Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

454. - Um bloggrýninn, Dóra Höskulds, Hauk prestsins og ýmsa fleiri

Það var stutt gaman en skemmtilegt að fá bloggrýninn. Hann gerði grín að mönnum og mikil var undrun mín þegar ég las fyrstu greinina hans um blogg annarra. Hann nefndi hana sæmundarhátt í bloggi og hún var augljóslega skopstæling af mínu bloggi. 

Ég held að ég sé orðinn miklu aggressívari sem bloggari en áður var. Ég gæti trúað að bloggrýnirinn hafi breytt mér. Það er alveg ástæðulaust að biðjast afsökunar á því að vera til. Reyndar er ég árásargjarnari en ég sýnist vera. Það er ég viss um að konan mín mundi samþykkja.

Það var verulega gaman að lesa þessa spéspegils samantekt. Hún sýndi mér hvernig ég lít hugsanlega út sem bloggari í augum annarra. Ég tók ekkert afrit af þessari merku grein en hefði kannski átt að gera það. Myndin sem fylgdi var svosem ágæt líka.

Ég tók eftir því að í öllum þeim greinum sem bloggrýnirinn skrifaði eftir þetta forðaðist hann að nefna nöfn þannig að ef einhver tók orð hans til sín þá var alltaf hægt að segja að átt væri við einhvern annan. En nú er hann semsagt hættur og horfinn af sjónarsviðinu.

Þeir Dóri Höskulds og Haukur prestsins voru náttúrlega aðaltöffararnir í Hveragerði á sínum tíma. Ég var talsvert yngri en þeir en ég man vel eftir að einhverju sinni á gamlárskvöldi mændum við krakkarnir mikið vestur í þorp. Það hafði nefnilega frést að Dóri og Haukur hefðu keypt rakettur og ætluðu að fagna nýju ári með því að skjóta þeim upp. Slíkt hafði aldrei verið gert fyrr í Hveragerði og taldist til meiriháttar tíðinda. Ég man ekki betur en við krakkarnir höfum fyrir rest fengið laun erfiðisins og séð þessi náttúruundur.

Púki segir í bloggi sínu að ef við uppfyllum skilyrði fyrir upptöku evru þurfum við ekkert á henni að halda. Þetta er auðvitað alveg laukrétt. Gallinn er bara sá að þó við segjumst ætla að ná þessum markmiðum þá er ekki líklegt að við náum þeim. Jafnvel er líklegt að við náum þeim frekar ef við stefnum á upptöku evrunnar. Annars á ég alveg eins von á því að haldið verði áfram að diskútera um þetta mál þangað til allir verða löngu hættir að nota krónuræfilinn.

Reykjavíkurpiltur einn var í sveit. Af einhverjum ástæðum þurfti hann að lýsa litnum á meri sem verið var að tala um. Sagði stráksi að merin væri skjöldótt og skildi ekkert í því hvað öllum þótti furðulegt að taka svona til orða. Aumingja hryssan var uppfrá þessu aldrei kölluð annað en skjöldótta merin.

Og af því þetta blogg er hvort eð er samtíningur og sitthvað læt ég nokkrar myndir fylgja.

IMG 0712Ekki veit ég hvað þetta blóm heitir. Mér fannst það bara fallegt.

IMG 0720Og ég sem hélt alltaf að íslenskir brunahanar væru gulir.

IMG 0721Þetta listaverk er í Kópavoginum. Ekki langt frá Auðbrekku. Man bara ekki hvar.

IMG 0739Já, haustið er víst að koma.

IMG 0740Það sést á laufi trjánna.

IMG 0745Sveppirnir eru glansandi í rigningunni.

IMG 0746Og mynda allskyns mynstur í grasinu.


453. - "Nú erum við að tala saman og þetta er áreiðanlega öruggur staður til að vera á"

Sumt orðalag sem reynt er að troða inn á okkur í auglýsingum finnst mér óttalega vitlaust. "Öruggur staður til að vera á" er til dæmis orðalag sem minnir mig á lélega þýðingu. Mér finnst þetta hafa byrjað á auglýsingu um bílategund þar sem lítil stelpa vaknaði um miðja nótt og fór út í bílskúr og settist upp í bílinn sem þar var frekar en að fara uppí til pabba og mömmu eins og flestir krakkar hefðu áreiðanlega gert. En látum það vera. Þetta var nú bara auglýsing. Svo var farið að troða þessu inn í næstum allar auglýsingar frá einhverju bílaumboði og syngja þetta bull jafnvel líka.

Sama er að segja um setninguna "Nú erum við að tala saman" sem mikið er reynt um þessar mundir að láta hljóma eðlilega með því að endurtaka hana sí og æ. Þetta er greinilega ömurleg orðabókarþýðing úr ensku. Mér finnst orðalagið einfaldlega lélegt. Vel getur samt verið að ég sé bara svona neikvæður og afundinn og þetta sé það sem koma skal. Það þarf þó að mínum dómi að leggja í þetta enska hugsun svo það verði eðlilegt.

Óeðlilegt er að ætlast til að allir bloggarar skrifi lýtalausa íslensku. Það eru einfaldlega ekki tök á því að skylda fólk til að orða hugsun sína á ákveðinn hátt. Réttritun er heldur ekki nein altæk vísindi. Það er alls ekki hægt að skylda fólk til að stafsetja orð á einhvern ákveðinn hátt.

Stafsetning í íslensku hefur löngum verið á reiki en þó í allföstum skorðum undanfarna áratugi. Sú réttritun sem nú er notuð er þó ekkert endilega réttari en önnur. Stjórnvöld geta aðeins krafist ákveðins málsniðs og réttritunar í skólum og opinberri stjórnsýslu.

Íslensk réttritun er furðu lík framburði. Það getur annað hvort stafað af því að íslenskt mál hafi lítið breyst í aldanna rás eða að íhaldssemin í réttritun hjá öðrum sé meiri en hjá okkur. Nærtækur samanburður er auðvitað enskan.

Óþolandi væri með öllu að opinberir aðilar settu skilyrði um málfar og réttritun. Þetta hefur þó verið reynt að gera hvað snertir mannanöfn en er vitanlega hin mesta vitleysa.

Hann hnyklaði brýrnar er stundum sagt og skrifað. Það tel ég vera rangt. Augabrýr eru ekki til heldur er þetta dregið af orðinu augabrýn. Það er kvenkynsorð og þess vegna verður það brýnnar í þolfalli fleirtölu með greini. Fornt er það mjög og ekki notað lengur en heldur sér samt í föstum orðatiltækjum. Réttara er að tala um augabrúnir.

En það er með þetta eins og ær og kýr. Rollur og beljur taka yfir vegna þess meðal annars að beygingin er einfaldari. Fólk forðast oft það sem flókið er og það skilur illa. Ég finn það á sjálfum mér að ef ég er í vafa um stafsetningu þá hyllist ég stundum til að nota annað orðalag en ég annars hefði gert og ætlaði mér. Það er vel hægt að tala um að hnykla brúnirnar.


452. - Frásögnin um Bjarna-Dísu. Ein ógurlegasta draugasaga allra tíma

Einhver áhrifamesta og átakanlegasta draugasaga sem ég hef lesið er frásögnin af Bjarna-Dísu og örlögum hennar. Í rauninni er þetta sennilega engin draugasaga heldur aðeins frásögn af ógnvekjandi og hrikalegum atburðum sem urðu á Austurlandi undir lok átjándu aldar.

Frásögnin af þessu máli er þó oft flokkuð með draugasögum og sem slík í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Á vef Netútgáfunnar má lesa þessa frásögn orðrétta.

Bjarna-Dísa hét Þórdís og var Þorsteinsdóttir. (Á vefsíðu draugaseturins á Stokkseyri er hún sögð Þorgeirsdóttir)

Hún varð úti á Fjarðarheiði þegar hún var um tvítugt. Bjarni bróðir hennar dó einhverntíma laust eftir 1840.

Eins og fyrr segir er hægt að lesa þessa frásögn alla á vef Netútgáfunnar. Þar er ekki annað að sjá en þetta sé talin draugasaga og ekkert annað. Þó er í miðri frásögninni  eftirfarandi klausa með breyttu letri og er hún örugglega frá öðrum komin en upprunalegum skrásetjara frásagnarinnar. Málsgreinin er þannig:

Aðrar sögur segja, að Þorvaldur hafi brotið Dísu á bak aftur, til þess að hún væri kyrr, og hætti hún þá að orga. Margar eru fleiri ljótar sagnir um viðureign þeirra. Þorvaldur var maður vandaður, en með hjátrú eins og margir á 18. öld, og mun það réttast, sem hann sagði frá sjálfur.

Sögur segja, að þau Bjarni hafi haft brennivínskút. Mun Dísa hafa verið drukkin og lifað, en Þorvaldur gert út af við hana í hjátrúaræði.

Þau systkin Bjarni og Þórdís voru á ferð frá Eskifirði, þar sem Þórdís var í vist, yfir til Seyðisfjarðar en þar átti Bjarni heima.

Þórdís var fremur illa klædd og veður fór versnandi með snjó og fjúki. Loks villtust þau og Bjarni reyndi að grafa þau í fönn en skyndilega sá hann lítið eitt út úr kafaldinu og vildi athuga hvort hann kannaðist við sig. Urðu þau systkin viðskila við þetta og Bjarni fann hana ekki aftur en komst við illan leik til byggða.

Ýmissa orsaka vegna var það síðan ekki fyrr en að fimm dægrum liðnum sem hægt var að fara og vitja um Þórdísi. Allir töldu að hún hlyti að vera dáin en líklega hefur hún ekki verið það því þegar til átti að taka sýndi hún merki um líf. Það var reyndar talið tákn þess að hún mundi í fyllingu tímans ganga aftur og er í þjóðsögunni greint frá því í alllöngu máli hvernig tókst á endanum að ráða niðurlögum hennar.

Það hrikalega við þessa sögu er að Þórdís hefur næstum áreiðanlega verið lifandi þegar komið var til að ná í líkið af henni en sú draugatrú sem tröllreið öllu á þessum tíma varð þess valdandi að í stað þess að reynt væri að bjarga henni var hún drepin.


451. - Fáeinar vísur héðan og þaðan og hugleiðingar um þær

Nú ætla ég að setja saman smávísnaþátt. Þetta eru allskonar vísur og ég get ekki séð að þær eigi neitt sameiginlegt. 

Greiddi upp trýnið gluggasvín
greitt að hnefabragði.
Sverðarunn tók sér í munn
og saman aftur lagði.

Þetta er úr einhverri rímu. Hugsanlega eftir Sigurð Breiðfjörð. Þarna er því lýst þegar barið er að dyrum, dyrnar opnast og maðurinn gengur inn.

Konur nokkrar sátu við hannyrðir og ræddu barneignir og barnsgetnaði svo sem fara gerir. Maður nokkur kom vongóður til þeirra og sagði:

Glöggt á þessu greini ég skil.
Geymið þið stúlkur dótið.
Ég skal búa barnið til
bara þið lánið mótið.

Vondir menn með vélaþras
að vinum drottins gera brigsl.
Kristur stóð fyrir Kaifas,
klögumálin gengu á víxl.

Ég held að fyrri partur vísunnar hafi upphaflega verið hugsaður sem einhvers konar rímþraut. Vel gæti eitthvað hafa skolast til hjá mér í þessari vísu.

Jóhann Sveinsson frá Flögu gaf eitt sinn út vísnabók. Ég man vel eftir þeirri bók. Bæði útlitinu á henni og eflaust hef ég lært einhverjar vísur úr henni. Bókin heitir: "Ég skal kveða við þig vel" og fyrsta vísan í henni er svona:

Ég skal kveða við þig vel
viljirðu hlusta kindin mín.
Pabbi þinn fór að sækja í sel.
Senn kemur hún mamma þín.

Ég man að mamma kenndi mér eftirfarandi vísu og lét þess getið um leið að auðvitað mætti svosem setja alltaf í staðinn fyrir aldrei í byrjun hverrar ljóðlínu:

Aldrei skal ég eiga flösku.
Aldrei drekka brennivín.
Aldrei reiða ull í tösku.
Aldrei bera tóbaksskrín.

Ég veit ekkert um tilefni næstu vísu eða hver hefur sett hana saman. Ég hef áreiðanlega lært hana á sínum tíma bara vegna blótsins og hvað orðalagið í henni er kraftmikið.

Lítill er og læramjór.
Lítt að góðu kenndur.
Drekktu vín og drýgðu hór
Djöfullið þitt Gvendur.

Það má eiginlega ekki minna vera en að sjö vísur séu í einu vísnabloggi Hér kemur sú sjöunda og síðasta. Nokkuð vel gerð hringhenda úr safni Gunnars frá Selalæk minnir mig:

Háum kofa herrans í
hörð var ofin snara.
Ég hef lofað aldrei í
önnur klof að fara.

Jú annars. Ég held að ég haldi bara áfram. Vísur eru svo fljótlesnar að það er afsakanlegt að hafa þetta aðeins í lengra lagi núna. Umræðan um þjóðskáldin varð til þess að ég fór að hugsa um Grím Thomsen.

Aldrei hefur enn í manna minnum
meira riðið nokkur Íslendingur.

segir í Skúlaskeiði og það hefur ekki enn verið hrakið svo ég viti. Þó skilst mér að menn ríði og ríði viðstöðulaust um allar koppagrundir til að reyna við metið.

En hvert er metið?

Það er sem ég þrái mest
og þyrfti að fá mér bráðum.
Góða konu og góðan hest
og geta riðið báðum.

Þetta er gamall húsgangur og ekki mikið að marka hann. Allavega ekki við metslátt.

Þeir eltu hann á átta hófahreinum
og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar.

Vissi Grímur ekkert um hefðbundna stuðlasetningu eða er þetta bara skáldaleyfi?

 

450. - Um besservissera, Höskuld Björnsson og Miklahvell. Já og hvarf Bloggrýnisins

Það er einkenni á sumu fólki að það þykist vita miklu meira en það veit. Eiginlega næstum því allt. Þessvegna er eðlilegt að kalla það besservissera. Ekki er auðvelt að viðurkenna að maður sé sjálfur þessu marki brenndur. Mér finnst ekki mikið mál að viðurkenna að ég hafi rangt fyrir mér einstöku sinnum. 

Sumir komast aldrei almennilega á besservisserastigið og ættu að kætast yfir því. Það er nefnilega sagt að erfitt sé að komast niður aftur.

Besservisserar telja sjálfum sér trú um að þau örfáu svið sem þeir skilja ekki fullkomlega skifti í rauninni afar litlu máli. Besservisserar eru stundum erfiðir í umgengni en aðstandendur og fjölskylda geta með tímanum lært á þá og jafnvel stjórnað þeim að vissu marki. Þeir geta verið ágætir til vinnu og eru stundum hörkuduglegir.

Um daginn kom ég í sýningarsalinn Einars Hákonarsonar í Hveragerði. Þar hefur nú aðsetur, ef ég man rétt, Listasafn Árnessýslu. Þarna var sýning á verkum Höskuldar Björnssonar. Höskuldur teiknaði og málaði fugla flestum betur. Ég man vel eftir Höskuldi. Hann var hlédrægur og fyrirferðarlítill maður og tranaði sér yfirleitt ekki fram.

Ekkja Höskuldar rak lengi kaffihús í húsi þeirra eftir að Höskuldur dó. Skömmu fyrir lát sitt hafði Höskuldur komið upp allstórum sýningarsal áföstum íbúðarhúsinu og þar hygg ég að kaffihúsið hafi verið. Aldrei kom ég samt þangað.

Ef ég fer þá fer ég ber.
Annars ekki.

Þetta sungu þeir Dóri Höskulds (Halldór sonur listmálarans) og Haukur prestsins (séra Helga Sveinssonar) einu sinni margoft með mikilli tilfinningu. Ekki man ég þó tilefnið.

Mér finnst þetta Miklahvellsfjas allt mjög merkilegt. Reyndar fannst mér heimsendaspárnar vera í vitlausari kantinum. Hefði ég verið að blogga þegar Halleys halastjarnan var hér á ferð síðast (eða var það næstsíðast) hefði ég kannski varað menn við að vera úti að flækjast þegar Jörðin þeyttist í gegnum halann á henni. En það var þá og núna er það CERN og ofurhraðallinn ógnarlangi sem umræðan snýst um.

Þegar farið verður að vinna við þetta skrímsli má búast við að vísindaleg þekking taki stökk fram á við. Skilningur á alheiminum gæti farið vaxandi og nýjar kenningar komið fram.

Bloggrýnirinn er horfinn. Heimur versnandi fer. Ég sé ekki betur en búið sé að þurrka út allt sem þessi snillingur skrifaði. Athugasemdin sem hann/hún skrifaði í kommentakerfið mitt á föstudaginn er það eina sem ég finn.
Horfinn, dáinn, harmafregn
Hvílík sorg mig dynur yfir

Æ, ég man ekki meira af þessu. Þetta gæti verið eftir Jónas og um Tómas.

 

449. - sæmundarháttur í bloggi - Svei mér þá hann ku vera til. Líka djúpar pælingar eða djúsí fjas fyrir Brján

Brjánn segir eitthvað á þá leið í athugasemd að hann hafi átt von á djúpum pælingum um já-fólkið þegar hann sá fyrirsögnina.

Verst að ég veit ekki hvaða já-fólk þetta er. Ætla þó að reyna að giska og hugleiða eitthvað í framhaldi af því.

Í mínum huga er já-fólkið þeir sem láta vissa bloggstjórnun yfir sig ganga. Líklega er ég í þeim hópi.

Morgunblaðsmönnum er ekki sama hvernig fólk hagar sér hér á Moggablogginu. Það er að vonum. Mér finnst þeir þó hingað til hafa tekið faglega á málum sem upp hafa komið. Það er að segja að ég get ekki komið auga á að Moggabloggurum fari í raun fækkandi eða skrifin hér versnandi.

Auðvitað er margt sem hér er skrifað argasta bull. Mér finnst það ekki gera nokkurn skapaðan hlut til. Auðvelt er að láta það ekki hafa áhrif á sig.

Við höfum í tímans rás séð að stjórnendur bloggsins hafa ýmsar leiðir til að hafa áhrif á skrifin. Ævinlega vekja inngrip þeirra óánægju. Samt hætta menn ekki að skrifa.

Aðrir bloggarar öfunda okkur mikið af þeirri þjónustu sem við fáum. Hún er góð en auðvitað vilja stjórnendurnir fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Ég er sannfærður um að stjórnmál eða skoðanir fólks hafa ekki áhrif á það hverjir fá að skrifa hér óáreittir. Stjórnendur bloggsins verða sjálfir að setja reglurnar. Ekki væri betra að þeir neikvæðustu í hópnum gerðu það.

Það getur vel verið að erfitt sé að sigla þannig á milli skers og báru að allir verið sæmilega ánægðir. Vorkenni bloggstjórnendum það þó ekki neitt. Þeir kölluðu þetta yfir sig og þó einhverjir bölvi þeim í sand og ösku er ekkert við því að gera.

Ég bloggaði eitthvað um daginn um HelguGuðrúnarmálið. Nú sé ég á blogginu hennar að hún vill frekar vera stór fiskur í lítilli tjörn en lítill fiskur í stórri tjörn. Við því er ekkert að gera. Það er hennar val.

Þá er Þjóðarsálin með hundshausinn búin að kasta mér fyrir róða sem bloggvini sínum. Ekki mátti hann við miklu. Svo bloggar hann um mig á sínu bloggi og velur mér þau nöfn sem honum finnst hæfa. Sama er mér.

 

448. - Ég sé að Þjóðarsálin svokallaða sem kommentar grimmt hjá öðrum leyfir ekki öðrum að kommenta hjá sér. Það finnst mér klént. Fyrirsögnin átti annars að vera um Káinn

Kristján Níels Jónsson (Káinn) fæddist 7.apríl árið 1860. Hann fluttist 18 ára gamall til Ameríku og átti ekki afturkvæmt þaðan. 

Þegar hann fluttist til Vesturheims tók hann sér ættarnafnið Júlíus. Oft var hann einnig nefndur eftir upphafsstöfum sínum KN. Hann var með öllu ómenntaður og naut lítillar skólagöngu. Alla sína æfi vann hann almenna verkamannavinnu og mest við búskap. Hann kvæntist aldrei og ekki er vitað til að hann eigi afkomendur.

Margar vísna hans eru nokkuð enskuskotnar en alls ekki verri fyrir það. Ein af þeim vísun sem ég man mjög vel eftir og er einmitt skemmtilegt sambland af ensku og íslensku er þessi:

Bágt er að vera birtu án.
Berið hingað ljósið.
Everything is upside down
allt í kringum fjósið.

Vísa sem Káinn orti einhverju sinni eftir að ofsatrúarmenn höfðu komið í heimsókn til hans án þess að geta snúið honum er mjög þekkt:

Kýrrassa tók ég trú.
Trú þessa hef ég nú.
Í flórnum fæ ég að standa
fyrir náð heilags anda.

Þessi vísa er kannski ekki rétt eftir höfð en satt að segja held ég að til séu óhemjumörg afbrigði af henni í minni manna.

Konur nokkrar spurðu Káinn einhverju sinni um álit á stuttu tískunni sem þá var mjög til umræðu:

Kæru löndur hvað veit ég
karl um pilsin yðar.
Mér finnst síddin mátuleg
milli hnés og kviðar.

Káinn var nokkuð vínhneigður. Sagt er að hann hafi einhverju sinni verið á veitingahúsi og afgreiðslustúlka þar amaðist við því að hann væri að drekka á staðnum. Káinn fyrtist við, setti flöskuna á borðið og rak í hana tappann með látum um leið og hann mælti fram þessa vísu:

Heyrðu Manga hýr á brá
hlýddu meðan sérðu.
Þannig ganga þyrfti frá
þér að neðanverðu.

Hin eftirfarandi fræga og minnisverða vögguvísa mun vera eftir Káinn. Margir kunna hana eða kannast við án þess að vita eftir hvern hún er. Margar útgáfur eru til af þessari vísu. Einkum er önnur ljóðlínan breytileg.

Farðu að sofa blessað barnið smáa.
Brúkaðu ekki minnsta djöfuls þráa.
Haltu kjafti hlýddu og vertu góður.
Heiðra skaltu föður þinn og móður.

Ég veit að gefin hefur verið út bók með helstu verkum Káins en hún er mér ekki tiltæk svo allar vísurnar sem hér eru settar á blað eru eftir minni.

Kannski reyni ég einhvern tíman seinna að setja saman fleiri vísnaþætti. Nóg er til af vísum.

 

447. - Um málfar, nýjan og snjallan bloggara, dægurlög, sveitaböll og Badda kött

Ég tek eftir því að ef ég skrifa um málfar eru heimsóknir og komment með mesta móti. Líklega hafa mjög margir áhuga á slíku og er það vel. Mér líkar samt ekki alltaf sú dómgirni sem ég þykist verða var við í þessum efnum. Kannski reyni ég að koma hugleiðingum um þetta að á næstunni.

Get ekki stillt mig um að benda á nýjan bloggara hér á Moggablogginu. Hann segist heita bloggrýnirinn (bloggryni.blog.is). Þegar ég uppgötvaði hann hafði hann bara skrifað tvo pistla. Pistill númer tvö heitir sæmundarháttur í bloggi. Ég var alveg gáttaður þegar ég las hann. En svo flýtti ég mér að bjóða þessum snillingi bloggvináttu sem hann þáði.

Eins gott að ekki var minnst á dægurlög í klukkinu því þá hefði ég lent í vandræðum. Tónlist er yfirleitt bara hávaði í mínum eyrum. Þó man ég eftir einu dægurlagi. Ég var að vinna uppi á Reykjum og Örn Jóhannesson kom með amerískan 45 snúninga glymskratta með sér úr einni bæjarferðinni. Hann kom einnig með nokkrar plötur og sagði að á þeim væru nýjustu og flottustu dægurlögin. Ég man að eitt að þessum lögum var "The Banana boat song" sem sungið var af Harry Belafonte. Þetta lag festist af einhverjum ástæðum í minni mér.

Um svipað leyti kom Bill Haley og rokkið til sögunnar og allir þurftu að vera í hvítum peysum og svörtum gallabuxum með hvítum saumum. Af hverju veit ég ekki.

Seinna komu svo sveitaböllin. Mesta fjörið var yfirleitt á Hvoli en aðrir staðir voru líka í lagi. Svo sem Hella, Aratunga, Þjórsárver, Selfossbíó og fleiri. Aðalhljómsveitin var auðvitað Hljómsveit Óskars Guðmundssonar.

Sá um daginn í Kastljósi kvöldsins sýnt frá heimsókn til Bjarna E. Sigurðssonar. Þegar hann átti heima í Hveragerði í gamla daga var hann alltaf kallaður Baddi. Hróðmar og hann voru stundum kallaðir Hrói höttur og Baddi köttur. Já, Baddi var kattliðugur þá og varð seinna íþróttakennari. Eftir það fór hann svo í hestamennsku og var lengi eitthvað viðloðandi slík störf. Ég held að þetta með landnámshanana bæði uppstoppaða og lifandi sé fremur nýtilkomið.

Jón Helgi Háldánarson vinur Badda og félagi var stundum dálítið fljóthuga og fljótmæltur. Einhvern tíma á hann að hafa sagt: "Ég, Baddi og þrjár aðrar stelpur fórum í óleyfisleysi niður í Þorlákshöfn."

 

446. - Þetta HelguGuðrúnarmál er merkilegt og sýnir í hnotskurn stjórnunaraðferðir Moggabloggsguðanna

Helga Guðrún Eiríksdóttir (blekpenni.blog.is) lætur þess getið á sínu bloggi að tekið hafi verið fyrir að hún geti bloggað um fréttir á mbl.is. Þetta sé gert vegna endurtekinna kvartana.

Ég hef hingað til ekki lesið blogg Guðrúnar nema öðru hvoru en vel getur verið að hún hafi misnotað möguleikann á að linka í mbl.is fréttir. Hún er þó ekki ein um það því ég held að þeir séu örugglega fleiri. En auðvitað skiptir bara máli hvað Moggabloggsmenn telja misnotkun. Þetta með endurteknar kvartanir held ég að skipti engu máli. Lítur bara betur út.

Þeir Moggabloggsmenn vilja ekki gefa út nákvæmar reglur um það hvernig á að haga sér á Moggablogginu því þeir vilja geta túlkað reglurnar eftir aðstæðum hverju sinni. Þannig stjórna harðstjórar. Þeir sem brjóta af sér vita aldrei með vissu hvað það var sem þeir gerðu rangt. Auðvitað hefði verið eðlilegt að aðvara hana áður en svona ráðum er beitt.

Salvör Gissurardóttir lét þess getið þegar hún byrjaði að blogga hér að eigendur bloggsvæðisins hefðu ótal ráð til að hafa áhrif á það hvernig skrifin hér væru. Það hafa þeir að sjálfsögðu og beita sínum aðferðum vægðarlaust. Við skulum muna að við erum hér að leika okkur á svæði sem Morgunblaðið á og höfum ekki aðra kosti en að hlýða eða fara.

Margir hella úr skálum reiði sinnar í kommentakerfi Guðrúnar og er það að vonum. Sjálf segir hún í kommentakerfinu að hún geti ekki hugsað sér að blogga eftir að rétturinn til að linka í fréttir er frá henni tekinn.

Sjálfur linka ég ekki í mbl.is fréttir og samt er bloggið mitt eitthvað lesið. Áskoranir um að loka því hafa þó birtst í kommentakerfum en mér er ekki kunnugt um að ég hafi verið klagaður til stjórnenda bloggsins. Ég vil endilega skora á Helgu Guðrúnu að halda áfram að blogga. Með því sýnir hún að hún er stærri en þeir Moggabloggsguðir. Það var hún sem klukkaði Sigurð Hreiðar og hann klukkaði síðan mig. Kannski er það þessi saklausi leikur sem klukkið er sem fer svona óskaplega í taugarnar á goðunum.

Moggabloggsguðirnir segja í dag að vandamálið sé tengingar í fréttir mbl.is. Á morgun kunna þeir að segja eitthvað allt annað. Fyrir nokkru kipptu þeir Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni útaf forsíðubloggaralistanum, mig minnir að þeir hafi sagt að skrif hans væru of einhæf. Þeir endurskoðuðu þá ákvörðun og breyttu henni eftir kvörtun frá Vilhjálmi. Hugsanlega er þeim ekki alls varnað.

 

445. - Æ, æ og ó, ó. Sigurður Hreiðar klukkaði mig. Klukk klukk og tröllin í fjöllunum. Eða eitthvað

Ég hef einu sinni áður verið klukkaður hér á blogginu. Þá átti nú að gera eitthvað annað. Ég þagði samt þunnu hljóði. Nú verður ekki undan vikist og ég ætla að gera eins og Sigurður. Eins gott samt að einhverjir svíki lit því annars endar þetta aldrei.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
Kartöfluupptaka.
Verslunarstjórn.
Skrifstofustörf.
Næturvarsla.

Fjórar bíómyndir sem ég held uppá:
Shawshank Redemption.
Síðasti bærinn í dalnum.
Chariots of fire.
Lawrence of Arabia.

Fjórir staðir sem ég hef átt heima á:
Hveragerði.
Vegamót á Snæfellsnesi
Reykjavík.
Kópavogur.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
Dýrlingurinn.
Upstairs, downstairs.
Fréttir.
Út og suður.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Mallorka.
Fljótavík.
London.
Breiðdalur.

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:
mbl.is
chesshere.com
gmail.com.
123.is.

Fernt sem ég held uppá matarkyns:
Blóðmör.
Pavlóvur.
Nautalundir.
Tómatar.

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft: (Hmm. Les yfirleitt ekki bækur oft en hef oft óskað þess að ég ætti ákveðnar bækur ólesnar.)
Í verum.
Sultur.
Veröld sem var.
Sjálfstætt fólk.

Fjórir bloggarar sem ég klukka:
Arnþór Helgason.
Sigurður Þór Guðjónsson.
Brjánn Guðjónsson
Lára Hanna Einarsdóttir.

Þetta var auðvelt og vel sloppið frá bloggi dagsins. Eiginlega er ekki mikið að marka þetta. Oft setti ég bara það sem mér datt fyrst í hug. Svo getur vel verið að einhverja af þeim sem ég vil klukka sé búið að klukka. Kemur í ljós.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband