Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

2368 - "Sprengjur féllu"

Segja má að umræðan um stjórn landsins sé að komast á dálítið nýtt stig þegar þjóðþekkur geðlæknir, Óttar Guðmundsson, stígur fram og gefur beinlínis í skyn að Sigmundur Davíð sé geðveikur. Kannski meinar hann það ekki og þá er varla hægt að segja annað en að þetta sé heimskulegasti stjórnmálabrandari sögunnar a.m.k. hér á Íslandi. Sennilega eru þeir orðnir fáir sem muna eftir „Stóru bombunni“ Sjálfur man ég eftir því að hafa lesið ágæta grein um hana og kvæði úr Speglinum sem mig minnir að hafi endað svona: „Hver veit nær söðlar Daníel“

Áhugi fólks á Pírötum ber vott um skrítið stjórnmálaástand. Landslagið þar er að ýmsu leyti breytt. Stjórnarskárumræða er mikil og tölvu- og internetaðsókn hefur aukist mikið. Og auðvitað tölvulæsi einnig. Bóklestur er líka minnkandi o.s.frv. o.s.frv. Allt er þetta hugsanlega fésbókinni og öðrum samskiptamiðlum að þakka. Nú, eða kenna, ef menn eru þannig þenkjandi. Ekki er hægt að neita því að samskipti fólks eru með allt öðrum hætti núna en áður var. Meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi. Það er ekki einu sinni hægt að treysta því lengur að gamalt fólk geti ekki tileinkað sér nútíma tækni, þó oft sé það notað sem afsökun fyrir allskyns mistökum. Predikunarárátta mín minnkar samt ekkert. Eins og fleirum finnst mér mín sjónarmið langbest í öllu, sem ég á annað borð hugsa um.

Ekkert er ókeypis. Og engir tveir hugsa nákvæmlega eins. Þetta virðist mér að fólki sjáist stundum yfir. Það sem einum finnst sjálfsagt og svo eðlilegt að varla sé orðum á það eyðandi, finnst kannski öðrum vera mesta vitleysa. Samt miðar okkur ekkert áleiðis, hvert sem við erum að fara, nema sæmileg sátt ríki um sem allra flest sjónarmið. Kannski sést hinum hefðbundnu og vanalegu stjórnmálaflokkum yfir þetta og þessvegna minnkar fylgi þeirra jafnt og þétt.

„Sprengjur féllu“, sagði útvarpið núna rétt áðan. Þær féllu víst meðal annars á sjúkrahús. Mér finnst það ekkert náttúrulögmál að sprengjur falli af himnum ofan. Miklu nærtækara er reyna að komast að því hverjir stóðu fyrir þessu sprengjuregni. Annars er það víst ekkert leyndarmál að Bandaríkjamenn stóðu fyrir því. Ekki dettur mér samt í hug að halda að það hafi verið með vilja gert að bana sjúklingum. Eflaust hafa þeir verið að hefna fyrir aðrar árásir. Ríkisstjórnir eru víst ekkert undanskildar þegar um hefndarhug er að ræða. Auðvitað kemur til greina að beita öðrum ráðum en sprengjuregni þegar svona stendur á. En slíkt kostar hugsanlega tíma og mannslíf. (Ekki bara peninga eins og sprengjuregnið hjá stórveldunum.) Samt hasast stórveldin upp á því fyrir rest.

Ég er líka að hasast upp á þessum eilífu myndbirtingum sem litlum tilgangi þjóna. Á engar myndir tilbúnar núna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband