2730 - Arnarsetur

Sagt er að nokkurnvegin á móts við Arnarbæli í Ölfusi sé í Ölfusá klettur sem Arnarsetur sé kallaður. Hvort þetta er rétt hef ég ekki hugmynd um. Sennilega væri samt hægt að komast að því. Í einhverri þjóðsögu er sagt að prestur nokkur sem eitt sinn hafi þjónað í Arnarbæli hafi mælt fram þessa vísu við dreng einn sem ráðinn hafði verið sem smali þangað á bæinn. Ekki held ég að það fylgi sögunni hver réði hann. Kannski hefur það verið presturinn sjálfur, en þó er það ekki víst og ekki er að sjá að það skipti máli í sögunni. Vísan áminnsta var þannig:

Drengur minn þú deyrð í vetur
dettur fyrir Arnarsetur.
Kríuskítur og kamrafretur
kveddu á móti ef þú getur.

Og drengurinn á að hafa svarað samstundis:

Þú er prestur sómasæll
syngur hátt í messu
en vesalmenni og vinnuþræll
verðurðu upp frá þessu.

Og eins og í öllum góðum sögum á hvorttveggja að hafa ræst.

Satt að segja finnst mér þetta ekki merkileg saga. Samt er þetta nokkurn vegin eins og ég man hana. Ekki er ólíklegt að ég hafi minnst á hana áður í þessu bloggi mínu. Nenni bara ekki að gá að því. Vel getur svosem líka verið að hún sé einhvern staðar til á prenti (líklegast er að þannig hafi ég komist á snoðir um hana) og ítarlegri þá býst ég við. En um það veit ég ekkert, enda er ég enginn sérfræðingur um þessi mál.

Mér hefur alltaf þótt vísa stráksins of  meinlaus og það væri kraftmeira að hafa söguna þannig að þeir dræpust báðir. Kannski hefur þessi saga bara verið búin til utanum vísurnar og þar hafi hagyrðingurinn semsagt fyrst og fremst viljað koma á framfæri orðunum í þriðju ljóðlínu fyrri vísunnar. Með því verður sagan frá okkar sjónarmiði óttalega barnaleg. En eins og allir vita hafa börn á vissum aldri afskalega gaman af öllu neðan þindar, sérstaklega fretum kannski.

Ástæða þess að ég fjölyrði svo mikið um þetta einmitt núna er sú að ég hef takmarkaðan áhuga á því sem tröllríður öllum fjölmiðlum nú um stundir, en það eru fundirnir í Singarpore og heimsmeistarakeppnin í fótbolta.

Ekki er ég þó að hugsa um að gera þetta blogg að þjóðsagnabloggi þó þessháttar hafi mér fundist alveg vanta í bloggflóruna.

Vitanlega gæti ég svosem skrifað um eitthvað annað en þjóðsögur því á ýmsu hef ég áhuga. Held t.d. að ég hafi tvívegis skrifað um Bjarna-Dísu, sem mér þykir og þótti á þeim tíma sem ég heyrði hana fyrst einhver sú hrikalegast draugasaga sem ég nokkru sinni heyrt. Ekki hef ég þó hugsað mér að segja hana einu sinni enn. Þeir sem hafa áhuga á henni geta sem hægast gúglað hana. Þar að auki held ég að út hafi komið bók nýlega um þessa sögu.

IMG 8082Einhver mynd.


2729 - Um Trump og Co.

Segja má að allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar, eða í rúm sjötíu ár hafi bandríkjamenn ráðið mestu um skipulag hins vestræna heims. Mest hefur það verið í krafi yfirburða hernaðarafls og vegna samvinnu svona margra og auðugra ríkja, sem auk alls annars tala sama tungumálið. Hinn vestræni heimur hefur síðan haft úrslitaárif á aðra hluta heimsins í krafti menningar sinnar, auðæfa og vopnavalds.

Þegar kalda stríðinu lauk um 1990 má segja að nýr kafli hafi hafist í vestrænni menningu. Bandaríkjamenn virðast upp til hópa álíta að með því hafi kapítalisminn sýnt að hann standi sósíalismanum mun framar að flestu leyti. Svo er þó alls ekki. Hann hefur aðeins sýnt að sú gerð hans, ásamt landgæðum, sem stunduð var í USA stóð sósíalismanum eins og hann var iðkaður í Sovétríkunum sálugu miklu framar.

Nú bendir margt til þess að á ný ætli bandaríkjamenn að hverfa á vit einangrunarstefnunnar sem þeir að ýmsu leyti aðhylltust á millistríðsárunum. Þeim kom ekki vitund við þó Hitler kæmist til valda í Þýskalandi og réðist með offorsi á Gyðinga, sem margir hverjir flúðu til annarra ríkja. Þar á meðal til USA. Ekki er ég að líkja saman andúð Trumps, Repúblikana í bandaríkjunum og flestra hægrisinna í heiminum á Islam og þeim sem Múhameðstrú játa og ofsókum Hitlers á hendur Gyðingum. Samt virðist þróunin vera í þá áttina.

Það að flestir leiðtogar annarra ríkja skuli vera Trump andsnúnir í mörgum málum bendir óneitanlega til þess að stefna hans sé röng í veigamiklum atriðum. Ný heimsmynd kann að blasa við okkur innan fárra ára. Það kann að vera erfitt að beina bandaríkjunum frá einanrunarstefnunni árið tvöþúsund tuttugu og fjögur ef Trump nær endurkjöri árið tvö þúsund og tuttugu, sem hann mun eflaust stefna á.

Læt ég svo lokið að þessu sinni hugleiðingum mínum um alþjóðastjórnmál, enda er ég fráleitt einhver sérfræðingur á því sviði. Samt hef ég eins og margir Íslendingar gaman af að velta ýmsu af því tagi fyrir mér. Ekki er því að neita að margt í stefnu ESB fellur mér engan vegin í geð. Samt er það mín skoðun að Bretar hafi t.d. gert afdrifarík mistök í því að samþykkja BREXIT. Margar hættur kunna að stafa af Alheimsstjórn. Samt er heillavænlegra að stefna í þá átt og auka samstarf þjóða en hið gagnstæða.

Auðvitað eru allsekki allir sammála þessum skoðunum mínum. Samt er það svo að einhverjir kunna að hafa meiri áhuga á alheimsstjórnmálum en fótbolta.

Samt er ég allsekki að gera lítið úr afreki „strákanna okkar“ í því að komast á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi. Það er satt að segja ótrúlegt afrek hjá þeim að vera taldir með þeim bestu í heiminum í þessari útbreiddustu íþrótt allrar veraldarinnar.

IMG 8087Einhver mynd


2728 - Jón Valur Jensson

Nú er Jón Valur Jensson farinn að athugasemdast svolítið á blogginu mínu. Gaman að því. Á margan hátt er fésbókin sá staður þar sem menn rotta sig saman og fjósamennskan (öðru nafni heimspekin) er allsráðandi. Þorsteinn Siglaugsson var fyrir nokkru fastur liður hérna á blogginu mínu. Og svo hefur fornleifafræðingurinn Villi í Köben stundum litið hingað inn. Allt er þetta að ógleymdum Steina karlinum Briem sem veldur því að ég er sífellt að setja saman vísur núorðið, en það hef ég ekki gert lengi og getan er ekki mikil.

Þó skömm sé frá að segja þá les ég blogg þessara manna alltof sjaldan. Held að Steini Briem bloggi aldrei, núorðið, Jón Valur er sískrifandi og heldur úti mörgum bloggum. Aðrir eru líkari mér og blogga svona öðru hvoru. Engir nema ég veit ég til að númeri bloggin sín. Það er mín sérstaða. Sérstakur, sérsinna og sérvitur vil ég gjarnan vera.

Flestir þeirra sem hér eru nefndir, nema þá helst ég og Steini Briem skrifa gjarnan eins og einhverjir sérfræðingar. Ég er því miður ekki sérfræðingur í neinu, en veit þó ýmislegt. Nenni ekki að safna tölum og staðreyndum til að styðja mál mitt, en hef þó skoðanir á mörgu.

Allgóður þykist ég vera í réttritun og kannski er það þessvegna sem ég skrifa svona mikið. Aftur á móti er ég afleitur í greinarmerkjasetninu. Sömuleiðis er ég nokkuð óklár á hvenær skrifa skal eitthvað í einu orði eða tveimur. Þetta skiptir oftastnær nánast engu máli. Samt get ég alveg viðurkennt að kommur geta stundum skipt máli og t.d. er úranauðgun alls ekki það sama og úra nauðgun.

Sannkallað fótboltaæði hefur nú gripið þjóðina og má gera ráð fyrir að gnístran tanna verði mikil ef Íslendingar tapa öllum leikjunum í sínum riðli. Svo getur hæglega farið og ekki er líklegt að upp úr riðlinum verði komist. Von flestra er þó sennilega sú að leikur í 16-liða úrslitum fáist. Slíkt yrði mikill sigur fyrir litla Ísland. Ég mun líklega láta þessa himstrakeppni að mestu framhjá mér fara, en þó mun ég fylgjast með leikjunum í sjónvarpi og fréttum frá þessum ósköpum.

Veðrið fer sískánandi og líklega er sumarið bara komið. Ekki er ég víst sá fyrsti sem þetta segi, því annar hver maður, og kannski mun fleiri, heyrist mér að tali annað hvort um fótbolta eða sumarið. Þ.e.a.s. veðrið.

Nú hef ég ekkert minnst á Trump í þessu bloggi. Mikið virðist samt vera að gerast í íslenskum stjórnmálum. Erfitt er fyrir alþingi að hætta og Katrín forsætis segist vilja hætta við útgerðarfrumvarpið ef menn verði þá til friðs. Spurning er hvort þingmenn verða það og hvort Katrín kemst upp með þetta fyrir Super-Bjarna.

IMG 8110Einhver mynd.


2727 - Trumpleysi er allra meina bót

Ég er búinn að vera í burtu alla helgina. Samt er ég alls ekki hættur að blogga. Trump-sýkin er þó örlítið að rjátlast af mér. Um margt annað og áhugaverðara er hægt að skrifa.

Merkilegasta heimspekilega spurningin finnst mér vera: Er fólk fífl? Er virkilega hægt að vefja fjöldanum um fingur sér með málæði og því einu að vera öðruvísi en aðrir? Trump virðist vera að takast þetta í bandaríkjunum.

Jæja, ekki gat ég skrifað langt mál án þess að minnast á Trump. Heimspekingur er ég ekki. Kannski er ekki mikið að marka mig. Get samt ekki að því gert að pólitískt hugsa ég svona. Hugsanlegt er að MESTA fíflið sé ég sjálfur. Þetta minnir mig á meirafíflskenninguna sem stundum virðist vera allsráðandi í viðskiptum. Kannski var HRUNIÐ sjálft henni að kenna. En förum ekki lengra út í þá sálma.

Lesendum mínum á Moggablogginu virðist vera að fækka aftur og er það vel. Selebrity vil ég síst af öllu verða. Látum vera þó einhverjir lesi þetta bull í mér. Um leið og þeir verða of margir fer mér að líða eins og einhverju selebrity og það er slæmt. Alls ekki vil ég samt læra betur á fésbókina eða snjallsímann minn, því mér finnst þessi tvö fyrirbrigði á margan hátt vera einskonar draumur andskotans.

Moggabloggið hentar mér ágætlega. Ekki síst vegna íhaldsstimpilsins sem á því er. Svo er dálitið umhendis að svara þessum ósköpum og fáir gera það. Athugasemdir við það sem ég skrifa á bloggið þurfa helst að vera gerðar þar. Annars getur dregist von úr viti að ég svari þeim. Samt auglýsi ég alltaf á fésbókarfjáranum og finnst ég verða að gera það.

Komum frá Akureyri í gær og þegar við fórum að nálgast Skagann fórum við framhjá Strákatalfæri, Luxustanga og Bognabresti. Sumir í bílnum kunnu að meta þennan orðaleik, en aðrir ekki. Sumir rithöfundar gera jafnvel of mikið af því að leika sér með tungumálið. T.d. er Hallgrímur Helgason slæmur með þetta. Ég er samt allsekki að líkja mér við hann. Í bloggi má allt. Jafnvel láta eins og vitleysingur.

Auðvelt er að sá hatri. Einangrunarviðleitni og sjálfselska kann að hafa í för með sér efnislegan ávinning um stundarsakir. Meðlíðunin með þeim sem ólíkir eru mun samt sigra á endanum.

Heyrði rétt áðan auglýsingu sem hljóðaði eitthvað á þennan veg: Pantaðu í matinn á Netinu og grípu það með þér á heimleiðinni.

Svonalagað skil ég bara allsekki. Er útilokað að vera á Netinu heima hjá sér? Eða er auglýsingin bara fyrir suma?

IMG 8114Einhver mynd.


2726 - The Trump Show

Ekki er að sjá að sjálfhælni og fjölmiðlaárátta Donalds Trump eigi sér nokkur takmörk. Svo er að sjá að allt eigi að snúast um hann, að hans eigin áliti. Þessvegna er það sem hann lýgur og svíkur takmarkalaust. Allt snýst um að vera stöðugt í fréttum. Sama þó þær fréttir séu neikvæðar. Svona hefur hann verið alla tíð. Auðvitað á hann mjög gott með að komast í fréttir núna. Þannig var það ekki alltaf. Þó var hann nokkuð vinsæll sem sjónvarpsstjarna. Einkum vegna þessarar áráttu sinnar. Eins og bandarískt þjóðlíf er í rauninni þá er það ekki mjög erfitt fyrir vel gefið fólk að raka saman peningum, ef það er helsta markmiðið, enda eru milljarðamælingar þar nokkuð margir. Þeir eru þó ekki allir jafn fjölmiðlasæknir og Trump. 

Henni (Vestfjarðadísinni sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir) er fjandans sama þó hún fái bara fimmþúsundkall, en aðrið nokkra milljarða af næstum verðlausum krónum. Kannski fær hún líka klapp á bakið og auðmennirnir vita núna nákvæmlega hvar þeir hafa hana. Út af einhverju var hún gerð að formanni sjávarútvegsnefndar þingsins. Kannski heitir sú nefnd eitthvað annað núna. Eiginlega er engin furða þó VG tapi viðstöðulaust fylgi. Einhverjir trúðu þeim víst þegar þeir sögðust vera alfarið á móti ESB. Katrín forsætis þarf að fara að huga að trúverðugleika sínum.

Hvað á ég að gera? Ég get ekki tekið þátt í neinni samkeppni því allsstaðar eru verðlaunin ferð á HM í fótbolta og þangað langar mig ekki neitt. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu andleysi? Dettur engum eitthvað skynsamlegra í hug? T.d mætti verðlauna með peningum.

Klausuna hér á undan setti ég á fésbókina því mér fannst hún eiga betur heima þar. Að mörgu leyti leiðist mér fésbókin. Mest vegna þess að þar er alltaf verið að breyta öllum fjáranum og auglýsingafarganið þar er alveg að drepa mann. Mér finnst ég a.m.k. ekki verða eins var við það hér á Moggablogginu og ég er ekkert hættur að blogga þó lengra líði kannski á milli blogga núna en undanfarið. Og svo er þjóðsöngnum okkar misþyrmt í sjónvarpinu oft á dag.

Loksins er sumarið komið. Þó ekki sé beinlínis sólskin hérna á Skaganum er að mestu hætt að rigna og þar að auki hefur hlýnað talsvert. Kannski maður bregði sér bara út. Annars fer ég í svona klukkutíma morgungöngu flesta morgna og þá gerir lítið til þó rigni pínulítið, það er vel hægt að klæða slíkt af sér. Og kuldann líka.

IMG 8117Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband