903 - Rjúpnaveiðar

Ég er ekki mikill veiðimaður. Allra síst skotveiðimaður. Reyndi slíkt samt einu sinni fyrir margt löngu. Þá var ég útibússtjóri í Kaupfélagi Árnesinga í Hveragerði. Keypti mér 22 calibera riffil og fékk byssuleyfi. Til að fá það leyfi þurfti ég læknisvottorð og lítið annað. Magnús læknir var fljótur að afgreiða það og sagði bara: „Já, enmitt. Þú sérð vel og heyrir vel er það ekki?" Skrifaði svo vottorðið og með það fór ég á sýsluskrifstofuna á Selfossi og þar með var það búið.

Þá var að ná sér í rjúpurnar. Einhverjir héldu því fram að betra væri að nota haglabyssur en riffla í rjúpnaskytterí en ég komst fljótt að því að riffillinn hentaði ágætlega því ef maður gætti þess að skjóta frekar ofan við þær en neðan við, þá flugu þær ekki alltaf upp og þá gat maður bara skotið aftur. Jafnvel aftur og aftur.

Var einn þegar ég fór fyrst. Þá fór ég upp í Reykjafjall og gekk hörmulega að hitta kvikindin þó ég passaði mig á að skjóta frekar yfir þær en undir. Held ég hafi enga hitt og komið rjúpulaus til baka.

Næsta ferð var með Mára Mikk. Hann var líka með riffil og slysaðist til að særa
eina rjúpu og náði henni á hlaupum. Kunni ekki að sálga henni og setti hausinn á henni með annarri hendinni fyrir framan byssuhlaupið og hleypti af.

Í þeirri ferð man ég eftir einni sem flaug ekki upp þegar ég skaut í námunda við hana heldur tók til fótanna og faldi sig á bak við stein. Ég var ekki viss en sýndist ég sjá eitthvað hvítt koma upp fyrir steininn. Skaut á það uppá von og óvon og aldrei þessu vant hitti ég beint í mark. Þetta var semsagt hausinn á rjúpunni sem tættist allur upp við þetta.

Eitt sinn man ég líka eftir mér með Herði mági ofarlega í Skálafelli (syðra) og þar hafði mér tekist að plaffa eina niður án þess að drepa hana alveg. Reyndi að snúa hana úr hálsliðnum en kunni það ekki. Sneri bara og sneri en ekkert gerðist. Hörður sýndi mér svo hvernig átti að gera og síðan kann ég að snúa rjúpu úr hálsliðnum þó aldrei hafi reynt á þá kunnáttu mína.

Þegar leið að jólum voru tvær rjúpur að velli lagðar og jólamaturinn klár. Þær voru svo hengdar upp með mikilli viðhöfn og étnar á jólunum. Síðan höfum við samt af einhverjum ástæðum ekki haft rjúpur í jólamatinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ætlaði alltaf að fá mér byssu og leyfi þegar ég var um tvítugt. er nú töttugu árum eldri og enn ekki fengið mér byssu.

veit ekki hvort ég gæti áorkað að taka líf annarrar lífveru. jú, ég hef drepið flugur.

annars hefur mér alltaf fundist riffill flottari en haglari. finst pínu svindl að getað bara plaffað höglum út í loftið og einhver þeirra hitta svo bráðina. finnst meira 'gentlemen's work' að nota riffil. Einn á móti einum og bara eitt skot og bráðin á þá betri séns.

Brjánn Guðjónsson, 22.12.2009 kl. 02:05

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sá að hann átti séns,
með Sigga heitnum Gräns,
á páfagauka plaffaði,
og pínulítið skaffaði.

Þorsteinn Briem, 22.12.2009 kl. 13:17

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Hef alltaf haft ýmugust á skotvopnum og skyttiríi og hef enn. Þar fyrir utan hef ég lítið dálæti á dauðum rjúpum en finnst þær fallegar þar sem þær eru pattaralegar í hvítum flokkum eins og gerist hér í mínu heimahverfi þessa dagana.

Einu sinni voru okkur gefnar fjórar rjúpur dauðar til að hafa í jólamatinn. Eftir að hafa geymt þær í frystikistunni í heilt ár voru þær öðrum gefnar sem sagðist hafa lyst á þeim.

Öðru sinni átti ég gulan fresskött heldur stóran. Eitt sinn á aðventunni kom hann til mín þar sem ég var að dútla úti við með nýveidda rjúpu í kjaftinum. Hann lagði hana fyrir mig heldur vandræðalegur en þegar ég hafði strokið honum og hrósað fyrir dugnaðinn og síðan lagt rjúpuhræið hér undir tré fór hann að því og át af því hausinn. Nokkrum dögum seinna fleygði ég afganginum af hræinu í ruslatunnuna.

Sigurður Hreiðar, 22.12.2009 kl. 14:21

4 identicon

Ég keypti mér 22 riffil á sínum tíma.. skaut bara á flöskur og annað í þeim dúr... var dregin í einhverja veiðitúra þar sem ég þóttist ekki hitta neitt,  kann ekki við að vera að plaffa á lifandi skepnur... fæ útrás fyrir slíku í tölvunni :)

DoctorE 22.12.2009 kl. 16:02

5 Smámynd: Sævar Helgason

Það er sama hvað maðurinn étur- einhver verður að aflífa það . Ég reyni að gera aðra sem minnst ábyrga fyrir minni fæðu og veiði mér til matar eins og hægt er. Þó verð ég að kaupa kjúklinga ,svína og lambakjöt frá sérstökum sláturhúsum sem sérhæfa sig að aflífa dýr fyrir fjöldann og snyrta líkamshlutana í girnilega bita - að vali hvers og eins. En á aðventunni verður rjúpan og hennar líf heilagara en annara dýra... skrýtið.

Sævar Helgason, 22.12.2009 kl. 22:14

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk allir. Ég skrifaði einhvern tíma blogg sem ég kallaði: "Sportveiðar eru morð", eða eitthvað þessháttar. Um þetta má margt segja. Þegar ég var ungur vildi ég gjarnan prófa allan þremilinn. Sumt átti alls ekki við mig. Þannig er t.d. með veiðar og allskyns vetrarsport. Fleira mætti eflaust telja ef ég hugsaði mig um.

Svara Steina kannski seinna. Plaffaði og skaffaði eru skemmtilega rímorð. Man þó ekki eftir Gränsanum sem hann talar um.

Komst ekki lengra með svarið núna en:

Steini Briem er staðfastur
stöðugt birtir vísur hér.

Sæmundur Bjarnason, 23.12.2009 kl. 00:35

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Skatan skelfilega
skorin er við trog.
Og ólyktin óskaplega
ilmar um Kópavog.

Sæmundur Bjarnason, 23.12.2009 kl. 01:29

8 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sjáðu Sæmi hvernig ég géri
sagði Hörður hróðugur
Lítinn háls úr liði snéri
löðurmennið blóðugur

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.12.2009 kl. 02:42

9 Smámynd: Þorsteinn Briem


Nafnið Sigurður Gräns hefur aldrei verið til hér, samkvæmt Íslendingabók.

Ættarnafnið Gräns er til í Svíþjóð og hérlendis er til ættarnafnið Gränz.

"Carl Ólafur Gränz bjó í húsinu Breiðabliki í Vestmannaeyjum. Breiðablik var fyrsta hús í Eyjum með vatnssalerni og sagt er að yfirsmiður hússins hafi harðneitað að hafa kamar inni í húsi og ekki látið sig fyrr en honum var leyft að smíða einnig útikamar við húsið.

Breiðablik kom talsvert við sögu í sjónvarpsþáttum Þráins Bertelssonar, Sigla himinfley, en húsið var sýnt sem heimili útgerðarmannsins í þeim þáttum."

Þorsteinn Briem, 23.12.2009 kl. 15:28

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Og aldrei hefur verið til hér nafnið Sigurður Gränz, samkvæmt Íslendingabók.

Gränz-ættin á grensunni,
gubbar öll í flensunni,
Baldur Siggu Benz unni,
en bilaður í lensunni.

Þorsteinn Briem, 23.12.2009 kl. 15:53

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alltaf er hann Steini stuð
stinnur eins og lítill guð.
Ekkert minnsta agnar puð
eru honum nöfn gúgluð.

Sæmundur Bjarnason, 23.12.2009 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband