Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

2010 - Allt fram streymir endalaust

Heitasta umræðuefnið í dag eru ummæli Þorbjargar Helgu um Ólaf F. Magnússon og ýmislegt sem komið hefur í ljós í framhaldi af þeim. Satt að segja hef ég meira álit á Ólafi en Þorbjörgu. Hvorugt þekki ég reyndar persónulega en verð bara að styðjast við myndir af þeim og það sem ég hef lesið um þau, eftir þau og það sem eftir þeim hefur verið haft. Eflaust er það ekki tæmandi og hvorugt þeirra er í borgarstjórn lengur eða eins miklir þátttakendur í opinberu lífi og áður var.

Einhverjir virðast ætla að nota þetta mál og peningauppgjör sem tengdust frjálslynda flokknum og Ólafi Magnússyni til að sverta Jón Gnarr, en ekki er víst að það takist. Ég ber virðingu fyrir skoðunum hans varðandi mannréttindamál og margt annað. Ekki vil ég trúa neinu misjöfnu um hann. Ég er mjög ósammála mörgum skoðunum Ólafs F. Magnússonar, en held ekki að sjúkdómur hans hafi haft áhrif á þær. Held að hann hafi verið einn af bestu borgarstjórum Reykjavíkur. Annars er málefni þetta allt svo margflókið að engin leið er að átta sig almennilega á því. Allt er það þó heldur óhagstætt núverandi stjórnarflokkum.

Ekki get ég skilist svo við pólitíkina að ég minnist ekki á fjórmenningaklíkuna nýju. Þar á ég við svonefndan hagræðingarhóp ríkisstjórnarinnar. Í honum sitja að því er mér hefur skilist: Ásmundur Einar Daðason, Vigdís Hauksdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Ég er nú svo andstyggilegur í hugsun að mér hefur dottið í hug að þetta sé einmitt fólkið sem Sigmundur og Bjarni vilji helst gera óskaðlegt. Fyrir utan ráðherrana að sjálfsögðu. Er þá eitthvað betra að þeir tveir ráði öllu? Það er ég ekki viss um. Rjómapönnuköku- og sumarbústaðaævintýri þeirra gætu þó bent til að þá langi til þess. Bjarni leyfði Sigmundi að vera forsætis m.a. vegna þess að ÓRG vildi það og hefur eflaust fengið ýmislegt í staðinn.

Svo er það blessuð Samfylkingin. Hún hlaut hörmulega útreið í kosningunum og nú er rifist mjög um það útaf hverju það hafi verið. Ríkisstjórnarflokkarnir stóðu sig báðir mjög illa áróðurslega séð og gerðu það í öllum aðdraganda kosninganna. Alltof seint var skipt um formann hjá Samfó og hann fékk ekki þau tækifæri sem hann þurfti.

Hvernig notar maður fésbókina? Mér finnst ég nota hana skynsamlega. Þó nota ég hana eflaust öðruvísi en flestir aðrir. Oft er furðulegt að fylgjast með tölvuhegðun fólks. Ekki bara hvað það lætur frá sér fara, heldur líka hvernig það nálgast hlutina. Hvernig vandamál eru leyst o.s.frv. Hverjum þykir sinn fugl fagur í því efni og sem betur fer er oftast hægt að framkvæma tölvutengda hluti á margan hátt. Ég hef stundum líkt tölvumálum við bílamál og vissulega er margt líkt með þeim.

Áður fyrr þurftu bílstjórar að leysa mörg vélfræðileg og allskyns önnur vandamál sjálfir. Bílarnir voru oftast mjög ófullkomnir og bílstjórar fáir. Nú er þetta breytt. Allir, eða a.m.k. allflestir geta auðveldlega keyrt bíl. Þeir eru orðnir afar fullkomnir og vandamál fá sem glíma þarf við.

Tölvutæknin breytist jafnvel enn hraðar en bílarnir gerðu á sínum tíma. Helsta ógæfa gamals fólks núorðið er hve ósýnt því flestu er um allskyns tækni sem þó gerir líf nútímamannsins miklu auðveldara en áður var, en um leið mun flóknara.

Í dag er föstudagur og allir eiga að vera kátir því nú er að byrja helgi. Fyrir gamalmenni eins mig sem er með öllu hættur að vinna er helgin þó ekki eins mikilvæg og áður var. Þar að auki er veðrið ekkert sérlega gott hér á Stór-Kópavogssvæðinu. Kannski rignir samt lítið í dag.

IMG 3494Með húsið á bakinu.


2009 - Páll Vilhjálmsson

Þetta fékk ég í athugasemdadálkinn minn um daginn. Ekki kannast Gúgli við þennan Karl Kristján svo kannski er hann bara plat. Þjóðskrá virðist ekki þekkja hann heldur. Hef ekki haft fyrir því að leita annarsstaðar. Ekki svaraði hann heldur því sem ég taldi vera sæmilega kurteislegt svar við þessum hroða. Þó mér leiðist heldur svona brenglun, þá missi ég svosem engan svefn útaf því.

All over the place... þú getur líka bara haldið persónulega dagbók, ef tilgangurinn er bara að láta heilann þinn ræpa stjórnlaust út setningum.

Karl Kristján Hauth Gröndal Marðarson 15.7.2013 kl. 16:18

 

Ég er alltaf að rembast við að blogga og er heldur á móti fésbókinni. Þessi fyrirbrigði eru þó úr sömu skúffunni og náskyld. Á fésbókinni eru fleiri og líklega er auðveldara að ná til fólks þar. Ég er orðinn svo vanur blogginu að ég held mig við það. Get heldur ekki alveg losnað við þá hugsun að það sem bloggað er sé svolítið varanlegra en fésbókarskrif. A.m.k. eru fésbókarstatusarnir fljótir að hverfa nema maður eigi þeim mun færri fésbókarvini eða þeir skrifi þeim mun minna, held ég a.m.k. Best er auðvitað að nota hvorttveggja.

Eitthvert heitasta málið á fésbók og víðar um þessar mundir er bygging mosku í Reykjavík. Mér finnst það reyndar skipta svo litlu máli að ekki taki því að rífast um það. Í mínum huga eru múslimar ekkert verri en annað fólk. Það er einfaldlega rasismi að halda það og vera eitthvað á móti moskum þessvegna. Turnspírur að islömskum sið eru að vísu engar hér fyrir svo ég viti, en moskur eru það, ef kalla má trúarlega samkomustaði múhameðstrúarmanna það. Ef rasisma, þjóðrembu og einangrunarhyggju er hrært saman getur komið hættuleg blanda útúr því. Það er reyndar langt frá því að ég sé að líkja öllum andstæðingum mosku í Reykjavík við slíkt en sú andstaða held ég að sé að stórum hluta byggð á misskilningi.

Held ég hafi bloggað um Pál Vilhjálmsson áður. Hann bloggar hér á Moggablogginu og er með andstöðu við ESB á heilanum. Jóhann Hlíðar Harðarson fréttamaður á RUV segir hann vera lygara þar að auki þar sem hann fullyrði að „accession process“ á ensku þýði aðlögunarferli. Ég er sammála Jóhanni þar.

IMG 3481Rosalega er þetta gult hús.


2008 - Fóstureyðingar o.fl.

Tók í gærkvöldi þátt í fésbókarþrasi í athugasemdum hjá Sigurði Þór Guðjónssyni. Reifst þar m.a. við Pál Bergþórsson um fóstureyðingar. Hann hefur tileinkað sér pro-life skoðanir í því sambandi. Þær hef ég yfirleitt sett í samband við hægri öfl. Ef ég misskil málin ekki herfilega er grunnatriðið í slíkum skoðunum að lífið hefjist við getnað og fóstureyðingar séu morð. Því fer samt fjarri að ég haldi að Páll Bergþórsson sé hægri sinnaður eða líklegur til að framfylgja þessari skoðun sinni með ofbeldi eins og víða er gert. Þetta sýnir bara að hver hugsar fyrir sig og reynir að forgangsraða sínum skoðunum þannig að þær samræmist nægilega vel skoðunum einhverra stjórnmálasamtaka til þess að óhætt sé að kjósa þau. Enginn getur vænst þess að fá allar sínar óskir uppfylltar.

Ég er algjör andstæðingur Páls Bergþórssonar að þessu leyti. Tel t.d. að konur eigi sem mest að fá að ráða yfir líkama sínum sjálfar. Hægt er að rífast um þetta mál fram og aftur og tína til ýmis rök. Trúarskoðanir eru líklegar til að blandast í þau rök og þá er ekki að sökum að spyrja. Menn geta hæglega orðið æstari en góðu hófi gegnir. Algjört bann við fóstureyðingum hefur víða verið á undanhaldi síðustu áratugi og helst það að einhverju leyti í hendur við framfarir í læknavísindum og aukna menntun almennings.

Þessi skoðanaskipti á fésbókarsíðu Sigurðar Þórs hófust reyndar á deilum um dauðarefsingar. Þær eiga sér víða talsmenn þó ekki hefðu þeir sig mikið í frammi þarna. Flestir virtust vera þeim algjörlega andvígir og mest var deilt um hvort aldur skipti þar máli. Athyglisvert var að engar konur tóku þátt í þeim skoðanaskiptum sem fram fóru. Yfirleitt vantar þær þó ekki hjá Sigurði Þór.

Ég tel að Íslendingar eigi að ganga í ESB. Ég álít líka að greiða eigi þjóðaratkvæði um það mál. Eins og nú lítur út eru allar horfur á að slíkt yrði fellt. Mun auðveldara væri að sætta sig við að málið yrði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu en án hennar. Hvenær slík þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram finnst mér að löglega kjörin stjórnvöld (alþingi) eigi að ákveða. Þó ætti alþingi að ákveða einhverjar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur og gerir það e.t.v.

Sagt er að meirhluti þjóðarinnar vilji ljúka viðræðunum við ESB og greiða atkvæði um niðurstöðuna. (Og væntanlega fella hana). Sömuleiðis telja margir að meirihluti sé hjá þjóðinni fyrir breyttu fiskveiðistjórnunarfyrirkomulagi. Gallinn er bara sá að ekki er vitað hvernig það fyrirkomulag ætti að vera. Næsta öruggt er að mikill meirihluti styður þjóðareign á óveiddum fiski. Deilur þar snúast einkum um orðalag og lagaskilning.

„Mér finnst allt kónga- og drottningastand verulega ógeðfellt. Svoleiðis er það bara. Ef ég byggi í landi þar sem væri kóngur, þá væri ég ákafur lýðveldissinni.
Að það séu meðfædd fríðindi í ákveðnum ættum að vera þjóðhöfðingjar og búa í höllum með þjóna á hverjum fingri – og það líka í lýðræðisríkjum. Það er ekki bara tímaskekkja, heldur alveg absúrd. Og þetta tíðkast meira að segja á hinum frjálsu Norðurlöndum."

Segir Egill Helgason. Alveg er ég sammála honum þarna. Mér finnst ástandið samt fyrst og fremst hlægilegt. Þegar fríðindin eru farin að breiða úr sér til allra í ættinni hættir það kannski að verða hlægilegt og fer að skipta máli fjárhagslega. Hjá stórþjóðum er það hugsanlega afsakanlegt, en óþarfi er fyrir smáþjóðir að herma allskyns kónga og drottningarstæla eftir.

Snowden-málið er orðið æði fyrirferðarmikið. Gagnrýnin á Bandaríkjastjórn er mun harkalegri en venjulega. Hún er þó leyfð, en reynt er að gera hana óskaðlega. Ríkisstjórnir í svokölluðum vinaríkjum Bandaríkjanna skjálfa af hræðslu og gera allt eins og þeim er sagt. Meira að segja Rússlandsforseti er logandi hræddur.

IMG 3488Rautt hús með stórum gluggum.


2007 - Anita

Mjög margir þeirra sem greiða atkvæði í kosningum hafa allsekki sérstakan áhuga á stjórnmálum. Það er samt engin ástæða til að kalla þá fávita eða eitthvað þaðan af verra. Þátttaka þeirra í kosningum er alltaf til góðs. Engin leið er að setja einhver skilyrði um þátttöku í þeim og hiklaust má gera ráð fyrir að stjórnmálaflokkarnir uppskeri í  samræmi við það sem þeir hafa sáð til.

Um þau mál sem stjórnmálamenn geta alls ekki náð neinni samstöðu um má hafa þjóðaratkvæðagreiðslur. Stjórnvöld og stjórnmálamenn geta að sjálfsögðu haft margskonar áhrif á þær. Bæði hve algengar þær verði og úrslit þeirra. Mikilvægustu áköll hins almenna kjósanda um þessar mundir eru að þær verði algengari en verið hefur og að hrifsa völd um tilvist þeirra úr höndum eins manns með valdasýki.

Já, ég kaus Pírata í síðustu kosningum og sé ekkert eftir því. Í kosningabaráttunni hreifst ég mest af málflutningi Smára McCarthy og Birgitta Jónsdóttir hefur sýnt það í störfum sínum á alþingi að hún lætur ekki segja sér fyrir verkum. Er einfaldlega þingmaður af þeirri tegund sem hægt er að gera ráð fyrir að breyti í samræmi við sannfæringu sína en ekki annarra. Áhersla þeirra Pírata á mál sem snerta mannréttindi, upplýsinga og tjáningarfrelsi ásamt tölvusamskiptum hverskonar eru svo einskonar aukaplús fyrir mig.

Hugsanlega gæti náðst samstaða meðal þingmanna um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslna. Forsetinn gæti varla neitað að undirrita slík lög. Samt gæti hann reynt. Þjóðin gæti þó sem best gert hann afturreka með það. Stundum dreymir mig satt að segja um atburðarás af þessu tagi eða svipuðu. En látum nú stjórnmálin liggja milli hluta. Þau eru hvort eð er í einskonar dái til hausts.

Anita Hinriksdóttir hefur alla burði til að verða millivegahlaupari á heimsmælikvarða. Yfirburðir hennar á heimsmeistaramóti unglinga í Úkraínu voru ótrúlegir. Hlaupastíll hennar er vissulega sérkennilegur og átakamikill, en eins og Ómar Ragnarsson segir gæti verið mjög varasamt að ætla að hrófla við honum. Annars veit hún sennilega sjálf miklu meira um hlaupastíl og þess háttar en ég. Vel mætti kalla mig hina dæmigerðu íslensku sófakartöflu, þó sennilega séu setur mínar við tölvuna meiri en yfir sjónvarpinu. A.m.k. hefur áhugi minn á íþróttum farið hraðminnkandi að undanförnu. Afrekskona sem Anita gæti þó breytt því.

Síðasta ríkisstjórn (Jóhönnu Sigurðardóttur) var áróðurslega séð mjög misheppnuð. Núverandi stjórn er sennilega áróðurslega séð fremur vel heppnuð, en efast má um stefnu hennar að öllu öðru leyti. Sjá, ég á afar erfitt með að segja skilið við þá örmu tík sem pólitíkin er. En nú er ég hættur.

IMG 3442Wanted by Interpolar.


2006 - Persónuleikaröskun (hlýtur líka að vera eitthvað um fésbókina)

Allir hafa a.m.k. þrjá persónuleika. Fyrstan skal telja þann sem sýndur er nánustu fjölskyldu og aðstandendum. Númer tvö er hægt að segja að sé sá persónuleiki sem sýndur er öðrum en fjölskyldunni og ókunnugum. Sá þriðji er svo netpersónuleikinn. Líkur eru til að hann líkist hinum tveimur alls ekki neitt. En hver þeirra skyldi vera sá raunverulegi. Ekki veit ég það. 

Í mínu ungdæmi var hvalkjöt ódýrt og talsvert borðað. Nú er það dýrt og lítið borðað. Ef þeir sem vilja borða hvalkjöt vilja borga eðlilegt verð fyrir það finnst mér í lagi að veiða hval í nægilega miklu magni til að fullnægja þeirri þörf. Hef grun um að hvalveiðar þær sem stundaðar eru núna séu bara til að sýnast. Það sem Kristján Loftsson segir nægir mér ekki. Annars er ekkert sem mælir á móti því að stjórnvöld ráði þessu. Það er fleira en verð sem vel getur skipt máli. Mun lakara er að stjórnvöld skuli ætla að halda áfram þeirri vitleysu að gefa (a.m.k. næstum því) útvegsmönnum óveiddan fiskinn í sjónum

Andstyggð ríkisstjórnarinnar og raunar stjórnmálamanna allra á þjóðaratkvæðagreiðslum er einkennileg. Að vísu eru póltíkusar vanir að styðja þær núorðið í orði, en allsekki á borði. Það sem ríkisstjórnin talar um sem þjóðaratkvæðagreiðslu er í rauninni ekkert slíkt. Alls ekki er eðlilegt að þeir sem ekki taka þátt ráði úrslitum. Það er samt í raun og veru gert með því að krefjast þess að ákveðið hlutfall af kosningabærum mönnum samþykki það sem greidd eru atkvæði um. Nægilegt ætti að vera að meirihluti (aukinn eða ekki) þeirra sem atkvæði greiða samþykki. Fleiri en forsetinn einn þyrftu að geta vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það eru oft dálítið skemmtilegar umræður í orðhenglinum á fésbókinni. Ætla samt ekki að fara að endurtaka þær hér. Vil bara vekja athygli þeirra sem áhuga hafa á umræðum um málnotkun og tengd efni, auk þess að heimsækja fésbókina öðru hvoru a.m.k., á þeim og hvetja þá til að kíkja þangað. Þar er allt opið held ég.

Hef náð svolitlum árangri í bloggi. Það er að segja að ég blogga heldur minna núna en ég hef gert undanfarið. Keppikefli mitt er ekki að blogga sem mest, heldur að lesendum mínum leiðist ekki um of það sem ég skrifa. Pólitíkin er alveg hrikalega leiðinleg og fyrirsjáanleg þessa dagana. Það er ekki fyrr en fjárlagafrumvarpið verður lagt fram (seint og um síðir) að fjörið fer að aukast. Þangað til krosslegg ég bara puttana.

IMG 3440Snilldarlega lagt.


mbl.is Njósna um fyrrverandi á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2005 - Rigning

Loksins er komið eðlilegt ástand aftur. Það vantar ekkert nema úrhellisrigningu og rok um land allt um verslunarmannhelgina, þá er þetta orðið eins og það á að vera. Ég er alveg steinhættur að fara út að ganga. Það var stundum hægt í vor en núna er alltaf annaðhvort þoka eða rigning á morgnana. Vonandi er sólskin á Ítalíu. Ég á nefnilega pantað far þangað í septemberlok. Kannski verður stytt upp þá. Hugsa að það verði a.m.k. hlýrra þar um það leyti. Það borgar sig að gera alltaf ráð fyrir því versta. Það góða sakar ekki. Kannski skellur hann á með sólskin einhvern daginn.

Hann bloggar eins og brjálaður Færeyingur. Þetta hefði sennilega verið hægt að segja um mig fyrir margt löngu. Þá tíðkaðist að líkja öllum við brjálaða Færeyinga. Ekki veit ég hvað tíðkast núna. Einhver sagði við annan: Helvítis arabinn þinn!! „Andskotans bloggari ertu“ sagði ÓRG um daginn, eða meinti það áreiðanlega. Sennilega stelst hann til að lesa blogg og kíkja á fésbókina þegar Dorrit er í London eða í fýlu. Kannski eru menn kallaðir Kínverjar í dag. Í gamla daga voru kínverjar viss tegund af sprengjum. Merkilegt hvernig málið breytist. Það er svo margt sem hefur áhrif á málnotkunina. Einhvern staðar í drasli ætti ég að eiga gömul dagbókarslitur. Gaman væri að vita hvernig málnotkunin hefur verið hjá mér þá. Talmál og ritmál eru auðvitað sitthvað.

Rasismi allskonar veður uppi þessa dagana. Nú um stundir beinist hann aðallega að Múhameðtrúarmönnum og innflytjendum. Hugsanlega beinist hann að einhverju öðru á morgun. Það er óskaplega hressandi að þykjast vera miklu betri sjálfur. Já, mér finnst ég vera alveg laus við rasisma. Kannski er ég það samt ekki þó ég áfellist menn ekki fyrir að vera Íslamstrúar eða að nýbúar hér á Íslandi. Það vill bara svo til að ég fæddist og ólst upp hér á landi og er álitinn þjóðníðingur hinn mesti af sumum af því ég vil að Ísland gangi í ESB. Ábyggilega verð ég seint eins mikill Guðsmaður og ESB-andstæðingur og t.d. Jón Valur Jensson. Eða jafn hægri sinnaður þó ég bloggi hér á Moggablogginu eins og hann.

Nú er kominn föstudagur og helgi væntanleg. Líklega verður hún víst í votviðrasamara lagi. Hér sunnanlands a.m.k. Ekkert gengur hjá mér að komast í bloggfrí. Og þó. Held ég hafi bara ekkert bloggað síðan snemma í fyrradag. Ég get þetta semsagt alveg. Gott ef ég er ekki að léttast líka. Keypti baðvog um daginn á útsölumarkaði hérna rétt hjá. Léttist maður ekki helling við það? Það held ég endilega.

Ekki hélt ég að Ólafur Magnússon væri svona afturhaldssamur einsog hann virðist vera eftir nýjustu greininni hans og viðtalinu að dæma. Hef aldrei haft sérstaklega mikið álit á Hönnu Birnu. Hún greip ekki gæsina þegar hún bauðst og missir hugsanlega af tækifærinu þess vegna. Bjarni Ben. er nokkuð sæmilegur ef bara er borið saman við hina ráðherrana. Mestu vonbrigðin eru varðandi Illuga Gunnarsson. Ég hélt endilega að hann væri svo vel gefinn.

Páll Magnússon hjólar í Davíð Oddsson einn ganginn enn. Það hefur lítið að segja. Svolítið er það eins og að hlaupa á vegg. Eftir því sem Páll segir er samt greinilegt að Davíð er með einhvers konar RUV-fóbíu.  Báðir virðast líta svo á að pöplinum sé hægt að sveifla í kringum sig eins og töfrastaf. Svo er samt allsekki. Helsta ástæðan fyrir því að RUV-ið er dálítið vinstri sinnað (eins og það greinilega er) eru einmitt lætin í Davíð.

IMG 3436Nikita!!


mbl.is Múslímar á Íslandi fasta lengst allra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2004 - Trúir ÓRG fagurgalanum í Sigmundi?

Mér finnst óþarfi að taka þátt í einhverri vinsældakeppni á blogginu. Þó finnst mér allsekki að ég geti kvartað yfir því að vera ekki lesinn. Leit svolítið yfir vinsældalistann á Moggablogginu áðan og sé að margir, sem ég hef mikið álit á sem bloggurum, þurfa að sætta sig við mun minni vinsældir en ég. Auðvitað er ég stórhaus eins og það er kallað og lendi þar með reglulega á forsíðu bloggsins. Einnig gæti ég þess jafnan að auglýsa ný blogg á Facebook. Má annars ekki kalla hana fésbók, mér finnst langeðlilegast að nota gælunafn um svona vinsælt fyrirbrigði. Og svo er ég skráður á blogg-gáttina auk þess að blogga mjög oft.

Öruggast til vinsælda, ef mælt er eftir aðsóknartölum, er að blogga mjög oft og sem mest um þau mál sem hæst ber hverju sinni. Linka síðan í fréttir á mbl.is o.s.frv. Já, ég vonaði eiginlega að ÓRG mundi neita að undirrita lögin um lækkun veiðigjaldsins. Þjóðaratkvæðagreiðslur um mikil hitamál eru vissulega af hinu góða. Eftirá séð var sú skýring mest sannfærandi að ríkisstjórnin hafi vitað þetta allan tímann og þessvegna ekki viljað veita neinn afslátt frá ítrustu hugmyndum LÍÚ.

Mikið er rætt um lögregluofbeldi þessa dagana og er það af ærnu tilefni. Myndband hefur verið sýnt í fréttum og víðar af viðbrögðum lögreglunnar við drukkna konu á Laugavegi. Hafi konan hrækt framan í lögreglumanninn eru viðbrögð hans kannski skiljanleg, en alls ekki afsakanleg. Skelfilegt er að hugsa til allra hinna ómynduðu viðbragða lögreglunnar sé þetta sjálfsagt og eðlilegt. Orð vitna á viðbragðsstað eru yfirleitt lítils metin. Sjálfdæmi lögreglunnar virðist algjört.

Trúir Ólafur Ragnar fagurgalanum í Sigmundi Davíð? Já, sennilega gerir hann það eins og fleiri. Sumum (mörgum) finnst að þeir verði að gera það, m.a. vegna þess að þeir kusu hann (Sigmund) eða finnst þeir vera í forréttindastéttinni þó þeir séu það ekki í raun. Ástæðan fyrir því að hægri sinnum gengur oft betur að stjórna er einkum sú að stórfyrirtækin vita vel hverja þau eiga að styðja og gera það á réttan hátt. Hin ástæðan er sú að stórum hluta þjóðarinnar finnst þeir í rauninni vera ríkari en þeir eru og að vinstri sinnar séu oft ansi miklir draumóramenn.

Í einhverjum skilningi finnst ÓRG sennilega að hann sé loksins kominn heim. Hann byrjaði feril sinn sem framsóknarmaður og nú vill hann loka hringnum á svipaðan hátt. Sennilega trúir hann því í einlægni að „framsóknarhugsjónirnar“ muni standast atlögu „stórkapítalismans“, en svo mun ekki verða. Þjóðrembingur Sigmundar mun verða honum að falli og Doddson og Co. munu fagna sigri að lokum.

IMG 3426Jarðýta.


mbl.is Segir forsetann skorta hugrekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2003 - Allskonar öpp

Allskyns öpp eru sífellt að senda mér tilkynningar um hitt og þetta. Aðallega til þess að bjóða mér eitt eða annað. Ég er svo „fúll á móti“ að ég samþykki yfirleitt aldrei svoleiðis lagað. Öppin senda mér þetta yfirleitt í nafni einhvers bloggvinar míns og sennilega gæti ég losnað við þetta með því að samþykkja allan fjandann. Sennilega er það einmitt það sem Sykurbergur ætlast til. Þeir sem ekki haga sér eins og honum finnst við hæfi, eru útsettir fyrir allskyns truflanir. Á endanum hætti ég sennilega á fésbókinni þó hún sé á margan hátt ómissandi.

Oft er vandi að verjast grandi. En nólóið er frekar létt. Ég fann upp seinni hlutann af þessu spakmæli. Ef mig skyldi kalla. Forhandargrandið var verst af öllu. (Eða best.) Lærði nefnilega að spila vist þannig að alltaf átti að gefa „stórugjöf“ og stokka sem minnst. Ekki mátti spila á aðfangadagskvöld, en að öðru leyti voru jól og áramót spilahátíð hin mesta. Jólagjafirnar mátti treina sér fram eftir öllu. Aðallega voru það bækur. Bláu bækurnar. Árni í Hraunkoti, Victor Appleton, Gunnar og leynifélagið og Sigmundur og kappar Karls konugs eru þau nöfn sem fyrst koma upp í hugann. Mörg fleiri eru sjálfsagt þarna einhvers staðar ennþá. Og ekki má gleyma bókinni um Ívar hlújárn sem var með mynd á hverri síðu. Gusi grísakóngur, Alfinnur álfakóngur  og Dísa ljósálfur eru þær bækur sem ég man fyrst eftir. Það er sennilega síðan áður en ég fór í skóla.

Enn er morgunn. Og klukkan ekki nema rúmlega sex. Eiríkur (eirikurjonsson.is) fréttir svosem ýmislegt og það er þess virði að kíkja á bloggið hans á morgnana ef maður hefur ekkert annað að gera. Ósköp er samt sumt ómerkilegt hjá honum. Munur en hjá mér. Samt frétti ég ekki nokkurn skapaðan hlut. Fésbókin er nokkuð góð við okkur sem förum snemma á fætur (vöknum snemma). Kaffið er þó betra.

Hvað sem ÓRG velur í sambandi við undirskriftirnar, mun hugsunin um mögulegt endurkjör varla trufla hann. Samt er hann í nokkurri klemmu. Að sumu leyti má líta á þetta sem uppgjör milli Sigmundar og hans. Held að Ólafur kunni því illa að vera þvingaður til einhvers. Kannski vona ég bara að hann skrifi ekki undir því það er svo gaman og spennandi að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Annars er það rammpólitísk ákvörðum sem hann þarf að taka. Kannski finnur hann samt einhvern frestunarleik.

Það er fyrst og fremst ófullkomleiki fólks sem veldur því að ekki eru allir sósíalistar (eða jafnvel kommúnistar). Það er þýðingarlaust að gera ráð fyrir því að allir stjórnendur hugsi meira um hagsmuni heildarinnar en sína eigin. Það kerfi sem gerir ráð fyrir því að menn skari sem mest þeir mega eld að sinni eigin köku er vissulega betra. Auðvitað þarf að hafa eitthvert eftirlit með hinni mannlegu græðgi, en ekki þýðir að gera ráð fyrir að allir séu að farast úr sjálfsafneitun. Að hve miklu leyti opinberar reglur og lög eigi síðan að stjórna hegðun manna er undirstaða allra stjórnmálaafla. Þetta er bara mín skoðun og hefur heilmikil áhrif á það hvernig ég hugsa.

Allt sem ekki er bannað er leyfilegt. Allt sem ekki er leyft er bannað. Á þessu tveimur setningum er mikill munur. Segja má að á þeim mun grundvallist allar stjórnmálaskoðanir og svo auðvitað því hvort menn séu í eðli sínu vondir eða góðir. Mín skoðun er þeir sé mjög misjafnir en þeir góðu séu samt fleiri.

IMG 3425Örkin hans Nóa?


2002 - Ýmislegt

Sé ekki betur en ESB og USA séu komin í hár saman útaf upplýsingum frá þessum Snowden. Ef slíkir risar eru farnir að deila er best fyrir dverga eins og okkur Íslendinga að skríða útí horn og hafa hægt um okkur. Snowden gerði sín stykki vitandi vits svo vorkunn mín er takmörkuð. Ég endurtek enn einu sinni: Þetta mál er alls ekki sambærilegt við mál Fischers.

Nú er ég alveg hættur að hlaupa í tölvuna ef mér dettur eitthvað gáfulegt í hug. (Sem er reyndar mjög sjaldan.) Ætli ég sé ekki í rauninni kominn í bloggfrí án þess að vita það?

Ásthildur Cesil er komin í stríð við Ísafjarðarbæ. Það á að reyna að hrekja hana í burtu. Satt að segja finnst mér hún vera með bestu bloggurum hér og dugnaður hennar við myndatökur og að setja myndirnar á Moggabloggið er verulega mikill. Myndirnar eru líka mjög góðar. Held þó ekki að ég geti neitt hjálpað og meira en vafasamt er að undirskriftasöfnun geri það.

Meira að segja Geir Haarde segir að breytingin á lánum íbúðalánasjóðs hafi verið stórfelld mistök. Segir reyndar að ríkisstjórnin sem verið var að búa til hefði ekki verið mynduð nema þessi breyting hefði komið til. Var öllu til fórnandi vegna þessarar andskotans ríkisstjórnar? Var öryggisventillinn sofandi eða hvað? Voru einhverjar skammstafanir að skipta sér af þessu?

Sjálfsblekkingin sem fólgin er í því að fólk hér á Íslandi telur sig „eiga“ húsnæði sem það á kannski í raun aðeins 10 – 30 % í og allir keppast við að ljúga uppávið um raunverulegar tekjur sínar, veldur því meðal annars, að stærri hluti en reyndin er, telur sig til ríka fólksins og beitir atkvæði sínu í samræmi við það. Bjartsýni er auðvitað í eðli sínu af því góða en ef sjálfsblekking talsverðs hluta þjóðarinnar verður einn af megin orsakavöldum Hrunsins mikla þá er of langt gengið. Auðvitað væri æskilegra að leigumarkaður hér varðandi húsnæði væri ekki eins vitlaus og hann er. Líka væri til bóta meira raunsæi fólks varðandi eyðslu í steinsteypu og dýra hluti, en samt sem áður erum við svo vön því að vera Íslendingar að þetta er bara skemmtilegt.

Hrunhugleiðingar mínar eru kannski of almennar til að vera teknar alvarlega. Samt meina ég þetta alveg og er hissa á því hvað flestallir sem skrifa um Hrunið og mál sem því tengjast virðast vera góðir hagfræðingar og hafa milljarðahundruðin og vextina algjörlega á valdi sínu. Eiginlega rugla svona skrif mig oftast meira í ríminu en að þau upplýsi mig. Tilfinningin sem ég fæ er sú að ég hljóti að vera svona afskaplega vitlaus fyrst ég skil þetta ekki almennilega. Ég þrjóskast samt við að skrifa á minn hátt. Jafnvel þó ég skilji æðri fjármál ekki nærri nógu vel.

Vafalaust sit ég límdur við skjáinn á morgun þegar Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnir um ákvörðun sína varðandi undirskriftasöfnunina. Hann kann nefnilega að láta bíða eftir sér og er þessvegna orðinn númer eitt. Simmi og Bjarni eru bara í þjónustu hans og mega alveg ráða svolitlu en samt ekki of miklu. Til dæmis er frost það sem allar stjórnarskrárbreytingar eru í og þjóðaratkvæðagreiðslur algjörlega hans verk og alþingi er stofnun sem hann stjórnar að mestu leyti.

Eru þá öll þau mistök sem fyrrverandi stjórn gerði í rauninni honum að kenna? Ég kannast bara ekki við nein mistök. Allt stuðlaði það að auknum völdum ÓRG og þannig að betra mannlífi. Hrunið sjálft var í rauninni til góðs, því það opnaði augu manna fyrir mannkostum ÓRG.

Ylströnd.IMG 3418


mbl.is Snowden hafnað um hæli á Ítalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2001 - Ólinkað með öllu

Þá er alþingi komið í frí og nú reynir á ÓRG. Ég var víst búinn að segja að hann muni ekki skrifa undir. Annaðhvort skrifar hann undir eða ekki. Er það ekki nokkuð ljóst?

Já, ég held áfram að mixa í mig hafragrautinn á morgnana. A.m.k. stundum. Uppskriftin er svona þessa dagana: 1. Setja 4 - 5 skeiðar af haframjöli í skál ásamt hæfilega miklu af salti og vatni. Hræra saman, skutla í örbylgjuofninn og stilla á 5 mínútur eða svo og kveikja á honum. 2. Bæta svolitlu af hunangi, kanel og þremur döðlum (steinalausum) útí og mjólk ef með þarf. 3. Hræra duglega saman og éta. Bregst ekki. Nú er ég jafnvel farinn að fara í ræktina eins og alvöru gervimenn. Stefni semsagt á 90+.

Ætli sumarið sé bara ekki búið og þetta sé fyrsta haustlægðin? Held að það hafi kannski verið um tvöleytið næstsíðasta laugardaginn í júní. Verst að fá ekki að vita af því fyrr en eftirá.

Hvernig á maður að fara í sumarfrí þegar maður er hættur að vinna? Það er próblem sem ég hafði ekki íhugað fyrren um daginn. Kannski bloggfrí sé lausnin. Prófa það. Svo er víst ágætt að taka bara sumarhús á leigu. Nú, ég er búinn að því. Verst að það er ekki fyrr en seint í haust. Undir lok ágúst.

Margir eru nokkuð heitir útí fjármálafyrirtæki og stjórnmálamenn þessa dagana. Ekki þýðir þó að láta hugfallast. Betra er að vona hið besta. Það er vel hugsanlegt að framsókn og sjallar hafi batnað verulega og ástandið fari að skána á landinu. Þessi sífellda sagnfræði um að hinir og þessir hafi grætt svo og svo mikið á einhverju andskotans svindli og pólitíkusar séu svo og svo vitlausir er alla að drepa. Eiginlega er alls ekki hægt að einbeita sér að öllu því sem miður hefur farið. Miklu betra er að vona það besta og gera sér ekki of mikla rellu útaf hundrað milljörðum hér og hundrað milljörðum þar. Annaðhvort fer allt til helvítis eða ekki.

Þetta blogg er orðið nógu langt. Er að hugsa um að láta þetta duga. Þeir sem eru svo illa farir að vilja endilega meira geta bara lesið eitthvað af þessum tvö þúsund bloggum sem ég hef skilað af mér á síðustu sex eða sjö árum.

IMG 3398Margar skútur bíða eftir einni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband