Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

1828 - Jón Gunnar (Gnarr)

Að Jón Gnarr verði næsti forsætisráðherra landsins? Fráleitari fullyrðingar hafa heyrst. Ekki bjuggust menn við að hann yrði borgarstjóri, en þó tókst honum það.

Speglasjónir (spekúlasjónir) um framboð í næstu þingkosningum eru nú í hámarki. Björt framtíð er þar efst á blaði útaf Jóni Gnarr.

Aumingja Lilja Mós. Vill enginn vera með henni, eða hvað? Það er fullt starf eins og er að fylgjast með öllum þeim flokkum og flokksbrotum sem undirbúa framboð sín. Auglýsingastarfsemin er mikil og tilkynningin um framboð Jóns Gnarr liður í henni. Hann hefur látið glepjast af fagurgala einhvers Össurar og kannski á það eftir að verða honum dýrkeypt.

Annars breytast pólitískar áherslur svo ört að ég hef engan vegin við. Þetta er mikill gósentími fyrir stjórnmálafræðinga. Einu sinni voru þeir ekkert rosalega margir.

Segið svo að ekki verði spennandi að sjá næstu skoðanakönnun. Birgitta fellur bara alveg í skuggann með sitt Píratapartí. Tala ekki um aðra.

Æ, póltitíkin. Um þessar mundir snýst allt um nöfn. Hver fer í framboð hvar, og hver eru líklegustu úrslitin? Nenni þessu bara ekki.

Fórum í gærkvöldi að reyna að sjá strik á himni en það gekk ekki vel því bæði var fremur kalt í veðri og svo var erfitt að finna almennilegt myrkur. Norðurljósin létu heldur ekki sjá sig. Júpíter virtist mér samt vera mjög áberandi og Oríon var að koma uppyfir sjóndeildarhringinn með sínar fjósakonur.

Einhversstaðar sá ég fyrirsögnina „Í koksleik við elskhugann“. Í þessu tilfelli las ég koksleik sem koks-leik og skildi hvorki upp né niður hvers vegna koks kom þarna við sögu. Ekki benti myndin sem fylgdi til þess. Og hverskonar leikur var þetta? Svo sá ég að auðvitað gat þetta líka verið kok-sleikur og sennilega er það réttara. En greinina nennti ég ekki að lesa.

Undarlegur er vinsældalistinn hjá Moggablogginu núna. Gerða Kristjáns er þar langefst með nærri 30 þúsund vikuinnlit. Veit ekki hvernig á þessu stendur.

IMG 2219Hér var tré.


1827 - Björg Thorarensen

Hugsanlega var allt húllumhæið í kringum Bjarna Randver og Vantrú tilkomið í grunninn vegna mismunandi skilnings á höfundarrétti. Datt þetta í hug meðan ég var að lesa kvörtun Evu Hauksdóttur um að hún mætti ekki fá í hendur kennsluefni þar sem minnst var á hana sjálfa. Fylgdist þó ekki vel með stóra glærumálinu og leiddist það. Fannst deilurnar snúast um aukaatriði og tittlingaskít. Margir blönduðust þó í það og tóku stórt uppí sig.

Ef sú tilgáta mín er rétt að í grunninn hafi þetta snúist um mismunandi skilning á höfundarréttarmálum finnst mér kominn fullmikill Abaníusvipur á þetta alltsaman. Auðvitað eru höfundarréttarmál og lög um þau margflókin og þar sem þau mál snerta oft peningalega afkomu eru tilfinningar ríkar. Svo blönduðust trúmál í þetta alltsaman og ekki bætti það úr skák. Breytingar sem gerðar hafa verið undanfarna áratugi á lögum um höfundarrétt hafa fremur tekið mið af hag fyrirtækja en neytenda.

Hrekkir eru ekki alltaf góðkynja, þó þeim sem hlæja finnist það. Á margan hátt líkist atvikið með hjúkrunarkonuna sem talið er að hafi fyrirfarið sér því einelti, sem allir fordæma. Enska pressan veltir sér mikið uppúr þessu enda er sennilega einhver gúrkutíð hjá þeim. Áströlsku þáttastjórnendurnir sjá eftir þessu og hrekkja áreiðanlega ekki aftur. Aðrir taka bara við.

Hverjir eru það sem kenna fyrirtækjastjórnendum að koma peningum sínum fyrir í skattaskjólum. Egill segir að það séu endurskoðendurnir. Eiginlega trúi ég honum alveg. Eru lögfræðingarnir þá stikkfrí? Ekki alveg. Þeir taka að sér að reyna að plata dómstólana til að sýkna þá sem stolið hafa mestu. En hverjir hafa stolið mestu? Bankastjórarnir eða útrásarvíkingarnir? Þessar sífelldu Hrunfréttir eru að gera mann vitlausan. Eiginlega finnst mér að gera eigi hlutina sem mest upp í næstu þingkosningum.

Björgu Thorarensen hef ég hingað til álitið sérfræðing í öllu því sem viðkemur stjórnarskrám. Held að hún vinni við lögfræðikennslu í Háskóla Íslands. Einhversstaðar var minnast á það í dag að hún tæki sem dæmi um að frumvarpið um nýja stjórnarskrá væri illa unnið og lítt ígrundað að þar væri lagt til að í stjórnarskránni væri bann við að leiða í lög herskyldu í landinu. Sé þetta rétt er ég búinn að missa svotil allt traust á henni. Vel getur þó verið að þetta sé alls ekki rétt og þá er ég að sjálfsögðu tilbúinn til að endurskoða álit mitt á henni.  

Bölvun okkar Íslendinga eru atvinnutækifærin. Þau mistakast flest. Alltaf eru gerðar einhverjar stórkostlegar vitleysur við undirbúninginn. Best væri auðvitað að aldrei þyrfti að skapa nein atvinnutækifæri. Þau kæmu bara sjálfkrafa.  

IMG 2217Drykkjarstöð.


1826 - Heimssýn og VG

Sennilega er fjöskyldufréttum ekki vel dreift af mér, þó ég sé fremur duglegur að blogga. Aðrir standa mér framar í því og sennilega er réttast að skoða fésbókina vandlega til að finna slíkt. Sé eftir því sóst.

Netlíf fólks er oft stórmerkilegt. Kannski fer þeim fjölgandi sem forðast slíkt. Fræga fólkið má sannarlega vara sig á skelfinum mikla Eiríki Jónssyni. http://eirikurjonsson.is/ DV.is, Morgunblaðið og fleiri standa sig einnig oft ágætlega við að segja fréttir af því. Kannski dreifa fleiri slíkum fréttum með mikilli ánægju, ég fylgist bara ekki með því og það er gott að vera laus við að vera á milli tannanna á Eiríki.

Fullveldissinnar er orð sem Heimssýnar-menn nota mjög mikið og ljá því þá merkingu sem best hentar hverju sinni. Merkingin virðist aðallega vera sú að allir „fullveldissinnar“ séu í samtökunum Heimssýn og að þeir sem styðja hugsanlega inngöngu Íslands í ESB, og vilja ekki slíta viðræðunum við sambandið undir eins, séu alls ekki „fullveldissinnar“. Slík tilraun til að hafa áhrif á tungumálið er dæmd til að mistakast. 

Nú virðast VG-ingar og Heimssýnarmenn vera komnir í hár saman. (Þeir sem hafa hár.) Þegar Bjarni frændi lýsti því yfir að hann mundi kjósa vinstri græna því hægt væri að treysta þeim til að vera á móti ESB grunaði mig alltaf að sú andstaða væri plat.

Enda fór það svo að þeir voru fljótir að láta andstöðuna við sambandið í skiptum fyrir ráðherrastóla og mér er enn í minni hve búralegur Steingrímur Jóhann var þegar hann fékk lyklana að fjármálaráðuneytinu.

Eins ósanngjarnt og það er má segja að mestar líkur séu á því að Vinstri grænir tapi mest í kosningunum í vor. Hverjir græða þá mest? Það hljóta að verða nýju flokkarnir. Ég trúi því ekki að hrunflokkarnir verði þeir einu sem bæta við sig.

Áætlað er, svo virðist vera, gert er ráð fyrir, búist er við, framkvæmdastjóri Lýsisáburðarfélagsins segir o.s.frv. Já, listinn er endalaus yfir það hvernig kjaftasögu-frásagnirnar byrja gjarnan. Eiríkur Jónsson er ekkert einn um að dreifa þeim. Blöð og bloggarar geta aldrei orðið svo virðuleg að þau hætti að dreifa kjaftasögum. Sérstaklega ekki Mogginn. Afar fáir ef nokkrir íslenskir blaðamenn virðast hafa þá gömlu reglu í heiðri að frétt sé ekki frétt fyrr en hún er komin til þeirra nokkurn vegin samhljóða úr tveimur áttum.

Bloggurum er svolítil vorkunn því þeir eru flestir bara með þetta í hjáverkum. Gallinn er sá að margir trúa blaðsneplunum og vefmiðlunum í blindni og dreifa alskyns vitleysu. Sérstaklega ef hún er útlend að uppruna.

IMG 2216Tré í vetrarbúningi.

 


1825 - Óhefðbundnar lækningar o.fl.

Ég geri ráð fyrir að margir hugsi sem svo í næstu kosningum að tími sé kominn til að refsa þeim sem stjórnað hafa landinu undanfarna áratugi. Vandinn er bara sá að leiðbeiningar um hvernig á að fara að því vantar alveg. Þar koma stjórnmálaflokkarnir gömlu sterkir inn. Þykjast allir vera mun betri en hinir vitleysingarnir. Þeir eru bara ekki trúverðugir. Nýju flokkarnir koma til með að sópa til sín fylgi. Eða hvað? Getur verið að fólk verði yfirleitt hrætt um að atkvæði sín falli dauð til jarðar? Flokkurinn þeirra fái svo fá atkvæði að þau nýtist ekki? Kjósi fjórflokkinn mest af gömlum vana. Það getur varla verið. Áhættan er svo lítil. Hafa ekki atkvæðin farið til ónýtis að undanförnu? Er fjórflokkurinn gamli eitthvað betur að þeim kominn en aðrir?

Skoðanakannanir eru einskonar kosning. Fáir plata í þeim. Og þó þeir geri það skiptir það varla máli, því reiknað er með slíku. Ef þeim sem könnuninni stýra er treyst má gera ráð fyrir að könnunin sé nokkuð góð. Auðvitað er hún samt ekki endanleg og þjóðaratkvæðagreiðslur miklu betri. Of mikið má samt af öllu gera og vel er hægt að gera sér í hugarlund að of auðvelt verði að krefjast slíkra atkvæðagreiðslna. Gallinn er bara sá að ef þröskuldurinn er of lágur má frekar búast við leiðréttingu, en ef hann er of hár. Það hefur hann samt verið undanfarna áratugi.

Um daginn kom í ljós að orðið „roskinn“ er ekki skilið sama skilningi af öllum. Einhverjir virðast skilja það þannig að það sé um líkamsvöxt fólks og þýði nánast það sama og feitur. Þessi skilningur kom mér á óvart og ég veit ekki af hverju hann getur stafað né hvort hann sé hugsanlega útbreiddur. Hinsvegar hef ég bloggað um það fyrr, að mig minnir, að orðið „íturvaxinn“ kunni að hafa fegið aukamerkinguna feitur og ef svo er þá veit ég nokkuð nákvæðmlega hvernig sú breyting hefur komið til. Íturvaxinn þýðir nefnilega alls ekki feitur. Ég þykist líka vita hvernig stendur á breytingunni úr „komuð“ í „komuðuð“ (kannski skylt þarna og þarnana) sem birtist í frægum og umtöluðum pistli eftir Cassöndru Björk á Facebook.

Las grein Hörpu Hreinsdóttur um þingsályktunartillögu Ólínu Þorvarðardóttur o.fl. Sú grein er fremur löng en gerir lítið finnst mér fyrir þá sem ekki eru sannfærðir fyrir, á annan hvorn veginn. Sjálfur hef ég orðið fyrir örlitlum vonbrigðum með Ólínu vegna tillögunnar en viðurkenni að fleiri hópar koma til greina varðandi niðurgreiðslur og eftirgjöf virðisaukaskatts en gera það nú. Harpa viðurkennir sjálf að aðrir hópar en græðararnir ættu að koma framar í röðina. Atvinnumál af þessu tagi eru ávallt vandmeðfarin. Harpa nefnir nöfn ótæpilega og ég verð að viðurkenna að umræða sem einkennist af trúaráhuga, Bjarna Randveri, Vantrú o.s.frv. freistar mín ekki.

IMG 1000Mynd tekin.


1824 - Kirkjuferðir leikskólabarna

Sagt er að bandormurinn hækki skuldir heimilanna. Eflaust gerir hann það. Því miður eru skuldir heimilanna ekki það eina sem hefur hækkað eftir Hrunið. Þetta með skuldir heimilanna leiðir auðvitað hugann að blessaðri eða bölvaðri verðtryggingunni. Mér dettur oftast í hug Albanía þegar minnst er á hana. Þetta þarfnast kannski útskýringa. Áður fyrr tíðkaðist að hallmæla Albaníu þegar menn meintu Kína. Svipað er að segja um verðtrygginguna. Oftast eiga menn við framfærsluvísitöluna þegar verið er ráðast á verðtryggingar-ræfilinn eða þá á framkvæmd verðtryggingarinnar af hálfu íbúðalánasjóðs.

Sú skoðun á upp á pallborðið hjá mörgum að ríkið eigi að skipta sér af sem allra fæstu og helst engu. Aðrir að ríkið eigi að eiga allt og stjórna öllu. Hinn gullni meðalvegur er einhversstaðar þarna á milli. Stjórnmál snúast að miklu leyti um það hvoru skuli stefnt að. Vandamál dagsins skyggja oftast á þessar hugsjónir og auðvitað er erfitt að flokka einstök mál eftir þessu. Pólitískar skoðanir fólks hljóta þó yfirleitt að taka mið af þessu og í huganum getur hver og einn ákveðið fyrir sig hvort einstök mál færi þjóðfélagið í átt til þessa eða hins. Eigin hagsmunir trufla oft þessa mynd en flestir reyna samt áreiðanlega að forðast það.

Man ekki eftir að hafa fyrr séð þá félagana Vilhjálm Örn Vilhjálmsson og Vilhjálm Þór Vilhjálmsson hlið við hlið á vinsældalista Moggabloggsins en þangað fór ég í gær til fylgjast með eigin vinsældum (þær eru nokkrar). Annars virðist Vilhjálmur Vilhjálmsson vera nokkuð vinsælt nafn, hvernig sem á því stendur.

Jæja, nú er ég búinn að hlaða upp nokkrum myndum svo ég get haldið áfram að blogga. Ég er nefnilega svo vanafastur að mér finnst ég þurfa að hafa mynd í lokin. Alltaf. Ekki bara stundum.

Kirkjuferðir leikskólabarna og hugsanleg trúarinnræting þeirra er eitt af því sem rifist er um núna. Sumir (jafnvel margir) virðast þrífast á því að rífast við aðra. Ekki þarf þó að efast um að hugur fylgi máli hjá þeim sem ræða þessi mál. Örugglega vilja allir börnum sínum það besta. Að efast um það er fráleitt. Grein í DV þar sem hótað var að leggja málið fyrir lögfræðing virðist hafa hleypt illu blóði í marga. Afstöðu í þessu máli vil ég forðast að taka, einfaldlega vegna þess að ég þarf þess ekki.

IMG 2178Borgarspítali.


1823 - Cassandra Björk

Myndbandið sem Cassandra Björk setti á fésbókina er allt í einu orðið eitt það frægasta sem þangað hefur verið sett að undanförnu http://www.facebook.com/kikay15?fref=ts . Fyrst sá ég minnst á þetta á Smugunni. Hélt að blaðamaðurinn þar væri að gera grín að orðalaginu hjá þeirri sem setti þetta inn og skrifaði textann. Svo var reyndar alls ekki, heldur var hann að hneykslast á rasismanum hjá aðalleikaranum á myndbandinu.  Cassandra skrifaði m.a.

...kallaði okkur kínverja, segja að við komuðum með svínaflensuna og byrjaði að hóta að slást við okkur og kallaði okkur rasista þannig að Hajar reif kjaft við hann tilbaka haha.

Held reyndar að íslenskukennarar eigi eftir að klóra sér svolítið í hausnum yfir sögninni sem fylgir svínaflensunni, en í raun og veru er þetta ágætlega skrifað og hefur þann stóra kost að vera vel skiljanlegt. Hef ekki enn hlustað á hvað maðurinn sagði við krakkana og hef ekki áhuga á því. Sennilegt er að hann hafi farið yfir strikið og verði látinn gjalda þess. Svona framkoma er fyrir neðan allar hellur.

Fésbókarfyrirgangurinn útaf þessu máli hefur verið með ólíkindum. Auðvitað er upplifun myndavélarinnar mikilvægt sönnunargagn, en þar er ekki um að ræða endanlega úrskurð um allt sem málinu kann að tengjast.

Málþófinu á alþingi er nú blessunarlega lokið og í ljós hefur komið að tilgangurinn með því var að tefja tímann. Kvótafrumvarpið er það sem sjálfstæðismönnum líður illa yfir. Hræddur er ég um að það sem á endanum verður samþykkt þar, breyti ekki miklu.

Varðandi stjórnarskrármálið þá held ég að hugsun Samfylkingarinnar og Jóhönnu Sigurðardóttur sé sú að alþingi samþykki nýtt stjórnarskrárfrumvarp eða a.m.k. talsverðar breytingar á þeirri gömlu fyrir kosningar í vor og meðfram alþingiskosningunum verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það mál. Síðan þarf nýtt alþingi að samþykkja breytinguna aftur og þá öðlast hún gildi. Sé ekki fyrir mér að alþingi afsali sér réttinum til að ráða hvernig stjórnarskráin er. Salvör Nordal hefur rétt fyrir sér þegar hún varar við of miklum flýti við þetta starf.

Krafa fólksins í landinu er um að auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslna og minnka vald alþingis og forseta. Þannig hef ég að minnsta kosti skilið grasrótina.

IMG 2177Laufblað.

 


1822 - ESB

Get ekki að því gert að mér finnst málflutningur þeirra sem eru sem mest á móti inngöngu okkar í ESB einkennast talsvert af því að þau setji ekki lífskjörin sjálf í fyrsta sæti þegar um framtíðina er rætt. Einhver óljós hugtök um sjálfsákvörðunarrétt, þjóðhollustu og þess háttar eru meira metin.

Um þetta er þó ekki mikið að fást ef það er meirihluti þjóðarinnar sem er fylgjandi þessu. Sá meirihluti verður að ráða. Mér finnst málflutningur æði margra einkennast af því að það sjálft eigi að ráða en ekki fjöldinn. Auðvitað er hægt að hafa áhrif á fjöldann og hefur alltaf verið hægt. Það þýðir samt alls ekki að meirihluti fólks sé fífl.

Ef fylgjendum aðildar tekst ekki að telja nægilega mörgum trú um að slík aðild sé æskileg verður að horfast í augu við að málstaðurinn sé e.t.v. ekki nógu góður. Mér finnst bera meira á þeim málflutningi hjá andstæðingum aðildar að neita með öllu að horfast í augu við að afstaða þeirra kunni að vera röng að því leyti að meirihlutinn vilji í raun annað.

Tímasetning kann að skipta miklu máli þarna. Mér finnst vera Bandaríkjahers hér á landi vera ágæt til samanburðar. Margir voru mjög á móti veru hans og segja má að það hafi verið dæmigert „já eða nei“ mál á svipaðan hátt og aðildin að ESB er núna. Aldrei fékkst samt úr því skorið hvort meirihluti þjóðarinnar vildi að hann færi eða ekki.

Í þá daga tíðkuðust ekki þjóðaratkvæðagreiðslur og varla er hægt að segja að þær geri það enn. Þjóðin er þó mun upplýstari nú en þá var og vel getur verið að þjóðaratkvæðagreiðslur í mun ríkari mæli en verið hefur henti okkur vel. Fulltrúalýðræðið með alþingi, ríkisstjórn og forseta, sem starfi á svipaðan hátt og verið hefur síðustu sjö eða átta áratugina virðist ekki henta okkur nógu vel.   

Skrifpúkinn virðist hafa náð völdum yfir mér. Ég get ekki óskrifandi verið. Ef ég á að koma í veg fyrir að bloggin mín verði óhóflega löng, verð ég að fara að setja upp blogg oft á dag, eins og Jónas Kristjánsson gerir.

IMG 2172Ljós og skuggar.


1821 - Molar um málþóf og fleira

Þetta held ég að hafi bara aldrei gerst áður. Það fyrsta sem ég skrifa í þessu bloggi er fyrirsögnin. Nú er semsagt komið að því. Í ein átjánhundruðogtuttugu blogg hef ég alltaf verið að bögglast við að semja hæfilegar fyrirsagnir á bloggið mitt. Nú stekkur hún bara albúin fram eins og Aþena úr höfði Seifs. Og ég verð að hundskast til að semja blogg sem hæfir svona fínni fyrirsögn. Að sumu leyti kann að virðast sem ég sé að gera grín að Eiði Guðnasyni með þessu, en svo er ekki því ég var einmitt að horfa á skrípamynd af Bjarna Benediktssyni þegar mér datt þetta í hug.

Í morgun varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Ég hélt nefnilega að Illugi Gunnarsson (þó hann hefði eitt sinn verið í slagtogi með óvininum sjálfum sem er svo máttugur að þeir sem nefna nafn has missa hálfan kraft sinn eða verða alveg eins Jóhanna Sigurðardóttir. DO er hann víst nefndur – ó mig auman - ég vissi ekki að líka væri bannað að skammstafa nafnið hans.) væri supergáfaður. Hann var nefnilega eitt sinn að koma úr einhverju viðtali eða eitthvað á stöð 2 þegar ég var næturvörður þar. Og hann fór að tala við mig um allt mögulegt og það kom í ljós að hann er ansi vel heima í mörgum  málum. Fyrst töluðum við um fótbolta, aðallega enskan því sá íslenski er svo leiðinlegur. Farðu frá þarna, Mörður. Og svo bara um allt mögulegt. Illugi er semsagt orðinn málþófssinnaður mjög og nú sé ég að þessi málsgrein er orðin alltof löng.

Já, fjölyrðum aðeins um þessi vonbrigði. Hann var einna fyrstur á skrá í hálftíma hálfvitanna og ég bjóst við að honum tækist að láta gáfurnar skína í gegn. En, nei. Hann talaði næstum því eins og allir hinir og er greinilega með einhverja SJS komplexa því hann vildi meina að einhverjir aðrir, hann sjálfur jafnvel, jöfnuðust eitthvað á við Steingrím hinn ógurlega og Vigdís litla Hauks faldi sig undir borði.

Og í lokin á blogginu þarf ég svo að hnýta einhverri speki sem kannski er engin speki, bara sannleikur.

Það er flest dæmigert sem ég geri. Og djöfull leiðist mér það. Væri miklu betra að vera svolítið spesíal. Ólíkur öllum öðrum o.s.frv.. Tveir punktar hér. Allt eftir bókinni. Já jafnvel ólíkur Ólafi sérstaka.

Þetta fer nú bara beint í kvartholið sagði Styrmir og skutlaði greinargerðinni aftur fyrir sig.

IMG 2171Í háloftunum.


1820 - Stjórnarskráin - óvissuferð

Málþóf eða ekki málþóf það er spurningin. Almennt séð og heimspekilega er það mikil spurning hvort meiri ávinningur sé í því að tala of mikið eða of lítið. Með aldrinum hef ég eiginlega orðið meira fyrir að tala (og skrifa) sem minnst. Sumir mundu þó segja að ég geri alltof mikið af því. Kannski tala ég ívið minna en áður en skrifa aftur á móti alltof mikið, held ég. Það er bara svo erfitt að ráða við sig.

Styrmir Gunnarsson hefur dottið í það á gamals aldri að skrifa (og tala) alltof mikið. Að sumu leyti er hann Morgunblaðinu óþægur ljár í þúfu. Beinir athyglinni að því hvernig það var einu sinni og þó núverandi ritstjóri sé líkur Styrmi, þá er blaðið alltöðruvísi núorðið. Pólitíkin hefur líka breyst og Styrmir er strandaður á einhverri eyðieyju. Kannski er Björn Bjarnason einhversstaðar þarna nálæg, en varla fleiri.

Ólafur Stephensen kallar stjórnarskrármálið allt „Illa undirbúna óvissuferð“ í grein á Vísi.is http://www.visir.is/illa-undirbuin-ovissuferd-/article/2012121209852 Óvissuferðir eiga það reyndar til að vera bráðskemmtilegar. Ekki eru menn þó að hugsa um nýja stjórnarskrá sem skemmtiferð. Ólafur vitnar í þrjá fræðimenn sem hann segir að séu ekki „hluti hinna myrku afturhaldsafla eða sérlega andsnúnir núverandi stjórnvöldum“. Þessir menn eru: Gunnar Helgi Kristinsson, Brydís Hlöðversdóttir og Ágúst Þór Árnason. Stjórnlagaráðsmenn voru þó fleiri en þetta og valinkunnir sómamenn þar á meðal, jafnvel fræðimenn.

Helstu gagnrýnisatriði þessa fólks finnst mér vera að tekin sé of mikil áhætta með því að búa til alveg nýja stjórnarskrá og að ekki megi afgreiða mál í miklum ágreiningi. Aðallega eru þau þó óhress með að hafa ekki verið kölluð til frekar en óbreyttur pöpullinn og misheppnaðir stjórnlagaráðsmenn.

Þetta finnst mér a.m.k. og ég held að alveg væri hægt að finna jafnmarga eða fleiri fræðimenn sem væru þeim ósammála um margt sem að þessu snýr. Útilokað er að allir verði sammála um einstök atriði nýrrar stjórnarskrár. Margt bendir þó til að meirihluti þjóðarinnar vilji að ný stjórnarskrá verði gerð.

Ég hef áður sagt að mesta breytingin sem gerð er með nýrri stjórnarskrá er sú breyting að taka stjórnarskrárvaldið af alþingi og færa það í þjóðaratkvæðagreiðslur, sem enginn veit hvernig þróast.

Að því leyti er ný stjórnarskrá eins og óvissuferð. En eru Íslendingar ekki vanir óvissuferðum af þessu tagi? Hefur ekki þróun gengismála verið eins og óvissuferð? Er ekki Hrunið sjálf í vissum skilningi óvissuferð? Er ekki óvissan e.t.v. betri en kyrrstaðan?

Kannski var það samaverðumalltland-sóttin sem drap SÍS á sínum tíma og er hugsanlega að drepa Bónus núna. Datt þetta bara svona í hug.

IMG 2140Takk fyrir komuna.


1819 - Ármann Reynisson og vinjetturnar hans

Ármann var nokkuð áberandi maður í þjóðlífinu á níunda áratug síðustu aldar þegar hann setti á fót fyrirtækið Ávöxtun í Reykjavík. Þá hafði um nokkurt skeið vantað okurfyrirtæki af því tagi hér á landi og bankarnir voru fremur lítt þróaðir samanborið við önnur lönd. Það var ekki fyrr en á þessari öld að þeir fóru almennilega að rétta úr kútnum með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Einu starfandi bankarnir sem munaði eitthvað um voru ríkisbankarnir. Bankastjórar þeirra voru pólitískir varðhundar sinna flokka og gættu þess að aðeins þeirra menn fengju fyrirgreiðslu. Þeir voru valdir af alþingi og skipti miklu máli að réttir menn veldust í það starf. Það var nefnilega mikið lán að fá lán í þeirri óðaverðbólgu sem ríkjandi var. Ég veit ekki hvers vegna það er sem mér koma alltaf í hug mýsnar á Vegamótum, sem stukku næstum meter í loft upp ef komið var að þeim óvörum, þegar minnst er á bankastjóra þessa tíma. Fæstir þeirra hefðu getað stokkið heilan metra í loft upp.

Aðallega höfðu efnaðir menn látið þá fá víxla með afföllum sem nausynlega þurftu á peningum að halda og þekktu enga bankastjóra nógu vel eða voru skyldir þeim. Þetta var á margan hátt fremur argsöm og fyrirhafnarmikil leið og Ármann vildi koma þessari starfsemi í fínt fyrirtæki og kalla vextina arð eða eittvað annað eftir hentugleikum. Framan af gekk þetta ágætlega en þegar lögreglan fór að skipta sér af varð fyrirtækið að hætta rekstri. Viðskiptavinirnir voru ekki í neinum vafa um að Ármann stundaði það sem á árum áður var kallað okur.

Þegar búið var að setja Ávöxtun á hausinn og Reynir að afplána einhvern dóm á Kvíabryggju hóf hann að skrifa Vinjetturnar sínar. Sú fyrsta kom út árið 2000 og alls eru þær orðnar tólf. (Ein á ári.) Fyrst í stað skrifaði hann um hitt og þetta, en tólfta og síðasta heftið (sem nú er nýkommið út) er ein samfelld réttlætingarsaga um fyrirtækið Ávöxtun og þátt hans í því. Aðallega talar hann um sjálfan sig í þriðju persónu og kallar sig oftast nær forstjórann unga.

Af einhverjum ástæðum hefur verið reynt að þegja hann í hel varðandi þessar bækur. Vissulega eru þetta líka heldur ómerkilegar bókmenntir, en bókasöfnin hafa þó neyðst til að hafa þetta á boðstólum og verslanir að selja þær. Ekki hefur hann farið útí að gefa út bækur fyrir aðra og ég held að aðrir hafi heldur ekki sóst eftir að gefa Vinjetturnar út. Það sem helst skilur Vinjetturnar frá venjulegu og heldur sjálfmiðuðu bloggi er að allt er þar þýtt á ensku og þau skrif höfð  álíka fyrirferðarmikil og íslenskan. Með því móti og því að nýta blaðsíðurnar almennt illa og hafa pappírinn sem vandaðastan og vel þykkan er Ársæll fljótari að ná bókarstærð á kverið. Nýjasta hefið er þannig næstum 100 blaðsíður að stærð með þessu lagi.

IMG 2130Svona má hafa flöskurnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband