2844 - 18 skott á einum hundi

Ef að sé og ef að mundi

átján skott á einum hundi.

Slysaðist inn á einhverja yfirheyslu þingmanna yfir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra í sjónvarpinu um daginn. Þennan húsgang kannaðist hann við, þó hann sé ekki sérlega góður upplesari. Þegar ég kveikti á sjónvarpinu var hann að lesa uppúr einhverri skýrslu og rak í sífellu í vörðurnar. Svörin við spurningunum sem lagðar voru fyrir hann vöfðust líka svolítið fyrir honum og þingmönnunum virtist ekki þykja mikið til þeirra koma. Fréttir af þessu snerust mest um það sem gerðist eftir yfirheyrsluna en það sá ég ekki. Tilfærða vísubrotið fannst mér það merkilegasta sem hann sagði. Það stafar sennilega af skorti á hagfræði- og lögfræðilegum áhuga hjá mér. Kannski líka á pólitískum áhuga því allt stjórnast þetta af pólitík. Held jafnvel að búið sé að reka hann. Er samt ekki alveg viss.

Ekki veit ég af hverju ég er að þessu sífellda skrifelsi. Einhvers konar þerapía er það sennilega. Mér finnst oft eins og ég hafi eitthvað að segja. Svo finnst mér í annan tíma eins og þetta sé ósköp ómerklegt sem ég læt frá mér fara. Aðallega er þetta kannski einhvers konar elliærleiki hjá mér. Annars hef ég skrifað meira og minna frá því ég man eftir mér. Ágætt er að láta það á þennan hátt frá sér fara og þurfa svo ekki að hafa áhyggjur af því meira. Kannski kommenta einhverjir og þá þarf maður sennilega að svara því en að öðru leyti hef ég afar litlar áhyggjur af því sem ég skrifa. Dagbók er þetta ekki, nema að litlu leyti. Daglega og hrútleiðinlega atburði leiði ég hjá mér, en kommenta a.m.k. núorðið aðallega á fréttir, íslensku og þessháttar. Að sumu leyti er þetta einskonar dagbók hjá mér því a.m.k. er þetta einhverskonar samsafn þess sem mér dettur í hug að skrifar um.

Hjartalæknirinn minn, hann Þorbjörn sonur hans Gauja Stefáns sem ég kannaðist við á mínum yngri árum og kynntist svo lítilsháttar aftur í Borgarnesi seinna meir, en þar var hann að ég held forstjóri Sambands sveitarfélaga, sennilega á Vesturlandi, frekar en á öllu landinu. Annars man ég þetta ekki svo gjörla nema áðuráminnstur Þorbjörn segir að ég sé með gúlp á ósæðinni og vill ekki að blóðþrýstingurinn sé mjög hár. Blóþrýstingslækkandi lyf tek ég á hverjum degi í fjölbreyttu úrvali.

Á hverjum degi (eða næstum því) fer ég í all-langa gönguferð og segi fitbitinu mínu frá því og leyfi snjallsímanum að koma með. Meðfram öðru er það vegna innbyggðrar myndavélar í honum sem ég geri þetta. Fitbitið segir mér svo hve langt ég hef farið og hver meðalhraðinn er o.s.frv. Það er helst að mikil hálka, hellirigning, lasleiki og þess háttar haldi aftur af mér að fara í þessar daglegu gönguferðir mínar. Oftast fer ég allsnemma á morgnana og yfirleitt útað Elliheimilinu úti á Höfða og að sjálfsögðu til baka aftur. Best finnst mér að hugsa ekki neitt meðan á þessum klukkutíma löngu gönguferðum mínum stendur.

Eins og margir vita kostar að aka bíl í miðbæjum sumra stórborga. Man til dæmis ekki betur en eitthvað kosti að keyra um í London. Hingað til hafa bandaríkjamenn ekki viljað vita af þessari aðferð við að stýra umferð og ekki tíðkast hún þar. Nú hefur nýlega verið samþykkt að taka slíkt samt upp í New York. Fróðlegt verður að vita hvernig það gengur. Með nútímatækni og almennilegum myndavélum ætti það ekki að vera framkvæmdalegt vandamál. Spurning samt hugsanlega með greiðsluviljann. Verður þetta ekki aðallega leigubílaskattur?

Uppáhalds pistlahöfundur minn þessa dagana er Sif Sigmarsdóttir. Það er ekki nóg með að hún sé feministi fram í fingurgóma heldur kemst hún hvað eftir annað einstaklega vel að orði. Skoðanir hennar eru líka oftast þannig að vel er hægt að taka undir þær. Aftur á móti er ég fullur af fordómum í garð margra annarra kvenna sem skrifa reglulega í útbreidda fjölmiðla. Auðvitað hef ég líka allskonar fordóma í garð karlmanna, sem slíkt gera, einkum þó Páls Vilhjálmssonar, en það er önnur saga.

Scan96Einhver mynd.


2843 - Maduro og Rögnvaldsson

Það er svo sannarlega ekkert gamanmál ef stórt flugfélag fer á hausinn, en satt að segja finnst mér þetta WOW-mál vera orðið dálítið langdregið. Ég hef svosem ekkert gáfulegt til málanna að leggja hvað þetta snertir, enda er sérþekking mín á þessu sviði engin. Þetta yfirvofandi gjaldþrot er búið að tröllríða fjölmiðlum nokkuð lengi og mér finnst vera kominn tími til að fá einhvern botn í málið. Indigo og Icelandair voru ekki þeir botnar sem sumir bjuggust við.

Illa gengur að koma Maduro frá völdum í Venesúela, þó mikið hafi verið reynt. Enn er ég þeirrar skoðunar að mikil mistök hafi þar verið gerð við stjórn landsins. Mér finnst líklegast að um þrjár leiðir sé einkum að velja fyrir Venesúela-búa: 1) að koma Maduro frá völdum 2) að hann haldi völdum og bæti ráð sitt verulega. 3) borgarastyrjöld. Sú þriðja er langverst og kannski tekst að koma í veg fyrir hana. Stjórnarfar í öðrum löndum kemur okkur að sjálfsögðu ekkert við og ég man að ég var hálf-hissa á því að ESB skyldi taka afstöðu í þessu máli. Afstaða USA kom mér aftur á móti ekkert á óvart né afstaða Kína og Rússlands.

Þetta eru þau mál úr fréttum sem mér finnst skipta mestu máli: Verkföll og vinnudeilur hér innanlands held ég að leysist fljótlega. Jafnvel að loðnan komi í einhverjum mæli. Strompurinn hér á Akranesi er loksins farinn og í maí næstkomandi fer ég ásamt fleirum kannski til Ítalíu. Þó ekki með WOW.

Einhversstaðar las ég að byssueign í Bandaríkjum Norður-Ameríku væri u.þ.b. 120 stk. á hverja 100 í búa. Næst á eftir kæmi Jemen með svona 40 á hverja 100 íbúa. Litla Ísland er víst ofarlega á þessum lista með vel yfir 30 byssur á hverja 100 íbúa. Sennilega er það ekki byssufjöldinn sem mestu ræður um morð og þessháttar heldur vopnalöggjöf. Hér á landi er sennilega einkum um að ræða riffla, haglabyssur og gamlar kindabyssur, en skammbyssur og hernaðarvopn held ég að séu sjaldgæf mjög. Riffil átti ég eitt sinn en man satt að segja ekki hvað um hann varð. Hálfa Húskvarna haglabyssu átti ég líka eitt sinn. Það er að segja með öðrum. Kannski fór riffillinn þar.

Ekki þarf nú mikið til að maður komist í skrifgírinn. Nú er ég farinn að bloggi næstum daglega aftur. Ekki veit ég af hverju þetta stafar. Og ekki veit ég heldur af hverju það komu svona margir inn á bloggsíðuna mína um daginn þó ég hafi ekkert bloggað þá. Hingað til hef ég álitið að til þess að vera lesinn að einhverju ráði þurfi að skrifa eitthvað. Kannski hef ég rangt fyrir mér að þessu leyti.

Held að það hafi verið hann Eiríkur Röngvaldsson (bróðir hennar Nönnu) sem var að verja þágufallssýkina um daginn. Alveg er ég sammála honum þar. Ég tek varla eftir því þó sagnir séu látnar stýra röngu falli miðað við það sem manni var kennt í æsku. Svipað má segja um réttritun. Sjálfur hef ég hana nokkurn vegin á valdi mínu. Samt er það svo að sumar ypsilon-villur þykir mér ljótari en aðrar. Mismunandi merkingar í því sambandi trufla mig stundum og stundum ekki. Í heildina held ég að ég sé réttritunar og málfars-fasisti, en ég reyni samt oftast að láta augljósar villur i útbreiddum fjölmiðlum ekki fara um of í taugarnar á mér.

IMG 6979Einhver mynd.


2842 - Verkföll og fl.

Nei, ég er svosem ekki alveg hættur að blogga. Samt er það svo að á því má þreytast eins og mörgu öðru. Ekki nenni ég að vera bergmál af því sem aðrir skrifa. Þó eru öll skrif þannig að betur má gera og þar að auki er engin hugsum með öllu frumleg. Fréttafíkn mín hefur ekkert minnkað og margt og mikið hefur verið í fréttunum að undanförnu. Mínar skoðanir á heimsmálunum hafa lítið gildi. Ef ég fabúleraði einkum í þessu bloggi um mig sjálfan og mitt líf mundi lesendum mínum sjálfsagt stórfækka. Þó veit ég allsekki hvort margir eða fáir lesa þessar hugleiðingar mínar og við hvað á að miða í því efni. Einu sinni (já, ég er búinn að blogga ansi lengi) áttu ýmsir það til að kommenta á mín skrif. Nú er það að mestu hætt. Sennilega fá flestir nóg af sinni skrifnátturu á fésbókinni. Sjálfum finnst mér hún eins og hver annar kjaftavaðall. Stundum merkileg en oftast hundleiðinleg. Hef stundum þegar mér leiðist óvenjumikið skoðað gömul eigin blogg og þau eru satt að segja oft býsna fróðleg. Fyrir mig altsvo. Ekki geri ég ráð fyrir að aðrir skoði þau.

Það er leiðinlegt að þurfa að segja það, en ég held að eitt helsta vandamál stjórnmálanna í dag sé það, að forsætisráðherrann okkar, hún Katrín Jakobsdóttir, sé bara heldur vitgrönn. Það sem ég hef fyrir mér í því er að hún er alltof eftirgefanleg við BB, sem greinilega er með skýra sýn á það sem hann helst vill. Ég er ekki svo skyni skroppinn að ég haldi að þau tvö vilji ekki þjóðinni allt það besta. Samt er það svo að KJ lætur alltof mikið eftir Steingrími (sem þykist eiga VG) og BB. Steingrímur hugsar um það helst og fremst að yfirgefa stjórnmálin með því sem hann telur sæmilegri reisn og peningum. Honum er fjandans sama um flest annað. Stóð sig samt sæmilega í endurreisn Íslands eftir Hrunið, en heldur ekki meir.

Skýrasta dæmið um hringlandahátt Katrínar og hina takmörkuðu hugsun hennar er að hún skyldi kjósa með Sigríði dómsmálaráðherra þegar vantraust á hana fyrir nákvæmlega það sama og mannréttindadómstóllin fordæmdi hana fyrir var til umræðu. Auðvitað má segja að loksins hafi hún séð ljósið þegar hún krafðist þess að Sigríður færi frá. Sennilega var það bara alltof seint. Kannski lafir þessi svokallaða ríkisstjórn okkar eitthvað áfram, en hún er rúin öllu trausti og fer áreiðanlega frá áður en kjörtímabilið er á enda. Læt ég svo lokið stjórnmálaskrifum mínum í þessu bloggi.

Umræður á fésbókinni um flóttamenn og hælisleitendur er orðin slík að ég forðast að líta þangað. Umræður um verkfallsmál eru keimlíkar þar, en þó öllu skárri. A.m.k. stundum. Þó Morgunblaðið sé lítið betra en fésbókin að flestu leyti, verð ég að hrósa þeim sem þar ráða ríkjum (eða ríða rækjum) fyrir fréttaskrifin. Þau eru miklu betri og ítarlegri þar en víðast hvar annarsstaðar. Einhverjir eru það sem jafnaðarlega lesa það sem nýlegast og best er á Moggablogginu. Alveg er mér sama þó það séu fyrst og fremst íhaldskurfar, sem á það skrifa. Yfirleitt eru þeir ekki á sömu skoðun og ég í stjórnmálum. Halda má því fram að ekki veiti af að kristna þá. Vinstri sinnuðum skoðunum biðst ég ekki afsökunar á.

IMG 7003Einhver mynd.


2841 - Landsdómur og Brexit

Það sem ég hef um þetta landsdómsmál að segja er ekki mikils virði í stóra samhenginu. Mitt álit á því sem gerst hefur er það að Katrín hafi látið þess getið við Bjarna að hún væri mjög óhress með Sigríði og hann drifið sig í að reka hana. Furðulegt að hann skuli ekki hafa losað sig við hana fyrr. Eðlilegt er að gefa henni kost á að segja sig frá málinu með sínu lagi. Samt er það augljóst að hún hefur verið rekin. Skiljanlegt er samt að virðing alþingis mun ekki skána neitt við þetta. Í mínum huga er það augljóst að dómsmálaráðherrann (fyrrverandi, á maður víst að segja) hefur platað alþingi og troðið sínum skilningi í fyrsta lagi ofan í Bjarna og ríkisstjórnina og síðan í meirihluta alþingis, (sem ríkisstjórnin ræður, þó svo eigi ekki að vera.) Kannski fer ríkisstjórnin í fýlu vegna þess að skilningur Mannréttindadómstólsins er alls ekki sá sami. Vegna ástandsins á þinginu er ekki ólíklegt að ríkisstjórin hangi samt áfram. Augljóst er að hagur Katrínar batnar svolítið við þetta alltsaman.

Brexit-málið er allt orðið svo skrýtið að ég þori eiginlega ekki að segja nokkurn skapaðan hlut um það. Þó snýst það á margan hátt um stjórnskipulagið sjálft, eins og landsdómsmálið gerir hér á landi. Það sem mig stansar á er að ESB vill gjarnan láta Breta fara út með góðu öfugt við það sem USA gerði á sínum tíma. Sennilega snýst þetta í grunninn allt saman um það að þegar um hægist og allt kemur til alls þá muni Bretar vilja komast aftur í Sambandið og ekki vilja þeir koma skríðandi þangað.

Það sem andstæðingar bandalagsins, og þeir eru fjölmargir, halda aðallega fram er að þróunin innan ESB sé öll í átt til stórríkis. Þar er ég að mestu sammála, en vil halda því fram að stærri ríki og öflugri séu það eina sem fái bjargað heiminum ef til langs tíma er litið. Litlu ríkin séu líklegri til að láta reka á reiðanum í loftslagsmálum, en þau stóru. Ég held t.d. að áður en mjög langt um líður muni USA snúast á sveif með náttúruverndarsinnum. Það er eina vonin. Á sama hátt og Trump bandaríkjaforseti er greinlega öfgamaður í andstöðu sinni við slík sjónarmið eru þeir til sem eru algjörir öfgamenn í hina áttina. Einsog fyrri daginn er það miðjumoðið sem blívur.

Hátíðleikinn og alvaran lekur af þessu bloggi sé ég núna. Því er réttast að taka upp léttara hjal. Veit bara ekki hvað það ætti að vera. Helst dettu mér í hug að segja eins og eina sýslumannssögu. Gallinn er bara sá að ég man ekki eftir neinni í augnablikinu. En einhverntíma verð ég að hætta.

IMG 7004Einhver mynd.


2840 - Alvarlegu augun hennar Katrínar

Það er nú svoleiðis með þessa ríkisstjórn sem við höfum yfir okkur að BB er greinilega sterki maðurinn þar. Auðvitað ræður Katrín einhverju en það virðist vera heldur lítið. Seðlabankinn heyrir beint undir hana að ég held. Sennilega lætur hún svona þessvegna.

Bjarni virðist hafa skýra sýn á það hvernig hann vill að mál þróist. Katrín aftur á móti ekki. Hún er að vísu einskonar verkstjóri ríkisstjórnarinnar, en ræður samt næstum engu. Sem betur fer segir sennilega þessi fjórðungur kjósenda sem Sjálfstæðisflokkurinn og Bjarni líta á sem áskrifendur að framboðslistum FLOKKSINS.

Einu sinni vildi Bjarni styðja þá innan flokksins sem vildu aðild að EBE. En ekki lengur. Hann sá nefnilega að það var auðveldara að virkja þá sem voru andsnúnir slíkri inngöngu og færa flokkinn með hægðinni að Bandaríkjunum og stefnu repúblikana þar. Vitanlega eru Bandaríkjamenn búnir að snúa baki við hreinræktuðum kapítalisma. Pútín er líka hættur við kommúnismann. Fer ekki lengra útí heimspólitík að þessu sinni.

Verkfallið hefur þegar valdið fjárhagslegu tjóni, æpir Mogginn í nýlegri forsíðufyrirsögn. Að sjáfsögðu. Slíkt er eðli verkfalla. Ef þau mundu engu fjáhagslegu tjóni valda væri sennilega best að allir væru alltaf í verkfalli. Hingað til hafa verkfallssjóðir slett einhverri hungurlús í þá sem farið hafa í verkfall. Allsherjarverkföll hafa tíðkast umfram annað og SA vill helst hafa þann háttin á áfram. Hinsvegar á núna, að mér skilst, að bæta fólki það að fullu að hafa farið í verkfall. Meðal annars þess vegna er ætlast til þess að sem fæstir fari í slíkar aðgerðir, en valdi samt sem mestu tjóni. Hugsanlega verður það til þess að einhverjir vakna. Verkföll og loðnubrestur er samt það sem ég vil helst ekki tala mikið um á þessu bloggi mínu. Sama er að segja um Mannréttindadómstól Evrópu, Landsréttinn svokallaða og flugvélar af sérstakri gerð.

„Villi í Köben“ er nú farinn að athugasemdast svolítið hér á blogginu mínu. Í mínum augum er hann bara Villi í Köben hvað sem hann kallar bloggið sitt.

Myglusýkin er að komast á alvarlegt stig. Kannski eru þau viðbrögð að rífa heilu skólana full drasisk. Hugsanlega þarf að athuga þetta alltsaman betur. Kannski er mygla bara holl fyrir suma. Greinilega eru samt einhverjir með ofnæmi fyrir henni. En að rífa heilu skólana, ekki líst mér nógu vel á það.

Fréttablaðið veifar því mjög í fyrirsögn að tæp 95 prósent Íslendinga vilji bólusetningarskyldu. Þetta held ég að sé of í lagt. Ég held að flestir Íslendingar séu því fylgjandi að bólusetningar séu oftast nauðsynlegar. Hinsvegar hefur verið óregla á þessu og ekki alveg á hreinu hverjir eiga að sjá um þetta. Ekki er víst að öll þessi 95 prósent vilji umfram allt að þetta verði að skyldu. Leikskólar og aðrir skólar ættu þó að geta krafist þess að börn sem þar fá inni séu bólusett.

IMG 7006Einhver mynd.


2839 - Grindamígur og stakketpisser

Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Moggans lætur ekki deigan síga.

Er nú ekki kominn tími til að þingmenn og ráðherrar horfist í augu við sjálfa sig og viðurkenni þau mistök sín að hafa ekki brugðizt við ákvörðunum Kjararáðs sumarið og haustið 2016 með því að afnema þær með lögum eins og tvö fordæmi voru fyrir? 

Þessa kveðju fengu alþingismenn frá honum alveg nýlega. Mér er ekki grunlaust um að hann og reyndar margir fleiri hafi ætlast til að Alþingi (með stórum staf í tilefni dagsins) brygðist við með öðrum hætti en þeim sem Katrín forsætisráðherra gumar sem mest af.

Og svo furðar þetta vesalings lið sig á því að virðingin minnki!!!!!  Það er hreint út sagt furðulegt að hún skuli ekki vera í algjöru núlli.

Einn af kostunum við að vera orðinn svo gamall, að einu tekjurnar sem maður hefur er það sem manni er skammtað af lífeyrissjóðum og öðrum opinberum aðilum, er sá að það er afar fljótlegt og auðvelt að gera skattframtalið. Nú er ég semsagt búinn að því og samþykkti allt sem þar var haldið fram af ríkisskattstjóra. Það er hampaminnst. Ekki þýðir að gera alltaf ráð fyrir að verið sé að svindla á manni. Þetta tók fljótt af og var alveg þrautalaust. Man að það var talsverður höfuðverkur hérna áður fyrr. Annars eru kostirnir fáir. Við að vera gamall altsvo. Meira að segja það að geta sofið út alla daga verður hversdagslegt með tímanum.

Kannski ég haldi bara áfram með sýslumannssögurnar mínar: Einhverntíma var sýslumaður á Húsavík. Kannski hét hann Júlíus Hafsteen. Í mínu minni var hann jafnframt kaupfélagsstjóri. Í kringum kaupfélagið var grindverk. Nauðsynlegt er að geta þessa útaf sögunni þó ekki tíðkist slík ósköp nú orðið. Bændur úr nágrenninu áttu það til að staupa sig svolítið þegar farið var í kaupstað. Bóndi einn sem sýslumaður kannaðist við þurfti að létta á sér uppvið grindverkið. Þá varð sýslumanni að orði:

„Jón grindamígur, bóka það.“

Nú líður og bíður unz bóndi þessi fær bréf frá kaupfélaginu. Um tilefnið veit ég ekki, en sendibréf voru sjaldgæf í þann tíð. Untanáskriftin var eftirfarandi:

Jón bóndi og grindamígur Jónsson
Efri-Brunná
Skefilsstaðahreppi

Bæjarnafnið og hreppurinn eru mín hugarsmíð og passar áreiðanlega ekki. Bóndi var að sjálfsögðu ekki par hrifinn af þessu uppnefni og óð inná skrifstofu kaupfélagsins öskureiður þegar hann átti næst erindi í kaupstaðinn.

Kaupfélagsstjóri og bóndi töluðu lengi saman inni á skrifstofu þess fyrrnefnda og þegar þeir komu þaðan út var bóndi mun hressari í bragði.

Þegar skrifari spurði hvort hann ætti að breyta þessu í bókum félagsins svaraði stjórinn:

„Já, okkur kom saman um að í stað orðsins grindamígur kæmi orðið stakketpisser.“

IMG 7009Einhver mynd.


2838 - "Er þetta hægt, Matthías?"

Stundum verða fræg og margtilvitnuð tilsvör til á annan hátt en flestir gera ráð fyrir. Þannig er því t.d. varið með setninguna: „Ýsa var það, heillin!“ Til er heil þjóðsaga um tilurð þessarar setningar og líklega er hún í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Ég ætla samt ekki að lýsa nákvæmlega hvernig sú saga er, enda held ég að flestallir kannist við hana.

Sagt er að saga þessi sem ég ætla að segja hér hafi gerst á Ísafirði. Sýslumaður var að yfirheyra stúlkukind í barnsfaðernismáli. Hún lýsir nákvæmlega hvernig barnið hefði komið undir og segir að samfarir þær sem leiddu til barnsburðarins hefðu farið fram í bát nokkrum sem sýslumaður þekkti vel. Meðal annars lýsti hún því í smáatriðum í hvernig stellingum þau barnsfaðirinn hefðu verið við samfarirnar.

Sýslumaður fylgist með frásögn hennar af miklum áhuga og eftirtekt. Skyndilega víkur hann samt máli sínu til skrifara síns og segir stundarhátt:

„Er þetta hægt, Matthías?“ Ekki fer sögum af því hverju Matthías svaraði, en þetta þótti ágæt saga og mátulega klámfengin á síðustu öld.

Auðvitað ætti ég frekar að vera að fjalla um verkfallsmál eða heimspólitík en að vera að endursegja sögur úr Íslenskri Fyndni. Reyndar veit ég ekki hvort þessi er ættuð þaðan, en hún gæti vel verið það. Hugsanlega er ég ekki einn um það að hafa áhuga á því sem Donald Trump gerir eða gerir ekki samkvæmt frásögnum pressunnar. Ekki dettur mér í hug að trúa öllu sem ég heyri og þarf ég ekki Trump til.

Innanbúðarmaður í Hvíta húsinu er ég heldur allsekki, en jafnan virðist mér að dagblöð og sjónvarpsfréttafólk þar vestra hafi eftir slíkum allar þær vammir og skammir um Trump greyið sem þangað rata. Kannski er þagað yfir sumu sem ástæða væri til að gera frétt um. Annars virðist mér Trump vera náskyldur Sigmundi Davíð að því leyti að hann á greinilega erfitt með að hreyfa sig án þess að setja heimsmet.

Nú þykist ég vera búinn að afgreiða Trump, Sigmund Davíð og Íslenska Fyndni að ógleymdum Matthíasi sjálfum í þessu bloggi og get þess vegna snúið mér að öðru.

Eitt er það sem ég hef hingað til ekkert minnst á í þessu bloggi er fésbókin. Facebook, Google, Amazon, Microsoft og Apple virðast ráða mun meiru en flestar ríkisstjórnir. Sameiginlegt með þeim öllum er að yfirburðir þeirra grundvallast á Internetinu. Einu sinni voru bandaríksku bílafyrirtækin eins og Ford og Chevrolet álitin nokkuð stór, en það er liðin tíð. Kvikmyndafyrirtækin í Hollywood þóttu líka valdamikil í eina tíð.

Hér á Akranesi eru krakkarnir byrjaðir að kríta á gangstígana, svo vorið hlýtur að vera á næsta leiti. Vonandi verður veðurlagið svona áfram. Ég er búinn að fá nóg af snjó og hálku. Daginn er líka greinilega tekið að lengja. Það væri alveg í lagi að sleppa páskahretinu að þessu sinni.

IMG 7015Einhver mynd.


2837 - Ebóla og mislingar

Hugsanlegur mislingafaraldur hér á landi er ekki alvarleg heilsuógn. Bólusetningar og menntun alls almennings veldur því. Auk þess eru mislingar, þó hættulegir séu, ekki eins hættulegir og sumar aðrar pestir geta verið. Margar pestir eru einkum hættulegar fyrst í stað meðan bóluefni hefur ekki fundist eða er ekki framleitt í nógu miklu magni.

Í Kongó í Afríku er t.d. núna verið að glíma við ebólu-faraldur, en slíka pest höfum við hingað til ekki þurft að óttast að neinu leyti og þurfum áreiðanlega ekki heldur núna. Bóluefni er þar til staðar, smitleiðir kunnar og allar líkur á því að heilbrigðisstarfsmenn muni ná að kæfa þann faraldur í fæðingu.

Þó við Íslendingar þurfum ekki að óttast veikindi að neinu marki eru óneitanlega ýmis merki sem benda til þess að vorkoman verði okkur ekki eins mikill ánægjuauki og oft áður. Verkföll, loðnubrestur og versnandi hagur að mörgu leyti veldur því. Túristum fer líklega einnig eitthvað fækkandi og ýmsar blikur eru á lofti.

Svartsýni er þó ekki til bóta á neitt hátt. Óhófleg bjartsýni er það heldur ekki. Best er að búast við því versta en vona þó hið besta. Þessi speki er ekki á nokkurn hátt ný, en ítrekuð hér til að lengja þetta blogg svolítið.

Eiginlega er samt alveg óþarfi að blogga næstum daglega. Þó finnst mér að ég megi ekki láta þessa fáeinu lesendur mína bíða eftir bloggi frá mér alltof lengi. Mér hefur fundist að í þessum bloggum mínum sé ég alltof hátíðlegur og þykist vita meira en aðrir. Svo er þó ekki. Að mörgu leyti er ég haldinn efasemdum af öllu tagi. Stundum finnst mér ég vita næstum allt, sem er þess virði að vita, en stundum alltof lítið. Sennilega er þetta bara eðlilegt. Oft reyni ég að forðast að láta ljós mitt skína. Það er þó ekki alltaf auðvelt. 

Tvennt er það þó sem ég held að mér takist yfirleitt sæmilega í þessu bloggi mínu. Það fyrra er að vaða úr einu í annað. Ég á t.d. erfitt með að skilja hve margir hafa greinlega þörf fyrir að teygja lopann óhóflega. Ef hægt er að segja sína meiningu í fáum orðum finnst mér sjálfsagt að gera það. Munur er þarna á töluðu máli og rituðu. Ekki held ég að fólk verði yfirleitt jafnfljótt leitt á töluðu máli  og rituðu. Þessvegna er það sennilega sem podköst (eða hlaðvörp) allskonar eru svona vinsæl.

Seinna atriðið, sem ég var næstum búinn að gleyma, er einmitt það að hafa bloggin ekki of löng. Því er sennilega best að hætta núna.

IMG 7030Einhver mynd.


2836 - Bubbi Mortens

Nú er ég nýbúinn að setja upp blogg. Oft er það svo að mér dettur mesta snilldin í hug þegar ég er nýbúinn að ausa henni yfir heimsbyggðina. Svo er þó ekki núna. Mér dettur bara ekkert í hug. En þetta kemur, eins og þar stendur. Nú er farið að birta þó klukkan sé ekki orðin nema átta. Ætli vorið sé ekki á næsta leiti.

Meira um forsætisráðherrann okkar. Sú mynd er fræg, a.m.k. hér á Íslandi, þar sem Kata horfir upp í loftið á meðan Trump lætur finna fyrir sér. Ætli það sé ekki frá einhverjum nýlegum NATO-fundi. Þetta uppíloftgláp hennar er í þann veginn að fá alveg nýja merkingu. Fer samt ekki nánar útí það hér og nú.

Hreyfing er nú meðal ríkja í USA í þá átt að láta heildaratkvæðamagn ráða í forsetakosningum og skylda ríki til að greiða þeim atkvæði sín sem flest atkvæði fá í heildina. Með því einfalda ráði mætti koma í veg fyrir að sú erfiða og seinvirka leið yrði farin að kveða á um þetta með viðauka við stjórnarskrána. Auðvitað eru það demókratar sem standa fyrir þessu og repúblikanar eru á móti. Ekki er samt gert ráð fyrir að þetta takist fyrir kosningarnar 2020, en formælendur þessa gera sér vonir um að það takist fyrir 2024.

Afturhaldsmenn allra landa virðast hafa sameinast. Hér á Íslandi er Bubbi Mortens aðeins að pikka í ráðamenn og afhaldsseggi þá sem eru að fara með orðstí alþingis niður í svaðið. Lesið bara greinina hans í Fréttablaði dagsins. Hún heitir: „Þruman er að boða okkur stríð“.

Auðvitað er ég alls ekki sammála Bubba Mortens um allt sem hann heldur fram, en hann virðist þó ekki vera hræddur við neitt og þar að auki geta tekið rökum. T.d. sá ég einhversstaðar grein sem bendir til þess að hann sé hættur að hata Pírata.

T.d. er ég alls ekki á sama máli og hann um laxveiðar. Það er samt önnur saga en í sambandi við hana bendir hann á Vestfirði. Einkennilegt þykir mér það sem haldið er fram um bólusetningar í forystugrein Fréttablaðsins. Þar er sagt að á Vestfjörðum sé aðeins um að ræða 83 prósent þátttöku í mislingabólusetningu þegar þarf a.m.k. 90 til 95 prósent þátttöku til að vernda aðra og komast hjá faraldri.

Vissulega finnst mér gaman að kveðast á við Jóhannes Laxdal Baldvinsson, en stundum er það svo að rímið og stuðlarnir yrkja fyrir mann vísuna. Ég á við að það sé ekki endilega svo að maður meini bókstaflega að fullu hvert orð sem í vísunni stendur. Stundum er ég líka pínulítið ósáttur við stuðlasetninguna hjá honum, en það er ekkert víst að ég hafi út háum söðli þar að detta sjálfur.

Oft fer þetta eftir áherslum sem maður ræður ekki nærri alltaf við og svo geta hugmyndir manna í þessu efni verið mismunandi. Annars held ég að flestir hafi einhverntíma gert vísur og þegar kveðist var á í gamla daga var alveg eins gert ráð fyrir að menn semdu sjálfir næstum per samstundis vísurnar. Steini Briem sem eitt sinn kvaðst á við mig hér heitir Oliver Twist núna og ég gerði þá vitleysu að segjast vilja sjá fésbókarinnleggin hans. Það er ég þó búinn að leiðrétta.

IMG 7039Einhver mynd.


2835 - Er dugnaður dyggð?

Það er einhver fjöldi sem les reglulega bloggin mín. Hvernig sem á því stendur. Áður held ég að ég hafi sagt frá því að ég verð fyrir hálfgerðum vonbrigðum ef ég skrifa blogg og set það upp og fyrsta daginn á eftir reynast gestir samkvæmt Moggabloggstalningu ekki a.m.k. talsvert á annað hundraðið. Stundum verða gestirnir talsvert mörg hundruð en aldrei skipta þeir þúsundum. Sem betur fer liggur mér við að segja þó segja megi að spakmælið „mikill vill  meira“ eigi sæmilega við þarna. Yfirleitt eru kommentin samt ekki ýkja mörg, en nú orðið oftast einhver. Vissulega hef ég bloggað mjög lengi og bloggin mín þekkjast alltaf á númerunum. Lítill vandi er fyrir þá sem kunna sæmilega á Google að leita að ýmsum hlutum í bloggunum mínum. Ekki nenni ég því.

Heyrði ávæning af athyglisverðu útvarpsefni um daginn. Þar minnir mig að spurt hafi verið hvort dugnaður væri dyggð. Um það má að mörgu leyti efast. Þjóðskipulagið á Vesturlöndum og reyndar miklu víðar er samt sem áður einkum grundvallað á þessari spurningu. Letin er kannski alveg eins eftirsóknarverð ef grannt er skoðað. Nú um stundir virðist ekki vera mikill vandi að framfleyta fólki og þessvegna má alveg spyrja hvort ekki sé eins gott fyrir ríkisvaldið að borga öllum lágmarkslaun fyrir það eitt að vera til. Ríkið þykist hvort eð er eiga þegnana. En hvernig verður ríkið til? Það gæti svosem verið næsta spurning.

A.m.k. hér á Íslandi komast menn í þá aðstöðu að fá greitt fyrir að vera til eftir að hafa þrælað fyrir ríkið og þá ríku í vissan árafjölda. Vitanlega má deila um upphæð borgaralauna og eftirlauna og annað þessháttar og ekki ætla ég að halda fram neinum algildum sannleika þar.

Kannski eru þetta of heimspekilegar spurningar til þess að vera settar fram í vesælu bloggi, en mér dettur ekkert annað í hug. Ætlaði samt að segja frá því hér að ég þykist vera brot af sérfræðingi þegar kemur að Trump bandaríkjaforseta. Eikum er mér umhugað um samband hans eða sambandsleysi við fjölmiðla þar vestan hafs. Yfirleitt gagnrýna þeir hann harkalegar en stundum er ástæða til. Les oftast það sem helstu fjölmiðlar þar vestra hafa um Trump að segja. Virðist sem Washington Post fari stundum offari í andúð sinni á honum en að New York Times vilji gjarnan vera yfir aðra hafið. Um íslenska fjölmiðla ræði ég ekki.

Þetta er að verða nóg að þessu sinni. Gleymdi að geta þess áðan að nú þegar ég er farinn að blogga næstum daglega er það m.a. til þess að gestatalningarlistinn hækki svolítið. Samt er ég hugsanlega ekki eins vinsældaháður og sumir aðrir sem hvað Moggabloggsæði snertir eru á svipuðu stigi og ég.

IMG 7040Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband