875 - Hagar

Það ætlar að fara eins og mig grunaði. Haga-málið verður mál málanna. Rifist verður um það fyrir dómstólum næstu árin og úrslit þess eru engan vegin ljós. Ég vil ekki blanda mér um of í þau mál en bendi bara á að meðan Morgunblaðið og stjórnarandstaðan hamast gegn Jóni Ásgeiri hafa hinir auðmennirnir betri frið.

Fátt nýtt kemur fram um hrunsmál þessa dagana og er eins og allir bíði eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og reynt er að beina athygli allra að henni. Eflaust verður hún merkileg en ég hef enga trú á að hún verði einhver lokapunktur á þessum málum. Fremur verður hún upphafið að nýjum kafla.

Málfar í fjölmiðlum hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarið í tilefni af svokölluðum degi íslenskrar tungu. Ég er nokkuð ánægður með þá íslensku sem ég skrifa og eflaust eru flestir sem skrifa eitthvað að ráði ánægðir með sinn hlut. Vandséð er þó hvernig þeir sem verst skrifa komast að þeirri niðurstöðu. Líklega eru skrif þeirra aldrei gagnrýnd. Það er vissulega þörf á að gagnrýna málnotkun margra bloggara en samtök virðast vera um að gera það ekki heldur láta sniðgöngu nægja.

Fjölmiðlar þurfa þó mjög á gagnrýni að halda og sú gagnrýni sem til dæmis Eiður Guðnason heldur uppi er mjög mikilvæg. Margir agnúast út í smámunasemi hans og skapvonsku en það er óþarfi. Engin leið er að gagnrýna málfar fjölmiðla á jákvæðan hátt. Gagnrýni á málfar helstu fjölmiðla er mjög áberandi meðal bloggara og er það engin furða. Fjölmiðlar virðast hættir öllum prófarkalestri og málfar þar versnar stöðugt. Bloggarar verða því að taka upp þráðinn og þar er Eiður langbestur meðal Moggabloggara.

Því fer fjarri að ég skilji allar þær aðsóknartölur sem haldið er að okkur hér á Moggablogginu. Eitt af því sem ég er orðinn útfarinn í að fikta í á blogg-stjórnborðinu er hvort slíkar upplýsingar eru úti eða inni. Einnig að setja inn á bloggið mitt fjölda daga til jóla. Gleymdi reyndar að fjarlægja þær upplýsingar í tíma um síðustu jól.

Nú er ég búinn að finna nýja ástæðu til að hafa þessar upplýsingar útivið. Þar er talan um flettingar frá upphafi mun hærri. Nefnilega 380.658 í stað 304.277. Þarna er um talsverðan mun að ræða og rétt að auglýsa hann.

Horfði svolítið á þingfund í sjónvarpinu áðan. Athyglisvert hve flestir þingmenn nýta vel þann ræðutíma sem þeir hafa. Þó ekki sé nema um einfalda fyrirspurn að ræða sem vel væri hægt að bera fram á fáeinum sekúndum vanda þeir sig mikið við að tala sem mest í kringum hlutina svo ræðutíminn nýtist allur. Skömm að þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Höldum því til Haga,
hér þarf margt að laga,
segin er það Saga,
soldið allt til baga.

Þorsteinn Briem, 25.11.2009 kl. 15:34

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Umhverfið er lagalegt.
Löngum var það Hagalegt.
Þetta er alveg agalegt
og afskaplega bagalegt.

Sæmundur Bjarnason, 25.11.2009 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband