701 - Fircifrede logaritmetavler og tónleikar í Guðríðarkirkju

logaritmerAf einhverjum ástæðum hefur þessi bók fylgt mér allt síðan ég var á Bifröst í eldgamla daga. Í þá daga voru ekki til handhægar og ódýrar vasatölvur svo notast var við logaritmatöflur af þessu tagi. Í stuttu máli má segja að með því hafi þrælerfiðum margföldunar og deilingardæmum verið breytt í samlagningu og frádrátt. Þessi bók var mikið notuð og við lærðum að nota logritmatöflur, antilogaritmatöflur, vaxtatöflur og allt mögulegt. 

Þarna lærðum við allskyns verslunarreikning þó eflaust þætti hann ekki merkilegur nútildags. Mér er minnisstætt að við Kiddi á Hjarðarbóli vildum gjarnan setja dæmin upp öðruvísi en kennarinn. Við kunnum vel að setja einföld dæmi upp í jöfnu en kennarinn var ekki eins leikinn í því. Gallinn var sá að hann gaf aldrei rétt fyrir á prófum nema útkoman væri nákvæmlega sú sama og hans aðferðir sögðu til um.

Þetta fannst okkur Kidda ekki nógu sniðugt og vildum fá rétt fyrir dæmin ef skilningurinn væri réttur og rétt reiknað. Til fjandans með nákvæmnina. Auðvitað vann kennarinn því nemendur eru alltaf réttlausir.

Fögin sem við lærðum á Bifröst voru margskonar. Þar lærðum við t.d. að vélrita og ég bý að því enn í dag að kunna fingrasetningu. Einnig lærðum við Samvinnusögu, Menningarsögu, verslunarrétt (með z reyndar), ensku, dönsku, þýsku, ensk verslunarbréf, fundarsköp og fundarreglur, íslensku og eflaust eitthvað fleira. Vorum þarna í heimavist í tvo vetur og þóttumst súpergáfaðir eftir stritið. Þarna var ágætis bókasafn, félagslíf með miklum ágætum og í það heila skemmtilegt að vera.

Fór á tónleika seinni partinn í dag laugardag. Það geri ég ekki oft en þetta voru óvenjulegir tónleikar. Það var Landesjugend-Akkordeorchester Bayern sem hélt tónleika í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Já það var fræg harmónikkuhljómsveit frá Þýskalandi sem hélt þessa tónleika. Þeir voru frábærir. Það er með ólíkindum sá árangur sem hægt er að ná með einu hljóðfæri. Stjórnandinn Stefan Hippe var líka eftirminnilegur og tök hans á hljómsveitinni ótrúlega góð.

Einleikari með hljómsveitinni var Konstantin Ischenko og var hann frábær. Mikill listamaður með harmónikkuna og hef ég aldrei heyrt annað eins. Líklega hentar þessi kirkja, sem ég held að sé alveg ný, ágætlega til tónleikahalds.

Hljómsveitin heldur aðra tónleika á Ísafirði 2. júní næstkomandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú skilst mér að nemendur hafi ætíð rétt fyrir sér!

Athyglisvert sem þú skrifar um tónleikana.
Hér er krækja sem tengist efninu, þær er líka að finna
um Konstantin Ischenko.
http://www.ljao-rlp.de/
Þakka fyrir athyglisverðan pistil

Húsari. 31.5.2009 kl. 11:15

2 identicon

Af því þú nefndir Kristin Kristjánsson, þá mundi ég skyndilega eftir róðrarferð á Hreðavatn á fyrstu vikum minnar dvalar þar, haustið 1961. Okkur Gunna Hallgríms varð fljótlega vel til vina, líklega hefur það eitthvað haft með sameiginlegan bakgrunn að gera hvað varðaði allt sem fiski og fiskveiðum og - vinnslu sneri. Jæja, það voru þarna eins og þú manst á þeim árum tvær skektur niður á vatni, veit satt að segja ekki í hvers eigu þær voru, líklega hafa það verið einhverjir sumarbústaðaeigendur ellegar ábúendur að Hreðavatni sem áttu þær. Við vorum ekkert að velta fyrir okkur eignarrétti í því efni. Þeir Gunni og Kiddi höfðu ákveðið að skreppa í smá prufutúr á þessum "skuttogurum" og buðu mér með. Jú, það var þegið með þökkum og þegar lagt var í för var ágætis veður, en fór að kula af norðri fljótlega eftir að við komum svolítið suður á vatnið. Upphaflega hafði verið meiningin að fara vatnið á enda, en fljótlega varð töluverður öldugangur á vatninu og bæði var að það gaf á bátinn og svo lak hann nokkuð. Við höfðum hugsað okkur að skiptast á við að róa, en þegar þarna var komið sögu var ljóst að það þurfti að ausa líka. Það gekk heldur smátt að komast til baka ef einn reri, svo það varð niðurstaðan að við Gunni rerum báðir, hvor á sitt borðið, en Kiddi jós og hafði varla undan. Til að ausa var ekki beysið áhald, gömul blikkdós, sem var þess utan lek eins og báturinn. Við vorum blautir og kaldir þegar við náðum loks landi og útivistartíminn liðinn og gott betur. Held að það hafi verið komið langt fram í þann tíma sem okkur var ætlaður til undirbúnings undir næsta dag. Ég held að Kristni hafi ekki litist á að endurtaka svona ferð.  

Ellismellur 2.6.2009 kl. 07:14

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fín saga. Má ég ekki birta hana einhverntíma á blogginu minu? Ég hef einatt áhyggjur af því að seint til komnar athugasemdir lesist oft af afar fáum. Bloggarinn sjálfur sér þær þó auðvitað alltaf.

Sæmundur Bjarnason, 2.6.2009 kl. 15:21

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Og húsari. Já, þessir tónleikar voru alveg sér á parti. Ég er bara svon ótónfróður að ég get ekki gert þeim þau skil sem vert væri.

Sæmundur Bjarnason, 2.6.2009 kl. 15:24

5 identicon

Er ekki nóg að þeir lesi, sem fara í kommentin á annað borð?

Ellismellur 3.6.2009 kl. 12:58

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ellismellur: Eiginlega ekki. Svo er ég líka orðinn fastur í því feni að þurfa að blogga á hverjum degi hvort sem ég hef eitthvað að segja eða ekki. Fínt að fá Hreðavatnssöguna frá þér. Þeir sem lesa boggið mitt hafa sumir sérstakakan áhuga á gömlu dögunum á Bifröst.

Sæmundur Bjarnason, 3.6.2009 kl. 15:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband