665- Meðvituð breikkun á raskati. - Í tilefni dagsins er ekkert um pólitík

Það hefur sennilega verið nálægt miðjum sjöunda áratug síðstu aldar að ég vann hjá Heildverslun Hannesar Þorsteinssonar sem þá var til húsa að Hallveigarstíg 10. Einhverju sinni átti ég erindi að Lundi við Nýbýlaveg í Kópavogi. Geir minnir mig að bóndinn þar hafi heitað. Ég get ómögulega munað hvert erindið var en á borði þar inni var nýlegt eintak af Lesbók Morgunblaðsins. 

Í þessu eintaki Lesbókarinnar var annaðhvort á forsíðu eða baksíðu ljóð eftir Dag Sigurðarson sem hét „Meðvituð breikkun á raskati." Mér er sérstaklega minnisstætt að síðasta orðið var einmitt skrifað svona. Geir bóndi var að sýna mönnum sem þarna voru þetta kvæði og úthrópa það sem mikið bull og að það bæri ónáttúru höfundar ljóslega vitni.

Ljóðið fjallar ef ég man rétt um fínan mann sem er dálítið feitlaginn og fær sér amerískan kagga til að hafa sæmilega rúmt um sig við akstur í borginni. Mér er hulin ráðgáta hvers vegna ég man svona vel eftir þessu. Nafnið á ljóðinu hlýtur eiginlega að vera skýringin og svo aðdáun á Degi.

Einu sinni átti ég heima að Lynghaga 17. Leigði í kjallaranum hjá Herði Hjálmarssyni. Kosningadag einn þegar ég bjó þar hitti ég Helga Haraldsson á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi (HHHH) úti á strætóstoppi. Hann sagði mér í óspurðum fréttum að þetta væri í fyrsta sinn sem hann væri í Reykjavík á kjördag og fílósóferaði eitthvað um veðrið. Minnistæðast er mér þetta vegna þess að Helgi var nokkuð áberandi í þjóðlífinu á þessum tíma.

Horfði á upptöku af Kiljunni í gærkvöldi. Þar rifust Kolbrún Bergþórs og Páll Baldvin um Agöthu Christie. Í gamla daga þótti mér Ellery Queen betri en Agatha Christie man ég. Samt eru nokkrar góðar persónur sem Agatha hefur skapað.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

X S ef þú vilt tryggja aðildarumsókn að Evrópusambandinu þannig að þjóðin geti tekið afstöðu.

Verði Samfylking og Vinstri græn ámóta stór gerist ekkert. Líklegasta niðurstaðan verður þá samstjórn VG, Sjalla og Framsóknar í kring um næstu áramót.

Sverrir 25.4.2009 kl. 07:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband