúmi liggja þó mörg hundurð manns hafi drepist af þeirra völdum er ekki í boði nútildags.Einu sinni voru fleiri fyrirtæki í USA sem framleiddu flugvélar. Kannski einhver þeirra verði endurvakin.

Að undanförnu hef ég verið að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig. Ekki þó eftir einhverju áður ákveðnu skipulagi, heldu svona á maa og faa, einsog danskurinn mundi segja. Mikið andskoti hef ég stundum verið velskrifandi. Eiginlega er furðulegt að lesendur mínir skuli ekki vera miklu fleiri en raun ber vitni. Eins og ég hef verið frumlegur oft og einatt. Annars er ég ekkert að gagnrýna þessa fáu lesendur sem ég þó hef. Ekki geta þeir gert að því þó þeir séu ekki fleiri.

IMG 6933Einhver mynd.


2850 - Vaknað snemma og veðurlýsingar

Vaknaði um 5-leytið í morgun og skrifaði þá á bloggið mitt sem þeir sem þangað villast eru neyddir til að lesa. Fékk mér svo kaffi og fór aftur að sofa.

Mín reynsla er sú að ef maður fer að sofa ofaní kaffi þá dreymi mann einhverja vitleysu. Ekki brást sú trú að þessu sinni. Mig dreymdi að ég væri villtur í Hafnarfirði. Þangað hafði ég farið gangandi með band í eftirdragi. Svo var ég truflaður og týndi því. Fór með strætó, sem mér þótti furðu breiður, heim til Reykjavíkur. Við hliðina á mér sat landsþekktur húmoristi sem ég þekkti vel í sjón og reytti af sér brandarana, nema hvað þeir voru ekkert fyndnir. Svo lauk draumnum skyndilega.

Nú er klukkan að verða níu og ég er að hugsa um að fara út að ganga. Í dag er víst skírdagur. Þegar einfalt og tvöfalt i verða lögð að jöfnu verður þetta skyrdagur. Þá eiga allir á fá sér skyr.

Þetta gekk alveg bærilega. Nú er klukkan að verða tíu. Best að hlusta á fréttirnar.

Hlustaði á þær en varð lítið fróðari við það. Sennilega er það ofætlum hjá mér að ég geti skrifað tvö blogg sama daginn. Þó minnir mig að ég hafi gert það. Því ekki að reyna?

Líklega verð ég að hafa þetta blogg í styttra lagi svo þetta takist. Hef samt langa reynslu  í að skrifa langt mál um lítið efni.

Um síðustu helgi fórum við norður á Akureyri í fermingarveislu. Undir Hafnarfjalli var nokkuð hvasst, en við vorum með Þór í jeppanum hans og höfðum ekki miklar áhyggjur af því. Á leiðinni sáum við að rúta hafði fokið utaf veginum, en þar sem nokkrir flutningabílar voru þar hjá stoppuðum við ekkert og fljólega batnaði veðrið. Á Akureyri var sól og blíða eins og innbyggjarar þar segja að sé alltaf. Eina nótt gistum við á Akureyri. Fengum lánaða íbúðina hjá Rakel en þau voru í fermingarveislu fyrir sunnan og við öfunduðum þau ekki. A.m.k. ekki útaf veðrinu.

Hvergi örlar á snjó hér á Akranesi en á Akureyri var nokkur snjór. T.d. á svölunum hjá Rakel. Götur voru þó auðar. Á heimleiðinni þaðan flýttum við okkur svolítið til að vera á undan lægðinni sem væntanlega var. Það gekk bærilega.

IMG 6947Einhver mynd.


2849 - Notre Dame

Ég hef aldrei komið í Notre Dame kirkjuna og slepp þessvegna naumlega við að lýsa yfir hryggð minni og samstöðu með frjálsum Frökkum. Annars er þessi atburður ekki til að gera grín að. Samt er móðursýkin og gráturinn eftirtektarverður.

Hvernig sem á því stendur finnst mér þessi fontur ekki vera af réttri stærð. Tölvan heldur samt öðru fram og líklega verð ég að sætta mig við það. Síminn minn, eða réttara sagt Fitbitið mitt hélt því fram áðan að meðalhraði minn væri undir 10 mínútum per kílómeter. Þetta er ég alveg viss um að stendst ekki. Einu sinni gekk ég að vísu 5 kílómetrana undir 60 mínútum en það er liðin tíð. Nú er ég orðinn svo gamall að ég kemst með engu móti svona hratt áfram.

Í gamla daga sagði mamma alltaf að þar sem rottur væru þar væru ekki mýs. Þórarinn Þórarinsson sem kannski er Tíma-Tóta son skrifaði um rottur í bakþönkum Fréttablaðsins síðastliðinn föstudag. Í lokin segir hann:

„Þar sem er fólk eru rottur. Hefur alltaf verið þannig og verður alltaf, þannig að það verður bara að hafa það og ég verð að játa mig sigraðan í baráttunni við óttann og rotturnar.“

Þetta held ég að sé ekki rétt hjá honum. T.d. er ég nokkuð viss um að í alþjóðlegu geimstöðinni eru engar rottur. Jafnvel ekki einu sinni mýs. Þó er ég ekki alveg viss um að allir séu mennskir sem þar eru eða voru.

Í íslenskri fyndni eða íslenskum þjóðsögum er frá því sagt að kerling ein hafi mælt fram þessa vísu af gefnu tilefni.

Mörgum þótti málug ég,
mælti kerling skrýtileg.
Þagað gat ég þó með sann
þegar hún Skálholtskirkja brann.

Eiginlega er ekki hægt að blogga nútildax án þess að minnast á þriðja orkupakkann. Sennilega er ekki mikið um hann að segja. Minnir að ég hafi verið búinn að afgreiða hann fyrir nokkru.

Var að skoða gömul blogg og ýmislegt fleira sem ég fann svona hálfgert óforvarendis á tölvunni minni. Sömuleiðis er ég sífellt að fá einhverjar áminningar og þessháttar frá fésbókinni. Þó mér þyki hún yfigangssöm og fjandanum leiðinlegri stundum, þá get ég ekki annað en notað þessi ósköp. Það er næstum ómögulegt að hunsa hana. Kannski ég birti eitthvað gamalt hér á blogginu mínu. Alveg er ég hissa á því hvað ég hef verið frumlegur stundum.

Sem betur fer er fésbókin ekki fitandi. Þó styður hún hegðun sem valdið getur offitu. Þetta er efni sem ég á kannski eftir að fara betur ofaní í framtíðinni. Látum þetta nægja að sinni.

Annars er ég í nokkurskonar páskafríi frá bloggskrifum núna. Aðdáendur mínir (ehemm – þeir gætu verið nokkrir) eru beðnir um að örvænta ekki. Ég mun ná mér að fullu og skrifin koma aftur.

IMG 6953Einhver mynd.


2848 - Assange

Klaustursmálið er greinilega ekki til útflutnings. Það sýndi eftirherman Guðmundur Brynjólfsson greinilega. Að vísu minnist ég þess ekki að hafa séð eða hlustað á ræðuna hans Bergþórs Ólasonar, en eftirherman var góð. Á þeim tíma sem Klaustursmálið var sem mest til umræðu átti ég alveg von á því að Alþingi gæti ekki höndlað þessa heitu kartöflu. Í baksýnisspeglinum sýnist mér að „von Sigmundur“ og kallari hans eða stallari Gunnar Bragi Sveinsson hafi tapað mestu á þessu Klaustursmáli en Lilja Alfreðsdóttir og Klausturbarinn sjálfur hafi grætt mest.

Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr snúast bandarísk stjórnmál að mestu um Trump forseta um þessar mundir. Kannski finnst okkur Íslendingum þetta Assange mál afar merkilegt en greinilega finnst Bandaríkjamönnum það ekki. Okkur finnst það kannski merkilegast af því að Kristinn Hrafnsson er talsvert involveraður í það. Bandaríkjamenn hugsa ákaflega mikið um allskyns „hemmelighedskræmmerí“ og með ýmsu öðru er það áreiðanlega ein af ástæðunum fyrir „superpower-status“ þeirra.

Það sem Bandaríkjamenn hafa fyrst og fremst við Assange og Wikileaks að athuga núorðið er að þeir og fyrst og fremst Demókratar, telja að hann og samtökin hafi með öðru og öðrum stuðlað að því að Tromparinn hafi á sínum tíma sigrað Hillary Clinton. Að mörgu leyti er þetta að verða úrelt vangavelta og hætt er við að Assange sé að verða það líka. Að flestu leyti er þetta mál hið athyglisverðasta samt í alla staði og t.d. er alveg eftir að sjá hvort stuðningsmönnum hans tekst að koma í veg fyrir framsal til USA. Flestir eru búnir að gleyma Manning greyinu þó þau mál öll komi kannski eitthvað til umræðu.

Völd Bandaríkjamanna og afskiptasemi er að sumu leyti skiljanleg þó þetta lítill hluti heimsbyggðarinnar ætti kannski ekki að vera svona yfirgnæfandi. Sú er gæfa þeirra að hafa byggst upp á nákvæmlega réttum tíma. Að hafa náð að sameina svona margar, fjölmennar og ríkar þjóðir og að tala auk þess nokkurn vegin sama tungumálið hefur einnig, öðru fremur, stuðlað að yfirburðum þeirra.

Að halda því fram að Bandaríkjamenn séu sérstakir andstæðingar frjálsrar fjölmiðlunar er í besta falli ósköp ónákvæmt. Frá sjónarmiði flestra ríkja í heiminum er Trump afar misheppnaður sem forseti, en hann er það kannski ekki frá sjónarmiði Bandaríkjamanna sjálfra, sem eru afar hægrisinnaðir samanborið við okkur Evrópubúa. T.d. vilja Demókratar þar mjög gjarnan koma í veg fyrir straum flóttamanna þangað en bara ekki með því að byggja múr eins og Trump vill.

Nú er ég búinn að fimbulfamba nóg um heimsmálin og kannski er best að fara að hætta.

IMG 6963Einhver mynd.


2847 - Skúli og Dónald

Ef í það færi gæti ég svosem sagt ýmislegt um þá fóstbræður Donald Trump og Skúla Mogensen, en það er ýmislegt annað en fréttir dagsins og pólitík, sem mér liggur á hjarta. Hversvegna skyldi ég líka vera að fjölyrða um þessa menn. Nóg er nú skrifað um þá samt. Mér er alveg sama þó það að skrifa ekki um þessa gæja verði til þess að færri lesi þetta blogg en annars mundu gera það. Það er svo margt annað sem er vel þess virði að skrifa um.

Til dæmis gæti ég skrifað um sjálfan mig. Ekki held ég að það yrði til vinsælda fallið. Þessvegna gæti mér einmitt dottið það í hug. Nú er ég nýkominn úr alllangri gönguferð. Þar notað ég appið fitbit en auðvitað trúi ég því mátulega. Eru applausir menn einskis virði? Eftir auglýsingum að dæma frá strætó var ákveðið að hafa ókeypis í strætó í dag vegna mögulegs svifryks. Þó þurftu menn að hafa svokallað strætóapp til þess að geta notið þessa. Öpp eru að verða valdameiri í þessu þjóðfélagi en ríkisstjórnin sjálf, eins misheppnuð og hún er nú. Samt er þetta eiginlega ómerkilegasti hlutur í heimi. Ég kann að vísu ekki mikið á þetta en skilst að ekki séu öll öpp eins. Einu sinni var þetta kallað forrit. Símarnir hafa sennilega heimtað að þetta væri kallað app eða öpp, sem líklega er fleirtölumyndin. Vitanlega væri hreinlegra að hafa þetta eins og á enskunni og setja bara auka s aftan við í stað þess að breyta um fyrsta staf.

Apropos íslesnska vs. enska. Þar gæti ég malað endalaust, enda orðinn nógu gamall til þess. Næstum allir skilja þetta vs, því það er enska og stendur fyrir versus. Það skilja náttúrulega allir. Hins vegar held ég að apropos sé latína eða gríska. Hlandforin enska tekur sennilega þakklát við þessu orði enda eiga flestir orðstofnar greiða leið þangað. Stafsetningin þar er hinsvegar ekki á allra varaforseta færi. Hún er jafnvel flóknari en samsvarandi fyrirbrigði á íslensku.

Sennilega er þetta að verða persónulegt heimsmet hjá mér, a.m.k. Íslands- eða Moggabloggsmet; að minnast hvorki á Trump eða fésbókina. Ýmislegt mætti þó skrifa um. Einsog t.d. Vestmannaeyjaferjuna. Ég er samt ekki Vestmannaeyingur, svo mér þykir þetta næstum því fyndið að Pólverjar skuli ætla að halda skipinu endalaust. Líka mætti skrifa um Orkupakka nr. 3, sem allir virðast vera hræddir við nema Gulli Þórðar. Jafnvel myglu eða Reykjavíkurskákmótið.

Samt er það nú svo að Skúli og Donald hafa visst aðdráttarafl. Einu sinni var það sem Skúli segist ætla að gera kallað kennitöluflakk, en ekki lengur ef marka má vinsælustu fjölmiðla. Sennilega er það ekki á allra færi að setja flugfélög á hausinn. Tromparinn er víst mikið á móti flóttamönnum. Næstum því eins illa við þá og fjölmiðlamenn og er þá mikið sagt. Annars er ég ekki viss um að hann hugsi mikið um annað en forsetakosningarnar á næsta ári. Spennandi er að verða kapphlaupið demókratamegin. Repúblikanar hafa allsekki neinn betri kost en Tromparann. Pólitíkin í Bandaríkjahreppi er orðin illvígari en áður var, segja menn. Kannski Trump valdi þessu.

IMG 6964Einhver mynd.


2846 - Sólveig Anna

„Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar.“ Þessi grein í kosningalögum lætur lítið yfir sér en hefur verið áhrifavaldur í íslenskum stjórnmálum; stýrt örlögum ríkisstjórna og valdið fjöldamótmælum.“

Þessa klásúlu tók ég uppúr bakþönkum Fréttablaðsins, sem yfirleitt eru ekki annað en einskonar blogginnlegg. Að vísu koma þeir fyrir augu margra og eru hugsanlega mikið lesnir. Ég breytti engu þarna og lagfærði ekki neitt nema ég aðlagaði fontinn svolítið.

En hvað er almenningsálit? Og hvað er svívirðilegt? Þarna virðist vera talsverður efi. Er það almenningsálit sem meirihluti kjósenda vill? Og hver mælir það? Er það kannski ríkisstjórnin, sem ræður því hvað er almenningsálit? Uppreist æra er greinilega nokkuð mikils virði. Ráðherrar og aðrir valdamenn umgangast þetta ákvæði samt af mikilli léttúð.

Kannski er ég ansi seinn á mér að ræða um uppreista æru. Mikið er búið að fjasa um hana og nú er Sigga þar að auki komin í skammarkrókinn.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar virðist mér að sé ansi ósátt við nýgerða kjarasaminga. Ég er það eiginlega líka. Þó hefur Sólveig ekki verið svo ósátt við þá að henni hafi fundist taka því að vera með mikil læti. Sífelldar seinkanir á blaðamannafundum hafa líklega verið henni að kenna. Af hverju það var álitið nauðsynlegt að ríkisstjórnin fengi að auglýsa sig í sambandi við lok kjarasamninganna, veit ég ekki.

Margt þykir mér nokkuð gott í tillögum ríkisstjórnarinnar, en ég man ekki betur en hún hafi verið talin hafa svikið allt sem lofað hafði verið. Annars er til siðs að skipta ört um ríkisstjórnir og hvað verður þá um loforðin. Hvernig eru uppsagnarákvæði þessa samnings? Hversvegna á að trúa ríkisstjórninni núna? Ég óttast satt að segja að hún túlki öll sín loforð eftir sínu höfði, en ekki höfðum annarra. Auk þess kemur margt af þessu sem lofað er ekki til framkvæmda fyrr en eftir næstum ár. Kannski verða aðstæður allt aðrar þá. Sólveig Anna talar um vopnahlé. Samkvæmt því gerir hún ráð fyrir því að verkalýður og valdsmenn séu óvinir. Hugsanlega er þetta dálítið langt vopnahlé.

Mér finnst fésbókin vera sífellt að versna. Ég er eiginlega næstum hættur að fara þangað. Kannski er það einkum vegna þess að ég er búinn að safna nærri 900 fésbókarvinum og það er greinilega alltof mikið. Ég reyni samt að fara þangað einu sinni eða jafnvel tvisvar á dag og á það til að óska þeim sem ég þekki vel til hamingju með afmælið ef þeir eru fésbókarvinir mínir. Undanfarnar vikur finnst mér bókarfjandinn hafa farið stórversnandi og allir virðast geta ruðst þar inn. Auglýsingafarganið og óskiljanleikinn er líka að aukast stórlega þar. Sennilega er best að halda sig sem mest við Moggabloggið það hentar mér greinilega betur. Þýðir samt ekki að áróður Sjálfstæðisflokksins hafi mikil áhrif á mig.

Fermingar og Páskar fara nú í hönd svo sennilega er best að vera sem jákvæðastur. Annars hefur mér fundist að óhófleg bjartsýni sé ekki hótinu skárri en hæfileg svartsýni.

IMG 6973Einhver mynd.


2845 - Þórður Tómasson

Nú er orðið talsvert umliðið síðan ég bloggaði síðast. Held að ég hafi ekkert skrifað um Wow-gjaldþrotið þó það hafi að sjálfsögðu verið ein helsta frétt liðinnar viku. Meðan beðið er eftir því hvernig kjarasamningum ljúki er svosem hægt að fabúlera eitthvað um það. Ég á ekki von á því að áhrifin verði mjög mikil. Sennilega verða þau þó mun meiri en ríkisstjórnin og fleiri bjartsýnisspámenn álíta. Verðbólgan gæti farið svona í 5 til 10 prósent og atvinnuleysi orðið vandamál. Samt er ástæða til að vera vongóður held ég. Nokkuð áreiðalegt er að sú kreppa sem að líkindum mun ríða yfir vegna þessa gjalþrots og tómlætis ríkisstjórnarinnar verður ekki nærri eins hörð og sú sem reið yfir á árunum 2007 og 2008.

Ekki er hægt að álíta annað en gjaldþrotið stóra hafi haft mikil áhrif á kjaraviðræðurnar. Sennilega hefur auðvaldið hagnast á því og Skúli sleppur sennilega með skrekkinn. Enginn þarf að segja mér að hann hafi ekki haft vit á að koma peningum undan. Eins og fyrri daginn eru það þeir sem minnst mega sín sem tapa mestu.   

Hvað sem verkalýðsforkólfar segja er ég sannfærður um að verðtryggingin sem slík getur bjargað mörgum. Það er vísitöluviðmiðunin sem öllu ræður í því sambandi. Vitanlega getur í sumum tilfellum verið hagstæðara að taka óverðtryggð lán. Launin eru samt of lág fyrir marga, þannig að þeir eru sífellt að elta verðbólguna ef hún er mikil. Skilin milli orsakar og afleiðingar eru ekki alltaf skýr. Helstu óvinir þeirra sem vilja koma sér upp þaki yfir höfuðið eru hátt leiguverð, hvaða liðir eru hafðir með í þeirri vísitölu sem notuð er við verðtryggingu, greiðslumat það sem bankahítin skammtar sér og notar til að skilja sauðina frá höfrunum, háir vextir og gróðabrall margra í gegnum airbnb. Sumt að þessu mun lagast af sjálfu sér við þá minnkun á hagvexti sem fyrirsjáanleg er.

Annars er pólitíkin eins og vant er afleit tík og ég vil helst ekki fjölyrða meira um hana hér. Þá er nú skemmtilegra að íhuga svolítið horfa starfshætti eins og Þórður Tómasson sem kenndur er við Skóga gerir í tiltölulega nýlegri bók sinni sem hann nefnir „Heyannir“ og ég fékk lánaða á bókasafninu í gær. Það má eiginlega ekki á milli sjá hvort skemmtilegra er að lesa hana eða halda áfram með þetta blogg.

Á tiltölulega langri ævi hef ég tvívegis komið í safnið að Skógum. Í bæði skiptin hefur Þórður Tómasson verið þar og ég átt þess kost að skiptast nokkrum orðum á við hann. Í fyrra skiptið var hann safnvörður þar og við fjölskyldan einu safngestirnir. Hlýja hans og lifandi áhugi á fólki og safnamálum hefur orðið til þess öðru fremur að hann er tvímælalaust með eftirminnilegustu mönnum sem ég hef fyrir hitt.   

Scan90Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband