Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

254. - Alvöru NOVA blogg. Burt með þennan andskota

Ég er ekki einn af þeim sem hef hingað til haft sem hæst útaf þessari NOVA auglýsingu.

Vissulega fer hún í taugarnar á mér, en við verðum að viðurkenna að það er lúxus að geta bloggað fjandann ráðalausan alveg ókeypis og fá að auki úrvals góða þjónustu eins og ég tel að við Moggabloggarar höfum fengið. Ég hef ekki hótað því að hætta að blogga útaf þessu eins og sumir, enda er ég sannfærður um að það mundi ekki hafa nokkur minnstu áhrif.

Það er hreyfingin og gauragangurinn í kringum þessa auglýsingu sem mér líkar verst við. Það vantar ekkert nema skerandi ískur. Það eru hávaðaauglýsingarnar sem fara verst í mig. Ég hrekk venjulega í kút þegar tölvan gefur frá sér hljóð sem ég á ekki von á. Slíkum auglýsingum fer sem betur fer fækkandi, því eflaust er fleirum líkt farið og mér að hljóðið í tölvunni hefur mikil áhrif á þá. En af hverju ætli hávaðaauglýsingar séu orðnar minna áberandi en áður var. Mér segir svo hugur að það sé vegna þess að fólk hefur flúið þau vefsetur sem fætur toga, sem boðið hafa upp á slík ósköp.

Allmargir hafa skrifað á sín blogg að þeir vilji gjarnan borga eitthvað fyrir að fá að blogga, ef þeir sleppa í staðinn við auglýsingarnar. Ég get ekki séð að það sé nein lausn. Þá losna þeir bloggarar við að sjá auglýsingar, en þeir sem lesa bloggin þeirra halda áfram að vera truflaðir af þessum fjanda. Það er reyndar ósköp einfalt að koma í veg fyrir að maður sjái þessar auglýsingar, en ekki gera allir það og auk þess missir maður þá oftast af einhverju öðru líka.

Málið horfir allt öðru vísi við ef þeir Moggabloggsmenn geta tryggt að þeir sem skoða viðkomandi borgunarblogg þurfi ekki að sjá neinar auglýsingar. Slíkt er áreiðanlega tæknilega mögulegt en ég hef ekki séð að boðið sé upp á neitt af því tagi og er alls ekki viss um að auglýsendur eða Moggabloggsmenn kæri sig um slíkt.

Meðan þeir Moggabloggsmenn þegja þunnu hljóði þegar þeir eru spurðir útí þetta, sé ég ekki annað en við bloggarar verðum að þreyja Þorrann og Góuna og blogga eins og við erum vanir. Auðvitað má mótmæla þessu og góð hugmynd er að láta í sér heyra í kommentakerfinu á kerfi.blog.is þó ég hafi nú ekki gert það ennþá. Flestum lætur nefnilega betur að tuða bara í sínu horni eins og ég er að gera núna eða gera bara alls ekki neitt.

Spurningarnar sem mér finnst að við Moggabloggarar eigum rétt á að fá svör við eru einkum þær sem ég setti fram á mínu bloggi í gær. Það er hvenær þessu ljúki og hver sé framtíðarstefnan í þessum málum.

Já og Guðbjörg Hildur Kolbeins er nú komin aftur á Moggabloggið eftir að hafa flutt sig sem snöggvast yfir á blogspot.com. Svonalagað skil ég nú bara ekki. Ekki er Sigurður Þór farinn að blogga aftur eftir því sem ég best veit. Lætur í mesta lagi ljós sitt skína í kommentum.


253. - Enn eitt NOVA bloggið og ekki minnst á Fischer

Fyrst smá íslenskupistill.

Mér hafa alltaf þótt ypsilon sem breyta merkingu orða skemmtileg. Samt ruglast ég stundum í þessu. Dóttir mín kom með ágæta aðferð til að muna þetta með Gróu á Leiti. Gróa var nefnilega svo einföld, (þó sumar gerðir hennar hafi reyndar bent til tvöfeldni) að það er einboðið að hafa bæjarnafnið Leiti með einföldu i-i en ekki ypsiloni. Sama er að segja um kennileiti og önnur leiti í landslaginu. Hins vegar er það sem lýtur að einhverju að sjálfsögðu með ypsiloni. Bæði að sumu leyti, mörgu leyti og jafnvel öllu leyti.

Leikir sem við krakkarnir fórum gjarnan í voru oft skemmtilegir. Eftir á að hyggja voru nöfnin á þeim stundum ekki síður skemmtileg. Ég man til dæmis eftir einum leik sem hét: "Eitt par fram, fyrir ekkjumann." Leikurinn var ekkert sérlega merkilegur, en nafnið er ágætt. Svo lékum við okkur að sjálfsögðu líka í stórfiskaleik, kjöt í pottinn, fallin spýtan, yfir, sto og svo framvegis. Ég gæti enn rifjað upp reglurnar í þessum leikjum flestum.

Ég fylgist alltaf með blogginu hans Austurlandaegils. Gott hjá honum að leggjast svona í flakk öðru hvoru. Þetta gerði Bjarni pabbi hans líka á sínum tíma og hafði eflaust gott af. Um daginn var hann að tala um að hann ætlaði að blogga í dagbókarstíl. Það minnir mig á bókina Dagbók Íslendinga. Það var nokkuð fróðlegt að lesa hana á sínum tíma. Mest var ég hissa á hvað tölvurnar voru stórar hjá fólki. Fjöldi fólks lýsti fjálglega ýmsum uppátækjum og aðgerðum en svo fór það oftast í tölvuna og var þar svo og svo lengi. Fáir létu þess getið hvað þeir voru að gera í tölvunni. Bara að þeir hefðu farið þangað.

Alveg er það ótrúlegt hvað Moggabloggið er vinsælt. Tugir þúsunda innlita hjá þeim sem vinsælastir eru. Og alltaf eru nýjir notendur að bætast við. Líklega falla samt einhverjir út, en ég hef á tilfinningunni að hinir séu fleiri. Mér hefur dottið í hug að ástæðan fyrir því hve öðrum bloggurum er illa við Moggabloggið, sé einkum sú að umferðin hjá þeim hafi minnkað. Það er kannski í einhverjum tilfellum skaði, en þau skemmtilegheit og fjölbreytni sem Moggabloggið stendur fyrir, bætir það alveg upp. En hvað skyldi þessi NOVA auglýsing eiga að angra okkur lengi og hvað skyldi taka við þegar hennar tími er útrunninn?


252. - Áfallastreituröskun, þýðingar, íslenskt mál og fleira

Áfallastreituröskun og svokölluð áfallahjálp í framhaldi af henni er mikið í tísku um þessar mundir.

Ekki er laust við að áfallahjálp, sem eflaust getur oft verið af hinu góða, fái ansi lága einkunn hjá almenningi þegar ekki er ljóst í hverju hún er fólgin.

Hef verið svolítið í Atlas-þýðingum að undanförnu. Atlas International er breskt fasteingasölufyrirtæki sem einbeitir sér að sólarströndum eins og sumir eflaust vita. Upphaflega voru þeir bara á Spáni. Svo færðu þeir út kvíarnar og bættu Kýpur og grísku eyjunum við. Síðan Tyrklandi, svo Belize og Ítalíu og núna síðast Kaliforníu. Alltaf naut ég góðs af og fékk þýðingarverkefni með hverju nýju landi. Kannski þeir bæti bráðum nýjum löndum við. Mér líst t.d. bráðvel á það hjá þeim að taka Bandaríkin ekki öll í einu lagi. Mæli með Hawaii næst, svo Mexíkó og síðan mætti taka hvert landið og hverja eyjuna eftir aðra í Karabíska hafinu. Kannski tekur þetta aldrei enda.

Blogg er sérstök tegund samskipta. Að sumu leyti líkist það fjölmiðlun en varla er þó hægt að líta á það sem slíkt nema hjá mjög fáum. Moggabloggið er sérstakt samfélag þar sem tengslahópar myndast og menn fara gjarnan sinn bloggrúnt á hverjum einasta degi. Margur er orðinn miklu háðari sinni tölvu en nokkurntíma sjónvarpi, útvarpi eða síma. Rafmagnsleysi skiptir litlu máli fyrir fartölvueigendur sem hafa einhverja ögn af rafurmagni á sínu batteryi en aðra skiptir það öllu máli því tölvan verður allslama (sbr. handlama) í rafmagnsleysi.

Sumt í sambandi við íslenskt mál finnst mér svo sjálfsagt og eðlilegt að allir hljóti að vita það. Um daginn sagði ég t.d. sögu um það hvernig sumir álíta að orðalagið "að ruglast í ríminu" sé tilkomið. Auðvitað geta ekki allir vitað allt og þess vegna er ekki svo slæm hugmynd að minnast á svona í bloggi. Mér dettur t.d. í hug að margir segja að þetta eða hitt hafi gerst í "morgunsárið". Þarna er þó alls ekki verið að tala um neitt sár. Þetta er í rauninni morguns-árið. Það er að segja snemma morguns. Það er eins með ár og síð sem auðvitað þýðir bara snemma og seint. Jónas Svavár sendi eitt sinn frá sér ljóðabók sem hann lét heita "Það blæðir úr morgunsárinu". Eflaust hefur hann þekkt vel það sem ég er að skrifa um hér, en búist við að margir vissu það ekki, annars hefði hann varla haft ástæðu til að skíra bókina þetta.

Kallgreyið hann Villi er eiginlega alveg rúinn stuðningi. Flestallir sem áður studdu hann eru nú skriðnir í felur og láta sem minnst á sér bera. Hve lengi hann getur staðið svona einn og óstuddur er ómögulegt að segja. Mér kæmi ekki á óvart þó hann gæfi sig strax á mánudaginn.


251. - Moggabloggarar, Lifandi vísindi og sjónvarpsútsendingar á Netinu

Guðbjörg Hildur Kolbeins og Sigurður Þór Guðjónsson virðast bæði vera hætt að Moggabloggast.

Guðbjörg Hildur er farin eitthvert annað og ætlar um hríð samt að setja fyrirsagnirnar á Moggabloggið skilst mér. Sjáum til hvernig það gengur. Siggi virðist aftur á móti enn vera í stræk og ekki blogga neitt. Það er skaði því hann er ágætis bloggari þó hann eigi það til að vera dálítið snakillur í kommentum, enda forðast ég þau. Ef ég mundi hætta á Moggablogginu býst ég við að ég mundi flytja mig á 123.is. Mér finnst að þar sé verið að gera góða hluti og svo mikið er víst að þar er þjónustan í lagi og bréfum fólks svarað.

Tímaritið Lifandi vísindi er greinilega vinsælt hér á landi. Umfjöllun þar er stundum ágæt en stundum frekur lakleg. Fyrst þegar ég sá tímaritið Sagan öll sýndist mér það vera bein eftiröpun af Lifandi vísindum. Kannski er ekki svo. Líklega er meira innlent efni í því og hugsanlega miklu tengdara sögu en vísindaþrugli. Í Lifandi vísindum þykir mér oft of mikið gert úr hlutunum. Teikningarnar eru þó oft skemmtilegar. Stundum villandi að vísu, en oft mjög upplýsandi.

Mér finnst miklu heilbrigðara að sökkva sér ofan í vísindi og tækni þó það sé á forsendum blaðsins og í raun á forsendum æsifréttamennsku, en að eyða tíma sínum í þetta hjávísindabull, talnaspeki, áruhreinsanir, álfaskoðun, skyggnilýsingar í útvarpi, stjörnuspeki og þess háttar vitleysu sem veður uppi í fjölmiðlum hér á landi um þessar mundir. Mér finnst með öllu óskiljanlegt hvernig fólk getur lagt eyrun við öðru eins rugli.

Ég horfi nokkuð oft á sjónvarpið á Netinu. Þó myndgæðin séu ekkert sérstök nægja þau mér yfirleitt, a.m.k. fyrir fréttir og þess háttar. Það sem fer í taugarnar á mér er að afskaplega illa er fylgst með því hvort útsendingin sé í lagi. Þetta á bæði við um ríkissjónvarpið og Stöð 2. Útsendingin virðist geta dottið út án þess að nokkur skipti sér af því. Allskyns hnökrar geta komið upp og enginn virðist nenna að sinna því.

Veðurfréttir má greinilega ekki senda út á svo opnum miðli sem netið er og alveg er undið hælinn lagt hvort auglýsingar komast til skila á þennan hátt. Mér er reyndar alveg sama um auglýsingarnar, en kannski ekki auglýsendunum. Vel getur verið að þetta sé stundum lagfært eftirá, en ég trúi því ekki að ég sé sá eini sem læt svo lítið að horfa á þetta beint á Netinu. Fyrirlitningin er samt algjör af hendi varpanna. Þeim virðist vera nákvæmlega sama um Netáhorfendur.


250. - Um rím, vísur, myndir, peninga og margt fleira

Rím er tímatal. Þetta blasir kannski ekki við öllum. Sumum finnst rím bara vera rím. Það er að láta orð ríma. En það er bara ein merking orðsins.

Fingrarím er sú íþrótt kölluð að geta reiknað út á fingrum sér mánaðardaga og vikudaga eftir dagsetningum og svo framvegis. Sagt var um einn útfarinn fingrarímara að hann hefði getað reiknað út hvernig stóð á tungli í Svoldarorrustu. Ekki sel ég það dýrar en ég keypti. Sigurþór stúkukall kunni fingrarím í gamla daga í Hveragerði. Svo var að minnsta kosti sagt.

Einhverju sinni kom það upp ekki löngu eftir jól á Hólum í Hjaltadal að enginn vissi hvenær Páskar væru það árið. Þetta þótti afleitt og alls ekki biskupi sæmandi. Menn voru því gerðir út í skyndi til að fara þvert yfir hálendið og að Skálholti til að komast að þessu. Þarna rugluðust menn alvarlega í ríminu.

Sextíu og sjö milljarða tap er talsvert. Gott að ríkið er ekki að tapa þessu heldur bara einhver Hannes Smárason. Tap FJ group er sagt hafa  verið um 700 milljónir á dag. Í því ljósi er ekki mikið þó Hannes greyið fái nokkra tugi milljóna fyrir að láta sig hverfa. Ég hefði samt alveg getað þegið þá peninga, en tapaði ekki 700 milljónum á dag og hefði aldrei getað það.

Ef mönnum leiðist blaðrið hér þá má benda á vefsetrið Áslaugar. Hún er nú byrjuð að teikna aftur og birtir á sínu bloggi (123.is/asben) nýjar Corel Draw myndir og vísur um allt og ekkert.

Veðrið fer nú sem betur fer smám saman batnandi. Það er ekkert smávegis sem horfið hefur af snjó undanfarna daga. Vonandi kemur ekki meira af slíkum ófögnuði í vetur.

Mér skilst að eitthvað sé að rofa til í visa-Schengen málum Bahamískra Íslandsfara og veitir ekki af. Bjarni er líka búinn að skoða íbúð sem honum stendur til boða að taka á leigu. Önnur minni er á sama stað sem Siggi Grétars hefur hugsanlega áhuga á. Hann er víst búinn að ráða sig í gæslustörf hjá Securitas.


249. - Gagnvart gagnlega gagnfræðingnum eru gagnnjósnir gagnslausar

Á sama hátt og Vilhjálmur Þ. telur sjálfum sér ef til vill trú um að hann geti sloppið við að taka ábyrgð á nokkrum hlut um leið og hann veldur Sjálfstæðisflokknum miklum vandræðum, þá er ég viss um að krakkarnir sem höfðuðu mál á heldur Páli Magnússyni útvarpsstjóra og Kastljósi eru að gera Jónínu Bartmarz stórkostlegan óleik með þessu.

Að vísu er stjórnmálaferli hennar sennilega með öllu lokið, en áhrif af svonalagaðri vitleysu geta hæglega sagt til sín annars staðar.

Nova auglýsingin virðist vera að gera allt vitlaust. Lára Hanna reynir að kenna á Windowsið á sínu bloggi og hvernig hægt sé að losna við þessa óværu, en sumir eru ekki alveg að skilja málið. "Nova auglýsingin er á fullu skriði á síðunni þinni." segir einn spekingurinn í kommenti við síðustu skrif hennar. Ekki mundi ég ætla Láru Hönnu að hafa áhrif á mína tölvu þó hún geti margt gert.

Hvað á maður að gera þegar maður nennir ekki að blogga? Blogga samt? Nú, ég er að því. Eitt er það sem ég geri gjarnan í mínu bloggi. Það er að safna saman því sem ég mundi annars setja í komment hjá öðrum. Það er illa farið með góðar hugmyndir að sóa þeim í komment sem kannski eru svo ekki einu sinni lesin. Jæja, jú trúlega af þeim sem bloggar, en hugsanlega ekki af öðrum. Sumir eins og Sigurður Þór fá oft svo mörg komment að maður gefst bara upp við að lesa þau og kannski hann sjálfur líka. Svo veit maður aldrei hvenær þessum kommentum linnir.

Einu sinni var talað um gagnnjósnara. Vilhjálmur Örn kemur með tillögu um gagnauglýsingu við Nova-auglýsingunni á sínu bloggi. Gagn og gaman var gagnlegt á sínum tíma. Gagnvart gagnfræðingum dugir þó ekki annað en bla... bla...  Er ekki íslenskan furðulegt mál?


248. - Auglýsingar, íslenska, Fischer og fleira

Þessi nova-mál eru enn að bögga blogglesendur.

Ef auglýsingar trufla fólk finnst mér einboðið að það reyni að losa sig við þær. Til þess eru margar leiðir. Guðbjörg Hildur Kolbeins bendir t.d. á eina, sem er að mjókka gluggann sem bloggin eru skoðuð í. Þetta er ekkert verri leið en hver önnur.

Niðurstaðan úr þessum pælingum öllum finnst mér vera sú að hver og einn blogglesandi ræður því sjálfur hvernig auglýsingar og annað rusl birtist á skjánum hjá honum og hvort það birtist. Bloggskrifarar sem skrifa á ókeypis blogg ráða engu um það.

Ef þeir skrifa t.d. í blöð ráða þeir ekki heldur hvaða efni annað birtist í viðkomandi blaði þó þeir hafi oftast einhverjar væntingar um það. Sama er að segja um bækur. Þeir sem þær skrifa ráða litlu um hvernig þær eru lesnar, en þeir geta samt ráðið einhverju eða jafnvel miklu um útlit þeirra. Þessi mál öll eru fremur flókin og mér finnst Morgunblaðið alls ekki hafa farið með nægilegri gát hér.

"Félagar hans komu í veg fyrir að ekki fór verr", sagði Þórhallur í Kastljósinu í kvöld. Með öðrum orðum: Félagar hans sáu um að þetta fór eins illa og mögulegt var. Svona tekur fólk oft til orða þó það meini oftast allt annað. Þetta er ósköp einfaldlega sú sama tvöfalda neitun sem Íslendingar þreytast yfirleitt ekki á að gera grín að hjá enskumælandi fólki. Oft væri þeim nær að huga að sinni eigin vitleysu.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson heldur áfram að þykjast vera sérfræðingur í erfðarétti. Hann er nú hættur að tala um líkrán og þessháttar en getur ekki stillt sig að blogga þindarlaust og af miklu þekkingarleysi um Bobby Fischer.

Vilhjálmur lætur sem hann beri einkum fyrir brjósti arf sem fallið gæti meintri dóttur Fischers í skaut. Eftir því sem ég kemst næst munu það einkum vera 4 aðilar sem reyna að næla sér í eitthvað af þeim auði sem sagt er að Fischer hafi látið eftir sig.

(1) Japönsk kona sem segist hafa verið gift honum og kann að hafa rétt fyrir sér í því.

(2) Kona frá Filippseyjum sem segist hafa átt barn með Fischer fyrir um sjö árum. Hún gerir þá kröfuna væntanlega fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar. Gæti einnig vel verið rétt.

(3) Eftirlifandi eiginmaður systur Bobbys ásamt börnum sínum. Þessi krafa er ólíklegt að nái fram að ganga.

(4) Bandarísk stjórnvöld, sem hafa lengi talið að Fischer skuldaði háar upphæðir í ógreiddum sköttum. Ómögulegt er að segja til um réttmæti þessarar kröfu.

Hvernig úr þessum málum öllum greiðist að lokum sé ég ekki að komi mér neitt við og Vilhjálmi Erni ekki heldur.


247. - Borgarstjórnarfarsi og auglýsingafár

Alveg er þessi borgarstjórnarfarsi með ólíkindum.

Eftir að hafa látið bíða eftir sér í einn og hálfan klukkutíma biðst karlfjandinn ekki einu sinni afsökunar. Og svo er þessi svokallaði blaðamannafundur allur í skötulíki. Allir borgarfulltrúarnir farnir heim til sín nema Villi greyið og hann vissi ekkert hvað hann átti að gera. Reyndi samt að reka óverðuga út. Þetta verður varla hægt að toppa. Ég hef ekki geð í mér til að blogga meira um þennan hrylling.

Og svo var Geir harði eitthvað að þrugla í fréttunum. Ef eitthvað er til sem hægt er að kalla hálfvolgan stuðning þá er það stuðningur Geirs við Villa. Þvílíkt rugl.

Allir eru að fjasa um þessa auglýsingu á Moggablogginu. Eiginlega fær hún alltof mikla auglýsingu útá það. En ekki truflar hún mig. Mér er sléttsama um hana. Maður hlýtur að þurfa að gera ráð fyrir að það sem er ókeypis kosti samt í rauninni eitthvað. Kurteisi væri það samt óneitanlega að bjóða fólki upp á val um hvort það sættir sig við auglýsingar eða borgi eitthvað smáræði fyrir að fá að blogga. Auglýsingar á bloggsíðum gætu líka vel verið minna áberandi en þessi andskoti. En eins og bent hefur verið á er ekki mikill vandi að losna við þetta ef maður vill.

Kannski hætta einhverjir ágætir bloggarar og þá verður bara að hafa það. Þeir einu af mínum bloggvinum sem mér er kunnugt um að hafi hótað að hætta út af þessu eru Sigurður Þór Guðjónsson og Guðbjörg Hildur Kolbeins. Vissulega kem ég til með að sakna skrifa þeirra ef sú verður raunin að þau hætti. Kannski hætta Moggabloggsmenn líka þessum auglýsingabirtingum.

Á 123.is borgar maður 2900 krónur á ári og getur bloggað að vild og þar að auki birt eins mikið af myndum og allskyns dóti eins og mann lystir. Þarf þó held ég að borga viðbót ef maður fer yfir gigabæt á ári. Og svo er maður með öllu laus við allt auglýsingafár. Gallinn er kannski helst sá að líklega kíkja fleiri á Moggabloggið en 123.is


246. - Enn um Robert James Fischer

Sjónvarpsmaðurinn góðkunni Dick Cavett skrifaði nýlega ágæta grein um Robert James Fischer í The New York Times.

Ég ætla að prófa að linka hér í þá grein. Vel getur verið að það mistakist og þá er rétt að láta þess getið að þetta er í blaðinu sem dagsett var þann 10. febrúar s.l.

Tilgáta hans um að það hafi verið snilldin og frægðin ásamt ungum aldri sem varð meistaranum að falli er allrar athygli verð. Cavett segir á einum stað í grein sinni:  „No one under 30 should be subjected to fame." Þetta er nokkuð vel sagt hjá honum. Og þegar við blönduna bætist heimsmeistaratitill, sigrar og peningar er þetta eiginlega orðið stórhættulegt. Gyðingahatur meistarans segir hann líka að hafi verið einskonar sjálfshatur og er það ekki verri kenning en hver önnur.

Ég hef nokkrum sinnum skrifað um Fischer að undanförnu og hneykslast dálítið á skrifum fornleifafræðingsins Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar um þessi mál. Mér finnst að deilur um arf eftir Fischer komi meistaranum ósköp lítið við og að óviðkomandi menn með mjög takmarkaða þekkingu á þessu öllu skuli vaða uppi með svigurmælum um Fischer og greftrun hans er beinlínis óviðeigandi.

Látum vera þó sneplar eins og DV séu að velta sér uppúr þessu máli. Það er þeim líkt og aðrir þurfa ekki að apa eftir þeim. Vel getur verið að Fischer hafi átt dóttur. Það getur líka vel verið og er meira að segja mjög líklegt að hann hafi verið giftur samkvæmt íslenskum lögum. Japönsk lög eða Bandarísk skipta engu máli í þessu sambandi.

Ef einhverjir vondir menn eru að reyna að hafa af dóttur Fischers lögmætan arf er það verkefni fyrir lögfræðinga og dómstóla að skera úr um það mál. Ég get ekki séð að Vilhjálmur fornleifafræðingur sé neinn úrskurðaraðili í því máli.

Fáum blandast hugur um að Fischer hafi verið orðinn talsvert bilaður á sínum efri árum, en hvað með það? Má hann ekki truflast á geði eins og annað fólk? Hvurslangs læti eru þetta? Af hverju þurfa fjölmiðlar alltaf að lepja upp það neikvæðasta sem þeir geta fundið?

Fischer var einfaldlega snillingur og enginn getur tekið það frá honum. Hann var líka einn af fáum mönnum sem boðið hafa Bandaríkjastjórn byrginn. Flestir einstaklingar beygja sig og bugta fyrir slíku valdi.


245. - Skelfing eru þessir Villa Villar margir. Ég er bara orðinn hálfruglaður á þessu öllu saman

Ég talaði um það minnir mig á mínu bloggi strax eftir Kastljósviðtalið að Vilhjálmur Þ. væri búinn að vera pólitískt. Fleiri virðast vera á þeirri skoðun og ég lít svo á að þeir séu að taka undir mitt sjónarmið þó eflaust hafi engir þeirra lesið bloggið mitt. Þeim hefði þó verið nær að gera það.

Einkennilegt er að Kjartan Magnússon skuli ennþá styðja Vilhjálm, en ekki nema eðlilegt að Gísli Marteinn og Hann Birna skuli forðast að segja nokkuð meðan úrslit mála eru enn óljós. Það verður þó varla seinna en á mánudaginn sem Vilhjálmur verður látinn hætta með öllu við að verða borgarstjóri aftur og allt eins líklegt að hann hætti líka sem borgarfulltrúi. Svona er pólitíkin bara.

Skemmtileg er sú kenning að Geir eigi erfitt með að flæma Villa í burtu vegna þess að þeir séu gamlir vinir. Og að Geir, Villi og Gulli séu helstu frammámennirnir í þeirri klíku sjálfgræðisflokksins sem þar hefur völdin um þessar mundir. Samkvæmt því hafi Davíð alltaf staðið á móti frama Vilhjálms enda komst hann ekki til verulegra áhrifa fyrr en Davíð var búinn að yfirgefa sviðið.

Óveðrið sem gekk yfir í gærkvöldi (föstudagskvöld) var talsvert, en þó ekki eins og ég man eftir verstu veðrum á Snæfellsnesinu. Það versta var held ég þegar ég fauk og fingurbrotnaði og svo nátturlega Aðfangadagsbylurinn mikli þegar rúturnar sneru við á Mýrunum. Snjórinn var líka oft miklu meiri á Vegamótum og ég man vel eftir því að stundum fóru húsin niðurfrá alveg á kaf. Gamla húsið frá Skógarnesi stóð þó alltaf uppúr enda var það meira en tvær hæðir.

Skrif mín eru því miður alltaf að verða pólitískari og pólitískari. Mér finnst eins og Nóbelsskáldinu að pólitíkin sér bara ekkert betri en þessi árans rjómatík. Tíkur og ismar eru ekki minn tepoki. Maður getur samt ekki orða bundist yfir þeirri mögnuðu vitleysu sem viðgengst í borgarstjórn Reykjavíkur. Einu sinni hélt maður að Gunnar Birgisson væri svolítið klikkaður og framkvæmdaglaður úr hófi fram. Nú finnst manni hann bara koma nokkuð vel út í samanburði við kollega sína norðan læks.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband