Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016

2447 - Margir lesa "nafnablogg"

Getur verið að Lára Bush kjósi Hillary Clinton. Sumir halda það já. Eflaust mundi hún ekki viðurkenna að hafa farið flokkavillt, en kosningarnar eru nú einu sinni leynilegar.

Já, já. Simmi varð að athlægi um allan heim. Svona er nú að vera forsætis yfir fáeinum hræðum. Og kunna ekki að skammast sín. Gæti vel trúað að Siggi passi sig vel.

Þar sem þeir stóðu í stiganum fóstbræðurnir og stigamennirnir Bjarni og Sigurður fór ekki hjá því að maður yrði var við að Bjarni ætlaði sér að trompa Sigga greyið. Eiginlega hef ég aldrei séð Bjarna svona guðföðurlegan eins og hann var þarna. Hárið, dökkt, þykkt og mikið var alveg sleikt aftur eins og á alvöru mafíósa. Svo var hann sólbrúnn að auki. Sigurður var aftur á móti ekkert nema hægðin. Stóð meira að segja svolítið fyrir aftan Bjarna. Kannski stóðu þeir samt í sömu tröppunni en myndin í ríkisstjónvarpinu var a.m.k. þannig tekin að Bjarni virkaði mun stærri og meiri en Sigurður ræfillinn. Bjarni fullvissaði viðstdda um það að þó hann hefði ekki kært sig nokkurn skapaðan hlut um forsætisráðherratignina (ehemm) þá væri eiginlega allt óbreytt. Enginn árangur ekkert stopp sagði hann efnislega. Nú að Sigmundi sólkonungi gengnum væri samt vissara að setja þann varnagla að kannski yrði kosið fljótlega og hugsanlega tækist með því að setja einskonar þumalskrúfur á stjórnarandstöðuna.

Kannski er við hæfi að hugleiða smávegis forsetakjörið sem yfirvofandi er. Rithöfundarlausir getum við ekki verið. Um leið og fyrrverandi fótboltamaðurinn og rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson gaf til kynna að hann ætlaði að hætta við framboðið var kominn annar rithöfundur og ekki síðri. Kannski örlítið vinstrisinnaðri ef útí það væri farið. Vel getur samt verið að Andri Snær sé frambærilegri en flestir aðrir sem boðað hafa framboð hingað til. Bíðum bara. Þetta gæti vel orðið spennandi.

Sá áðan bók sem konan mín fékk á bókasafninu í gær. Þessi bók heitir „Nenni ekki að elda“. Nafnið sjálft er virkilega gott og að sjálfsögðu byrjaði ég aðeins á formálanum og sú byrjun var athyglisverð líka. Kannski les ég ekki mikið meir í þessari bók því mér sýnist þetta vera matreiðslubók en þær hef ég fremur fáar lesið um æfina. Blaðaði samt pínulítið í bókinni og þó myndirnar væru margar og plássfrekar þá sá ég ekki betur en höfundurinn hefði næstum sjúklegan áhuga á poppkorni og notaði allof mikinn sykur.

Sennilega er hæfilegt fyrir mig að blogga svona annan hvern dag. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað réttast væri að kalla þetta blogg mitt. Margir þekkja það hygg ég vegna þess að ég töluset það jafnan. Kannski mætti þess vegna kalla það „númerablogg“. Glósurnar gáfumannablogg, lífstílsblogg, fréttablogg, matarblogg, bókablogg og málfarsblogg finnst mér ég ekki geta notað. Það er þá helst að ég mundi sætta mig við að þetta blogg mitt væri kallað: „Gamalmennablogg“. Annars skiptir þetta svosem engu máli. Mér finnst að menn geti kallað það eitthvað eða ekkert.

WP 20160316 10 38 31 ProHöfði.


2446 - Stjórnarskráin og Hefner

Það er þetta með stjórnarskrána. Eiginlega er ég fylgjandi því að sætta mig við lítið því meira sé ekki hægt að fá í bili. Þó þessi hungurlús sé í boði Árna Páls finnst mér ekki rétt að fúlsa við henni. Við höfum sætt okkur við og komist af með stórgallaða stjórnarskrá allar götur frá því við vorum konungsríki og höfðum ekki aðra þjóðhöfðingja en Danska kónga. Ekki er þar með sagt að réttast sé að fara í fýlu og heimta annað hvort allt eða ekkert. Þjóðaratkvæðagreiðslur hljóta að vera til bóta. Nema við álítum fólk vera fífl og fíflin fleiri en þá sem með fullu viti eru.

Margt er í nýju stjórnarskárdrögunum sem horfir til bóta. Engin ástæða er samt til að flana að neinu. Ekki er með réttu hægt að segja að búið sé að samþykkja þá nýju þó þjóðin hafi með svolitlum semingi samþykkt að leggja þau drög sem fyrir lágu til grundvallar nýrri. Það er líka með ólíkindum að halda því fram að stjórnarskrár þurfi að samþykkja með öllum eða nánast öllum greiddum atkvæðum. Svo er alls ekki. Viss atriði í þeirri nýju eru samt alveg ótvírætt til bóta og í samræmi við þjóðarvilja. Fjölyrði þó ekkert um þau né gallana á þeirri gömlu. Kannski verðum við nefnilega að sætta okkur við hana alllengi enn.

Skilst að það sé klofningur innan Pírata varðandi þetta atriði og held endilega að Birgitta sé ekki sammála Helga Hrafni. Get samt ómögulega munað hvorum hópnum hvort um sig fylgir. Held að það skipti samt engu máli. Treysti nefnilega alveg Valgerði í þessu efni þó ég kjósi líklega Píratan næst eins og síðast.

Vilmundi heitnum Gylfasyni er eignuð setningin: „Löglegt en siðlaust.“ Kannski heldur sú setning minningu hans lengur á lofti en margt annað. Ótrúlegt er að enn virðast íslenskir ráðamenn ekki skilja þessa setningu. Segja má að það hafi komið berlega í ljós í nýafstöðnu ríkisstjórnarævintýri. Að minnsta kosti skilja Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson hana alls ekki á sama hátt og flestir aðrir.

Hugh Hefner er víst að verða níræður. Einu sinni las maður „Playboy“ með mikilli áfergju, en nú held ég að bæði það blað og eigandinn séu að verða dálítið úrelt. Kannski er ég það líka með mín 73 ár á bakinu. Hefner virðist samt ekkert vera að smíða sér stakk eftir vexti eða láta deigan síga. Hvernig sem þetta síðasta spakmæli er nú skilið eða misskilið.

Ríkisstjórnarskiptin eru um garð gengin og engum greiði gerður með því að fjölyrða meira um þau. Samt mundi ég gjarnan vilja vita hvenær ég fái að kjósa.

Annars er Sigmundur greyið bara smápeð. Framámenn á Íslandi hafa yfirleitt komist til valda með þjófnuðum og svikum, annaðhvort sínum eigin eða nákominna skyldmenna. Það vita allir. Sigmundur hefur kannski ekkert stolið meira en aðrir. Hann er bara mun vitlausari. Hefur ekki einu sinni vit á að vera í samskonar skóm á báðum fótum. Hvað þá að fela peningana sína almennilega.

Reynum nú að taka hlutina með almennilegum vettlingatökum, eins og sagt var um árið.

WP 20160316 10 36 17 ProVettlingar.


2445 - Búsáhaldabyltingin

Þegar við hjónin höfðum lokið við að kaupa bílinn hjá Toyota-umboðinu við Nýbýlaveginn man ég að ég hugsaði eitthvað á þessa leið: „Þetta hlýtur að vera lygi. Lífskjörin eru ekkert svona góð.“ Þetta var í janúar árið 2008. Núna, einu bankahruni og nokkrum ævintýralegum ríkisstjórnarskiptum seinna sé ég að þetta var alveg rétt hjá mér. Þetta var Ford Fusion og við borguðum að mig minnir 1,6 milljónir fyrir hann.

Í september fórum við svo á árshátíð í Kaupmannahöfn og enn hugsaði ég: „Þetta er eitthvað skrýtið. Árshátíðir fyrirtækja eru svosem engin nýlunda, en að þurfa að fara til útlanda til að sækja slíkt. Það er einum of mikið. Þetta hlýtur að enda illa.“ Að vísu var harkaleg gengisfelling búin að eiga sér stað á þessu tíma og ég man eftir því að okkur þótti allt fjandi dýrt í kóngsins Kaupinhafn.

Þrátt fyrir þessar frábæru hugsanir sem kannski eru veruleiki og kannski ekki, sagði ég ekki múkk. Reyndi bara að njóta þessarar óvæntu velgengni.

Svo kom blessað hrunið. Ég segi blessað því ef það hefði komið svolítið seinna má alveg eins búast við því að það hefði riðið okkur að fullu. Man að við sóttum fundina hjá Herði Torfa þó kalt væri í veðri, en misstum af jólatrésbrennslunni. Einhvern vegin var ég aldrei hræddur um að þetta færi á versta veg. Núna er ég heldur ekkert hræddur um það. Samt er ég ansi hræddur um að íslenskar Tortóla-eignir sé óhætt að afskrifa. Þolinmæðin gagnvart slíkum andskota er alveg búin.

Einum Sigmundi Davíð seinna segi ég: „Nú skulum við reyna að passa okkur. Næsta kreppa verður vonandi aðeins grynnri en sú síðasta. Kannski endum við bara á jafnsléttu.“

WP 20160315 10 10 20 ProLangisandur undir sjó.


2444 - Sigurður Ingi

„Það er erfitt að eiga peninga á Íslandi“, sagði maðurinn og meinti sennilega að það væri erfitt að eiga mikla peninga og tíma ekki að borga sinn réttláta hluta til samfélagsins. Mér finnst ekkert erfitt að eiga peninga. Enda á ég ekki mikið af þeim. Ásamt konu minni á ég íbúðina sem við búum í og sæmilega nýlegan bíl. Ekki einu sinni bankainnistæður sem neinu nema og hvað þá Tortólapeninga. Tekjurnar eru aðeins rúmlega það sem Tryggingastofunin skammtar eins og skít úr hnefa. Það sem framyfir er eru eingöngu eftirlaun sem náðst hefur að skrapa saman á langri ævi. Skattskjólseignir er svo sannarlega sífellt að verða erfiðara og erfiðara að eiga. Tala nú ekki um ef samtímis er reynt að telja fólki trú um að svart sé hvítt og öfugt. Eiginlega er það bara gott. Til hvers að hafa fyrir því að fela peningana sína í skattaskjóli ef það er ekki til neins?

Einu sinni var það svo að flytja þurfti lögheimili sitt (og er kannski enn) til að sleppa við háa skatta. Þannig voru frægir menn eins og t.d. Björn Borg á sínum tíma með lögheimili í Monaco af því að skattar voru lægri þar en í Svíþjóð. Líklega er svo langt síðan þetta var að Tortólatískan hafi ekki verið farin að tröllríða öllu. Og kannski voru menn ekki fyrirtæki þá. Annars vilja fæstir borga háa skatta. Jafnvel ekki vinstri menn. Þorvaldur í Síld og Fisk var undantekningin. En hann fékk nú líka alla matarafganga frá hernum gefins, ef ég man rétt.

Sennilega er það að blogga eitt af því fáa sem ég kann. Verst hvað fáir vita af því. Þó get ég ekki kvartað undan lesleysi. Það virðist vera sama hvaða vitleysu ég set á bloggið mitt. Einhverjir lesa það alltaf. Segir tölvan. Og henni verð ég víst að trúa.

„Já, en hann byrjaði.“ Svona taka krakkar oft til orða. Donald Trump gerði það líka í sjónvarpsþætti þar sem hann var skammaður fyrir að dreifa ófagurri mynd af konu mótframbóðanda síns. Satt að segja sæmir það alls ekki forsetaframbjóðanda að taka svona til orða, enda leist þáttarstjórnandanum ekkert á þetta. Skömminni skárra hefði verið fyrir Donald að kenna einhverjum öðrum um. Það eru stjórnmálamenn af hans sauðahúsi vanir að gera.

Þó mikið hafi gengið á í íslenskum stjórnmálum undanfarið hef ég líka haldið áfram að fylgjast með Tromparanum sjálfum. Það sem hér fer á eftir er grein um Donald Trump sem er allsekki lofsöngur um hann. Þessi grein er nokkuð löng en nokkuð góð líka og ég ráðlegg öllum að lesa hana. Auðvitað er hún á ensku.

http://www.msn.com/en-us/news/us/donald-trump-is-the-pinnacle-of-american-stupidity-why-his-campaign-consummates-decades-of-rising-anti-intellectualism/ar-BBripws

WP 20160312 09 41 40 ProFyrir börnin.


2443 - Þetta blogg er ekki (nema að litlu leyti) um SDG

Oft er vitnað í orð Styrmis Gunnarssonar fyrrum Moggaritstjóra um að stjórnmál á Íslandi séu ógeðsleg. Víst eru þau það, en ekki þarf það að benda til þess að ómerkilegt eða ógeðslegt sé að hafa áhuga á þeim. Áhugi á þeim leiðir oft til þess sem ég vildi gjarnan kalla vinstrimennsku, en kannski er það ekki allskostar rétt.

Áhugi fólks á Íslandi á stjórnmálum hefur aukist mikið eftir Hrunið. Eða hið svokallaða hrun eins of sumir vilja kalla þá atburði sem hér urðu á seinni hluta árs 2008. Stjórnmálamenn og þó einkum þingmenn og margir ráðamenn virðast samt hafa mikinn áhuga á að endurvekja hér það ástand sem ríkti fyrir Hrunið árið 2008.

Undarleg er sú skoðun sumra framsóknarmanna að það skipti máli fyrir þá umræðu sem nú er um hugsanlega hagsmuni forsætisráðherra af því að leyna hagsmunum nánustu fjölskyldu sinnar (og þar með sínum eigin) hvernig staðið var að málum hjá þeirri ríkisstjórn sem var við völd fyrir þremur árum. Og svo sannarlega er illa komið fyrir þeim flokki sem treystir flokkahlaupara sem Ásmundi Daðasyni fyrir vörnum sínum. Jafnvel Karl Garðarsson hefði verið betur til þess fallinn.

Hann féll og hans fall var mikið. Þegar ég byrjaði á þessu bloggi virtist Sigmundur Davíð næstum ósnertanlegur. Mikið hefur þó breyst síðan það var og satt að segja er ég að hugsa um að blogga um eitthvað annað en það sem allra efst er á baugi núna.

Það er ekkert skemmtilegt að verða gamall. Allt gengur miklu hægar. Að sofa út á hverjum morgni er gríðarlega ofmetið. Allskonar smávægilegir líkamlegir kvillar eru sífellt að hrjá mann o.s.frv. Enginn hefur áhuga á því sem manni sjálfum þykir stórmerkilegt. Vissulega snertir flest af því mann sjálfan. En hvað um það. Það er jafnvel stórmál að komast í buxurnar á morgnana. Vitanlega væri hægt að fjölyrða mikið um allt mögulegt þessháttar. En hver hefur áhuga á slíku?

Offita er líkt og flóðbylgja yfir íslenskt heilbrigðiskerfi. Þetta minnir mig að hafi staðið í Fréttablaðinu ekki alls fyrir löngu. Er hugsanlegt að ódýr matur í lágvöruverðsverslunum valdi því? Góður og ódýr matur gæti hæglega verið orsökin. Fólk lifir lengur, borðar betri mat en áður og kunnáttu í matargerð fer sífellt fram. Manni finnst allir matarkúrarnir snúast um keisarans skegg. Einfaldast ætti að vera að borða bara svolítið minna. En það er alls ekki einfalt. Lífskjörin eru betri en áður var og ekkert stöðvar fólk í því að borða sem allra mest af góðum og hollum mat.

Á hverjum morgni þarf ég að klæða mig að einhverju leyti og fara niður nokkrar hæðir í lyftunni og sækja Fréttablaðið. Auk þess þarf ég auðvitað að fara smá í tölvuna, líta aðeins á fésbókina, taka töflurnar mínar, borða múslið mitt o.s.frv. Þegar ég er svo búinn að drekka fyrsta kaffibollann þá kemst ég kannski í gang.

WP 20160309 10 21 11 ProHvíldarstaður.


2442 - Enn um Tromparann

Allir sem hafa einhvern snefil af áhuga á heimsmálum og þar með á Bandarískum stjórnmálum hafa áhuga á Donald Trump. Ekki er hægt að segja annað en að hann hafi komið með hvelli inní stjórnmálin með forsetaframboði sínu. Evrópumenn keppast flestir um að afneita honum, einkum þó þeir sem vinstri sinnaðir eru.

Hvað sem menn hafa um Tromparann að segja verður því ekki neitað að hann kann að spila á fjölmiðlana og tryggir sér talsverðan fjölda atkvæða í leiðinni. Satt að segja virðist á þessari stundu fátt geta komið í veg fyrir útnefningu hans sem frambjóðanda Repúblikana í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í byrjun nóvember á komandi hausti.

Auðvitað má segja að Bandríkjamenn séu hægri sinnaðri en Evrópubúar. Repúblikanaflokkurinn hægri sinnaðri en Demokrataflokkurinn og Tromparinn hægri sinnaðri en flestir aðrir í GOP-flokknum (Grand Old Party). Hægri og vinstri skipting á kannski ekkert betur við í Bandaríkjunum en annarsstaðar. Kannski má frekar tala um einangrunarsinna og opingáttarmenn. Annars á ég von á að bandarísku forsetakosningarnar snúist mest um persónulega hluti og þar fyrir utan einkum um hvorrt menn vilji breytingar og óvissu eða óbreytt ástand og öryggi.

Á Demókratavængnum virðist líklegast að Hillary Clinton sigri og samkvæmt þeim spádómum sem nú eru háværastir ætti hún ekki að eiga í neinum vandræðum með að sigra Donald Trump. Vitanlega getur Bernie Sanders gert einhvern skurk hjá Demókrötum, en segja má að skoðanir hans séu á margan hátt líkari Skandinavíska módelinu en þær skoðanir sem búast má við frá Hillary Clinton, sem óneitanlega er á margan hátt fulltrúi ríkjandi ástands. Ég er þeirrar skoðunar að Demókrataflokkurinn eigi auðveldara með sigur ef Hillary Clinton verður í framboði en ekki Bernie Sanders. Á margan hátt væri samt athyglisvert að fylgjast með forsetakosningum þar ef Sanders og Trump myndu berjast.

Að sögn Trumps sjálfs heldur fjölskylda hans og helstu vinir því oft fram að hann sé ekki nógu forsetalegur. Það sama kom einnig fram í viðtalinu sem minnst er á hér á eftir.

Var nefnilega að enda við að lesa all-langt viðtal við Donald Trump úr vefútgáfu Washington Post. Bob Woodward og Robert Costa eru skrifaðir fyrir því.

Margt athyglisvert kemur fram í viðtali þessu. Einkum er hægt að segja að þar komi mannlega hliðin á Trump betur fram en í flestu sem um hann hefur verið skrifað hingað til og eftir honum verið haft. Lokaorð hans í þessu viðtali voru svona:

“My natural inclination is to win,” Trump said. “And after I win, I will be so presidential that you won’t even recognize me. You’ll be falling asleep, you’ll be so bored.”

WP 20160309 10 15 51 ProAkranes.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband