2807 - Um múra

Á margan hátt má segja að múr sá sem Trump Bandaríkjaforseti vill reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkós sé að verða að samskonar litmus-testi og bátarnir á Miðjarðarhafinu voru fyrir fáeinum mánuðum síðan í Evrópu og eru kannski enn. Lítill vafi er á því að þarna er um vandamál að ræða. Fyrir allmörgum árum eða áratugum síðan, gátu vandamál af þessu tagi hæglega leitt til styrjalda. Svo er ekki lengur og má alveg kalla það framfarir.

Ekki þarf heldur að efast um að múr sá sem reistur var á sínum tíma í kringum Austur-Berlín var af þeim orsökum m.a. að mikill munur var á lífskjörum fólks eftir því hvorum megin múrsins var verið. Þau vandamál sem af þessum mun leiddi voru á sinn hátt undirstaða kalda stríðsins. Að sá múr tilheyri nú sögunni má á sama hátt kalla framfarir.

Það sem þessir múrar eiga sameiginlegt er að þar er safnað saman fjölmörgum vandamálum af ýmsu tagi og reynt að láta þau kristallast á tiltölulega einfaldan hátt í afmörkuðu máli. Áður fyrr gátu þessi mál orðið til þess að til átaka kæmi. Svo er ekki lengur. Samt eru alltaf einhverjir sem óska þess að mál versni að mun. Ofast er það vegna þess að vonast er til að ástandið þurfi að versna að mun áður en það geti farið batnandi. Vonum það að minnsta kosti.

Ekki get ég þó með öllu neitað því að ég finn fyrir einskonar Þórðargleði í hvers sinn sem Trump Bandaríkjaforseta eða Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins verður alvarlega á, en það er sem betur fer – ég meina því miður -- dálítið oft.

Álit mitt á múrum af ýmsu tagi skiptir reyndar afar litlu máli. Stjórnmálafólk hefur yfirtekið svokallaða lausn eða frestun allskyns mála og fær laun fyrir og skammir pólitískra andstæðinga. Svipting launa og atvinnu eru nú um stundir það hræðilegasta sem komið getur fyrir almúgafólk og vinnuþræla hér í þessum heimshluta að minnsta kosti.

Á Vesturlöndum þarf fólk ekki lengur að óttast svo mjög um líf sitt vegna átaka, en aðrar sorgir verða bara meira áberandi fyrir vikið. T.d. hefur verkbannið í Bandaríkjunum valdið því meðal annars að laun æðstu yfirmanna þar í landi eiga samkvæmt lögum að hækka um sirka eina skitna milljón króna eða rúmlega það. Á ári vel að merkja. Þeirri útskýringu mætti þó alveg sleppa.

4konur.jpgEinhver mynd.


2806 - Skortsala eða skottsala

Satt og logið sitt er hvað,

sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar flestir ljúga?

Þessi gamli húsgangur flytur okkur að sumu leyti ódauðlegan sannleika. Svona má meðal annars minna á það:

Á margan hátt má segja að svarið við lífsgátunni felist í því hvort maður telur sig líða skort eða hvort maður telur að maður hafi nóg af öllu. Að dæma eftir því sem margir segja um fésbókar-fárið sem geysar hér á Íslandi eru þeir allmargir sem telja sig líða skort af einhverju tagi þrátt fyrir fagurlegan front. Marga skortir peninga og ekki er örgrannt um að einhverjir magni þau ósköp upp hjá fólki. Með auglýsingum og öðru. Sumum finnst jafnvel gaman að eyða og spenna og lítið er hægt fyrir þá að gera, nema helst að benda þeim í villu síns vegar. Hinsvegar eru margir sem í rauninni hafa alveg nóg, en láta samt eins og þeir þurfi meira. Auðveldast kann að vera að telja fólki trú um að það þurfi meiri og fínni mat. Auk þess gefst vel að telja fólki trú um að það þurfi endilega að fylgja tækninni. Nú er búið að telja næstum öllum trú um að þeir þurfi endilega að eiga snjallsíma, en af hverju það á að vera betra að borga með honum en með kortinu sínu er mér hulin ráðgáta.

Já, ég var næstum búinn að gleyma því að ég lofaði víst um daginn að segja frá því þegar ég ruglaði saman skortsölu og skottsölu. Skottsala er nefnilega þannig að maður setur allskyns skran í skottið á bílnum sínum og reynir svo að selja það. Á ákveðnum stað og ákveðnum tíma hittast síðan bílarnir og hver reynir að selja öðrum sem allra mest. Ef einhverjir eiga í vandræðum með að skilja þetta skal ég reyna að útskýra það betur í næsta bloggi. Skortsala er aftur á móti, að mínum skilningi, það að reyna að selja öðrum þá hugmynd að þeir líði almennan skort. Skorti peninga til að eyða eða eitthvað annað. Betri lífskjör til dæmis. Þetta er mikið stundað í vestrænum samfélögum og er kallað ýmsum nöfnum. Starfsemi margra snýst um þetta fremur en að ráða bót á raunverulegum skorti. Raunverulegur skortur er það að hafa ekki nóg til fæðis og klæðis. Og að hafa ekki þak yfir höfuðið. Gerviþarfir af öllu mögulegu tagi er síðan auðvelt að búa til.

Eitt helsta vandamálið í mörgum samfélögum er einmitt að uppfylla allskyns gerviþarfir. Um það eru stofnaðir stjórnmálaflokkar sem ná gríðarlegum vinsældum í stuttan tíma, en auðvitað áttar fólk sig að lokum á því að loforð eru lítils virði ef þau eru aldrei efnd. Samt er alltaf hægt að lofa einhverju nýju í hvert skipti. Vitanlega er ég ekki að segja nein ný tíðindi með þessu. Ég er bara að setja þetta í samband við skortsölu, sem sennilega þýðir eitthvað allt annað í útrásar-jargoni. Látið ekki blekkjast. Það eru flestallt ímyndaðar þarfir sem auglýsendur eru að stíla inná. Látið vera að fá ykkur nýjan bíl eða nýjan snjallsíma og sjáið til hvort þið verðið nokkuð óhamingjusamari.

Að hamingjan sé fólgin í því að fylgja sem nákvæmlegast tískusveiflum allskonar er útbreiddur misskilningur. Jafnvel hættulegur stundum, því hann getur orðið til þess að menn eyði um efni fram og ekki er það gott.

Er þá lífshamingjan fólgin í því að telja sér trú um að maður hafi það bara fjári gott, jafnvel þó svo sé allsekki? Er ekki auðvelt að benda á að nútímamaðurinn hafi það á margan hátt mun betra en afar okkar og ömmur? Auðvitað er það svo og ekki má gerast katólskari en páfinn að þessu leyti heldur reynda að rata meðalhófið. Það er best í hverjum hlut. Kaupahéðna og auglýsendur ber þó að varast. Og nú er best að hætta.

IMG 7289Einhver mynd.


2805 - Bloggað í spreng

Jæja, þá er árið 2019 loksins runnið upp í öllu sínu veldi. Þegar ég var lítill. Raunar held ég að ég hafi aldrei verið pínulítill a.m.k. man ég ekki eftir því. En hvað um það. Þegar ég var minni en ég er núna var árið 2000 ákaflega fjarlægt. Maður hugsaði ekki einu sinni svo langt. Man þó eftir að hafa einhverntíma reiknað út hve gamall ég yrði ef ég lifði svo lengi. Er samt alveg búinn að gleyma niðurstöðunni af þeim útreikningum. Ýmsa útreikninga stundaði ég á þeim tíma. Ekki man ég þó eftir að hafa reiknað barn í svertingjakerlingu í Afríku, eins og Sölvi Helgason gerði. Eða reiknaði hann það úr henni aftur? Man ekki lengur hvort er réttara.

Annars ætlaði ég að skrifa eitthvað um árið 2019. Auðvitað er alltof snemmt að skrifa um hvað gerðist markverðast á því ári. Á samt von á að það verði einhverntíma gert. Verð víst að láta mér nægja að vona að það verði öllum gjöfult. Nema ég reyni að spá einhverju um það hvað gerast muni á því merkisári.

Trump Bandaríkjaforseti mun líklega missa embættið á þessu ári. Líklega fer það þá til Pence varaforseta og ekki er víst að hann verði hótinu skárri. Niðurlæging Trumps verður góða fólkinu og jafnvel fleirum mikilsverð búbót. Ekki er samt öruggt að allir verði fegnir að losna við hann. T.d. voru víst einhverjir sem kusu hann. Jafnvel má reikna með að einhverjir þeirra mundu gera það aftur ef þeir fengju tækifæri til þess.

Það fá þeir þó sennilega ekki, því Pence varaforseti og væntanlegur forseti mun eflaust verða í framboði 2020, en tapa fyrir Bernie Sanders sem mun látast í embætti árið 2023, en ég sé ekki í Tarotspilunum mínum hvað hann heitir sem taka mun við af honum. Látum svo lokið spádómum mínum um þetta vesæla embætti og snúum okkur að mikilsverðari málum.

Snarhætt verður við það hér á Íslandi að láta kjósa á hverju ári. Gott ef kosningum verður bara ekki alveg hætt eftir að Davíð Oddsson kemst á gamalsaldri til valda á ný. Það er þetta með Davíð sem mér þykir skrítnast í þessum spádómum öllum saman og kannski er bara best að hætta þessu alveg. Sé ekki betur en Davíð verði við völd þangað til hann drepst um síðir. Kannski verður þá byrjað að kjósa aftur en ég sé það ekki almennilega.

Ekki fleiri spádómar að þessu sinni. Enda er ég alveg þurrausinn og kem líklega aðeins með nöd og næppe einhverju fleiru að í þessu úrvalsbloggi. Veit bara ekki hvað það ætti helst að vera. Kannski ég taki bara uppá þeirri vitleysu að blogga á hverjum degi. Það gerði ég einu sinni. Treysti mér samt ekki alveg til þess. Minnir nefnilega að það hafi verið talsvert átak. Sumir hafa heila fréttastofu á bak við sig og fara létt með að skrifa sex mismunandi merkilegar fréttir á hverjum degi. Ekki hef ég neitt þessháttar að baki mér og þessvegna vex mér svolítið í augum að blogga daglega. Kannski tekst mér að blogga samt eitthvað þéttar en að undanförnu. Ég er bara að vara þá við sem eru svo vitlausir að lesa allt eftir mig.

Skottsala og skortsala. Skortsala er hugtak sem útrásarvíkingar notuðu mikið á sínum tíma. Mér finnst betra að tala um skortsölu sem sölu á skorti. Telja sem flestum trú um að þá skorti allt mögulegt. Sumum finnst að þá skorti peninga og ýmislegt fleira. Ruglaði í eina tíð saman skortsölu og skottsölu, en það er nú önnur saga. Segi hana kannski í næsta bloggi.

IMG 7398Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband