585. - Farið aftur í pólitísku skotgrafirnar sem sumir höfðu álpast uppúr

Nú eru flestir, bæði bloggarar og aðrir, á hraðri leið í pólitísku skotgrafirnar. Bankahrunið lendir að mestu leyti hjá pólitíkinni eins og alltaf var líklegast. Þó er meiri áhugi nú en oft áður á raunverulegum umbótum á stjórnarfari og kosningafyrirkomulagi. Ef til vill er fyrst núna að skapast grundvöllur fyrir margar af hugmyndum Vilmundar Gylfasonar. Hæpið er þó að nokkuð af þeim komist til framkvæmda. Flokkarnir sjá um sína.

Má ekki vera að því að flækjast á málfundum. Hef verk að vinna. Sagði Ingibjörg Sólrún á Bessastöðum. Gott hjá henni. Steingrímur eins og hver annar kjölturakki.

Neyðarlegt ef neyðarstjórn kvenna vill nýta sinn neyðarrétt til að koma í veg fyrir að Jóhanna verði forsætis.

Ábyrgðarleysið er ágætt. Mér finnst ég ekki bera ábyrgð á neinu. Ekki þarf ég að axla ábyrgð vegna bankahrunsins. Ekki þarf ég að passa mig á að tala ekki af mér á blogginu. Systkini mín taka af mér ómakið við að muna eftir stórafmælum í fjölskyldunni. Konan mín sér um jólagjafirnar og jólakortin. Já, ég ber eiginlega ekki ábyrgð á neinu lengur og get því gasprað hér eins og mér sýnist.

Nú fer að styttast í að ég verði löggilt gamalmenni og hætti að vinna. Þá verður líklega enginn friður fyrir mér hér á blogginu. Veð um allt með kommentum og alls kyns væli. Fer jafnvel að linka í mbl.is fréttir. Svo getur verið að bloggið sé bara della sem rennur af mér einn góðan veðurdag. Hvað ætti ég þá að taka mér fyrir hendur? Jú, það er ein önnur della sem ég hef um þessar mundir. Mér líður illa ef ég er ekki að tefla svona 30 til 50 bréfskákir á hverjum tíma. Þetta er svo auðvelt og einfalt á Netinu að það tekur engu tali. Svo er mér næstum orðið sama hvort ég tapa eða vinn.

Ég er búinn að blogga svo lengi að ég er alveg orðinn ruglaður í því varðandi endurminningar hvað ég er búinn að blogga um. Kannski væri réttast að fara að skoða gömul blogg. Svo á ég líka einhvers staðar gamlar dagbækur.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrst stjórnarskiptin eru afleiðing grjótkasts, og grjótkastararnir komnir með þá stjórn sem þeir vildu, liggur þá ekki beint við að nefna nýju stjórnina Grjótkastarastjórnina?

ásdís 28.1.2009 kl. 02:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband