2744 - Aldrei skal ég eiga flösku

Auðvitað er eitt af því fyrsta sem ég geri á hverjum morgni að gá hve margir hafi slysast til að skoða bloggið mitt daginn áður.

Nr. 1   Tek töflurnar mínar (sex að tölu: Á ég kannski að telja þær upp?)
Nr. 2   Tek inn eina skeið af lýsi.
Nr. 3   Fæ mér morgunkorn og kynni mér svolítið helstu fréttir á meðan.
Nr. 4   Fæ mér kaffi.
Nr. 5   Skoða hve margir hafa komið inná bloggið mitt, ef ég hef tíma til.
Nr. 6   Fer að undirbúa morgungönguna, en þar er um margskonar vana að ræða.

Að þessu sinni hyggst ég hlífa lesendum við þeirri upptalningu sem þá gæti tekið við. Hún er löng og sumum gæti þótt hún hálfleiðinleg.

Þó um þessa helgi séu svokallaðir „írskir dagar“ hér á Akranesi verður maður sífellt minna var við þessháttar húllumhæ eftir því sem árin líða. Fluttum hingað árið 2015 og mér er nær að halda á umfang þessarar „bæjarhátíðar“ hafi farið sífellt minkandi síðan. Kannski erum við bara svona leiðinleg að allir forðast okkur.

Í upphafi þessa bloggs, gleymdi ég alveg að segja frá því að þó svo ég hafi ekkert skrifað í gær, eru lesendur mínir komnir yfir 40 í dag eða eftir miðnætti í gærkvöldi. Monti lokið.

Nú er samkvæmt fréttum byrjað að fara með strákana í hellinum í Thailandi út úr honum. Sjaldan held ég að heimurinn hafi fylgst eins vel með björgunaraðgerðum og að þessu sinni. Held að allir sem með þessu fylgjast óski þess að aðgerðin gangi vel. Ég er reyndar sannfærður um að svo verður.

Með allskyns útúrdúrum er mér núna að takast að blogga um nákvæmlega ekki neitt. Hvernig skyldi ALVÖRU-bloggurum líka við þetta?

Vísan sem er að flækjast fyrir mér núna og sífellt kemur upp í hugann er svona:

Aldrei skal ég eiga flösku
aldrei bera tóbaksskrín.
Aldrei reiða ull í tösku
aldrei drekka brennivín.

Þessa vísu lærði ég fyrir margt löngu, sennilega næstum 70 árum og vitanlega er hægt að setja „alltaf“ í staðinn fyrir „aldrei“ í öllum vísuorðunum.

IMG 7959Einhver mynd.


2743 - Bakþankar Fréttablaðsins

Ég er með kenningu. Hún er um bakþanka Fréttablaðsins, sem heilla mig alltaf. Ég held að ég lesi þá oftast. Held að flestir eða allir blaðamenn Fréttablaðsins séu skikkaðir til að skrifa bakþankana og við það sé notuð sérstök röð. T.d. aldursröð. Auðvitað eru ekki allir alltaf tilbúnir þegar til á að taka með þanka sem passa í þetta slott. Þá er kallað á Óttar Guðmundsson. Hann á nefnilega alltaf í fórum sínum eitthvað sem nota má.

Annars eru þessir bakþankar einskonar miniblogg og sennilega er ég svona hrifinn af þeim þessvegna. Gott ef þessir bakþankar eru ekki að verða mínir aðal mentorar í bloggfræðum. Að vísu er hver þeirra bara ígildi einnar stuttrar blogg-greinar, en við því er ekkert að gera. Svona er þetta bara. Frekari útleggingar á því sem þar er að finna hef ég þó reynt að forðast. Kannski eru þeir fjölmargir sem lesa jafnan bakþankana og kannski eru þeir sárafáir. Fréttablaðinu er samt dreift mjög víða og þó því sé stundum hent í pakkavís þá er ekki að efa að margir lesa sumt í því. A.m.k. virðast auglýsendur halda það.

Ekki get ég látið allt þetta blogg fjalla um bakþanka Fréttablaðsins. Sennilega verð ég að bæta einhverju við. Samt dettur mér ekkert skárra í hug en að minnast aðeins á títtnefnda bakþanka. Ég tek þá til við bakþanka dagsins. Vitanlega er það Óttar Guðmundsson sem skrifar þá. Hann minnist þar á Gissur Þorvaldsson og Sturlu Sighvatsson. Einu sinn var ég staddur uppi á Búrfelli í Grímsnesinu og flutti þá langan fyrirlestur um það þegar Sturla lét handtaka Gissur og þeir riðu saman yfir Álftavatn. Því miður voru áheyrendur ekki margir. Reyndar bara einn og það var Sigurbjörn bróðir minn. Einu sinni ætluðum við nefnilega að ganga á ein fimm eða sex Búrfell sama daginn. Aldrei varð þó úr því en undirbúningurinn var langt kominn. Óttar er allur í fornsögunum og það er ég eiginlega líka. Þær eru mér, eins og mörgum fleiri, stöðug áminning um visku og samtímaviðhorf.

Sumir gera engan greinarmun á Íslendingasögum og Sturlungu. Það geri ég samt. Sturlunga er í mínum augum sagnfræði en Íslendingasögur skáldsögur þess tíma sem þær eru skrifaðar á. Reyndar minnist ég í þessari upptalningu ekkert á Fornaldasögur Norðurlanda, Biskupasögur eða Riddarasögur o.s.frv. en í sumum þeirra er að finna mikilsverðan fróðleik. Sá sem njóta vill nútímabókmennta getur, að mínum dómi, ekki látið hjá líða að kynnast okkar forna menningararfi að einhverju marki.

VoynichEinhver mynd.


2742 - Bitcoin

Horfði á leikinn milli Englands og Kólumbíu um daginn og það verð ég að segja að ógeðslegri knattspyrnu hef ég aldrei séð. Réttast væri að nefna þetta afbrigði fólbolta frekar en fótbolta. Ekki var nóg með að öllum mögulegum atvinnumannabrögðum væri beitt, heldur var oft á tíðum alls ekki annað að sjá en meiningin væri að skaða andstæðinginn sem mest. Auk þess sýndu allir eða flestallir leikmennirnir ágæta leikarahæfileika þegar þeir þóttust hafa stórslasast en voru samt alheilir þegar dómarinn tók ekkert mark á þeim. Hélt að ekki væri hægt að komast lengra en Neymar í aumingjaskapnum en svo er að sjá sem það sé ekki erfitt. Mín skoðun er sú að þeir sem sigra í þessum leik verði heimsmeistarar í fantabrögðum. Á vissan hátt er búið að eyðileggja knattspyrnuna, sem var þó alveg sæmileg í undanrásunum. Sennilega guðsblessun að sleppa við úrslitin.

Er Bitcoin að taka við af Evru og Dollar? Er þriðja eða jafnvel fjórða hagkerfið að taka yfir? Eru hinar undirokuðu stéttir sem gjarnan gefa skít í stjórnvöld að taka við? Eru hinir misskildu útrásarvíkingar að ná heimsyfirráðum? Ja, stórt er spurt og kannski ekki nógu settlega. Eitthvað er samt gruggugt við öll þessi gagnaver sem spretta eins og gorkúlur eða túristahótel út um allar jarðir. Kannski er þessi heimsbylting ekki bundin við Ísland eins og sú síðasta. Hver veit nema hin pínulitla íslenska króna verði í framtíðinni gjaldeyrir alls heimsins?

Ekki er ég spámaður og síst mundi ég spá um framtíðina. Vissulega er það svo að næsta Hrun hlýtur að vera handan við hornið. Best er að skulda ekki neitt og jafnvel að eiga ekki neitt heldur. Er kannski að styttast í að heimshlýnunin verði óviðráðanleg? Kannski hin óendanlega rigning hér á Ísa köldu landi boði eitthvað sérstakt. Það skyldi þó ekki vera?

Annars er kannski best að halda sig við jörðina. Ánamaðkarnir eru hæstánægðir með rigninguna sýnist mér. A.m.k. eru þeir í miklu magni á gangstígunum. Samt er óvíst að þeir séu á skemmtigöngu. Eða skriði og skruni.

Sumsstaðar er verslunarstarf kennt í sérstökum skólum. Kennari í slíkum skóla lagði mikla áherslu á að bjóða viðskiptavinum ávallt eitthvað annað í staðinn ef viðkomandi vara væri ekki til. Einn nemandinn tók þetta alla leið og mælti hiklaust með úrvalssandpappír þegar klósettpappír var ekki til. Þetta var bara til að beina huga ykkar í rétta átt kæru lesendur, því hvað er mikilvægara en góðar og vel mótaðar hægðir? Er ekki bara ágætt að enda á þessu?

Um að gera að hafa það sem maður skrifar bara nógu stutt. Þá er auðveldara að skrifa oft. Betra er að skrifa oft og stutt en sjaldan og langt.

IMG 7985Einhver mynd.


2741 - Ljósmóðurmál

Hversvegna er ég svona á móti HM í fótbolta. Hef margspurt sjálfan mig að þessu án þess að fá viðhlítandi svar. Helst hefur mér dottið í hug að sú guðræknislega föðurlandsást sem fótboltanum fylgir fari illa í mig. Kannski er það tilfellið. Það er dálítið tilgangslaust að hugsa mikið um þetta. Tekur sem betur fer fljótlega enda.

Fór í morgun (þriðjudag) út að ganga, þrátt fyrir rigninguna, sem reyndar var varla nema súld. Samkvæmt Fitbit er styttri leiðin, sem ég fór í morgun vegna veðurs, samt rúmir 3 kílómetrar. Ennþá styttri leið er að sjálfsögðu einnig hægt að fara. Hún er samkvæmt mælingu 1,8 km.

Eiginlega er allt þetta tilstand með fésbókina alls ekki svo vitlaus hugmynd. Of mikið má þó af öllu gera. Segja má að fésbókin sé orðin allof vinsæl, a.m.k. hér á Íslandi og eflaust víðar. Að sitja við þennan andskota í marga klukkutíma á dag er alveg óþarfi. Það er bara svo þægilegt að láta tímann líða þannig. Verst er að verða háður þessu og láta það sitja fyrir öðru sem hugsanlega er miklu skemmtílegra. Það er ljótur siður. Jafnvel ósiður. A.m.k. siðlaust.

Ljósmóðurmál eru mjög til umræðu um þessar mundir. Sjálfur þekki í afar lítið til í þessum málum, en hátt hefur farið í umræðunni að bæti konur við sig námi í ljósmóðurfræðum eftir að hafa tekið próf sem hjúkrunarfræðingar, lækki þær í launum. Eflaust hafa mjög margar konur verið sviknar á þennan hátt og ekki er nema eðlilegat að þetta verði leiðrétt áður en lengra er haldið. Sé þarna um að ræða sérkennilega túlkun á samningum sem aldrei er notuð ætti að sjálfsögðu að segja frá því, en ekki að nota það sem meginröksemd fyrir sjálfsagðri leiðréttingu.

Ég hafði víst í hótunum um daginn að auka við persónulegar upplýsingar hér á blogginu og segja frá ýmsu sem mig sjálfan snertir. Sú tilkynning hafði ekki mikil áhrif og eiginlega er ég hættur við að gera slíkt. Sennilega held ég bara áfram að mala um hitt og þetta eins og ég er vanur.

Nú er ég að verða kominn að leiðarlokum að þessu sinni og ætla að vinda að því bráðan bug að koma þessu á Netið.

IMG 8009Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband