693- Málfar og fleira í Hveragerði í gamla daga

„Mig stansar á" sagði mamma oft þegar hún varð mikið hissa. Við Ingibjörg systir gerðum mikið grín að þessu og þótti afspyrnuvitlaust. Svo var þó ekki. Mamma talaði líka oft um „kvitteringar". Mér þótti eðlilegara að tala um kvittanir en hitt er víst danska. Mamma bað okkur líka oft um að hætta að mævængja og stígstappa þetta ef henni þótti við vera fyrir. 

Af einhverjum ástæðum set ég þessi orð bæði alltaf í samhengi við bakstur í kolaeldavélinni í gamla skúrnum okkar sem sennilega var víst upphaflega fjós. Að minnsta kosti var norðurendinn þannig að vel var hægt að trúa því að þar hefði belja (eða jafnvel tvær) haldið einhverntíma til. Í suðurendanum man ég vel eftir að eitt sinn voru hænsni. Þegar eggjahljóð, sem pabbi kallaði svo, kom í hænurnar voru þær settar í strigapoka og hengdar upp í loft. Hversvegna vissi ég aldrei.

Það var gaman að tína arfa og allskyns gróður og gefa hænunum. Eitthvað var víst um hana líka en ég man lítið eftir þeim. Þó held ég að það hafi verið hani sem flaug hauslaus út að ruslatunnu sem var talsverður spotti. Hænur voru ekki étnar á þessum tíma heldur fór skrokkurinn af þeim í ruslið.

Bestur þótti hænunum venjulegur haugarfi og þessvegna reyndum við jafnan að finna hann. Gengum þó ekki svo langt að reita arfa með skipulögðum hætti úr kartöflugarðinum. Pabbi jós því tröllamjöli á hann og það þoldi arfinn ekki. Seinna reis svo húsið hans Aage að hluta til í kartöflugarðinum okkar og skúrinn þurfti á endanum að rífa. Fyrst suðurendann sem var víst á lóðinni hans Aage og löngu seinna norðurendann.

Af hverju er ég að rifja þetta upp? Hef ekki hugmynd um það. Sennilega muna samt fáir orðið eftir þessu. Oft þegar ég er að skrifa eitthvað um Hveragerði í gamla daga þá vantar mig að spyrja þær Ingibjörgu og Sigrúnu um ýmislegt. Þegar ég hitti þær svo man ég auðvitað ekkert eftir því.

Ég man eftir ýmsu frá Hveragerði í gamla daga. Bjarni á Bóli rak kýrnar sínar á hverjum degi framhjá Bláfelli og niður í móa hjá réttunum. Við krakkarnir fengum stundum að hjálpa honum við það. Eiríkur og Sigga á hótelinu settu karbít í gufuholuna hjá símstöðinni fyrir ferðafólk sem tvístraðist í allar áttir þegar gufan kom upp með miklum krafti og undirgangi. Væri vindáttin óhagstæð bölvaði mamma Siggu í sand og ösku ef þvotturinn á snúrunum blotnaði í gufunni.

Hulda á Mel sat oft lengi í eldhúsinu hjá mömmu og fór oftast ekki fyrr en í fulla hnefana því mamma gat hæglega tekið til mat og annað og látið dæluna ganga á meðan. Já og Sigga á símstöðinni þurfti stundum að líða fyrir það að ryðgaði tankurinn var rétt fyrir utan stöðina og okkur þótti gaman að lemja í hann og skapa þannig hávaða.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gaman að lesa svona órímað saknaðarljóð og víst eru margar Snorrabúðirnar stekkir nú til dags.

Hins vegar get ég frætt þig ofurlítið: Þegar „eggjahljóð“ kom í hænurnar var það til marks um að nú vildu þær fara að liggja á eggjum sínum og unga þeim út. Hjá þeim hænum sem ekki bjuggu við hana voru eggin ófrjó og því var ástundun þeirra við að liggja á þeim í tiltekinn dagafjölda sem skráður er í prógram hænunnar -- er það 21 dagur? (Svona gleymir maður!) Hitt var þó verra frá sjónarmiði hænsnabóndans að hæna sem liggur á verpir ekki -- skilar sem sagt engu eggi þann tíma. Hins vegar þótti þjóðráð að setja þær í einangrun og svelti svo sem þrjá sólarhringa, þá höfðu þær lagt af alla drauma um fjölgun og tóku aftur til óspilltra málanna að verpa. Ég man aðeins eftir því að þær væru settar í poka og pokinn hengdur upp -- lengst af þótti þá allt eins hentugt að hvolfa yfir þær tunnu.

Sigurður Hreiðar, 23.5.2009 kl. 12:32

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Sigurður. Ég vissi að þetta stóð í einhverju sambandi við hænsnakynlíf en hafði ekki velt því sérstaklega fyrir mér. Hafði heldur engar sérstakar áhyggjur af þessum hænum. Pabbi stjórnaði því sem þurfti að stjórna og við krakkarnir vorum bara að leika okkur. Þetta var fyrir mín hvolpavitsár.

Sæmundur Bjarnason, 23.5.2009 kl. 15:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband