581. - Búsáhaldabyltingin heldur áfram

Fór á Austurvöll í dag. Vor í lofti. Á leiðinni var samt kaldur næðingur en skjól og fínt veður á vellinum sjálfum. Hef ekki séð annan eins fjölda fólks þar á mótmælafundi áður. Ræðurnar voru góðar. Sú besta síðast. Guðmundur Andri var verulega góður. 

Það er vandratað meðalhófið og ómögulegt að segja hvernig mál þróast hér næstu vikurnar. Nú fyrst hefur maður á tilfinningunni að farið sé að hlusta á mótmælendur. Þó hávaði sé í lagi mæli ég ekki grjótkasti né piparúða bót. Von er til þess að ástandið fari batnandi.

Mér finnst gott að svona margir hafi mætt á mótmælin í dag. Ummæli Harðar Torfasonar um Geir Haarde voru óheppileg. Þeir sem eru á móti þessum samkomum reyndu eftir mætti að ófrægja Hörð fyrir þetta og fá sem flesta til að hætta við að mæta. Það tókst ekki.

Ég man þá tíð að fjölmiðlar allir hér á landi studdu Ísraela í baráttu þeirra við vonda múslima. Nú styðja allir fjölmiðlar aumingja Palestínumennina og er það að vonum. Ferðamálafrömuður einn opnaði augu margra fyrir því að Palestínumenn kynnu að hafa eitthvað til síns máls í gagnrýni sinni á Ísraela. Þá flutti hann útvarpserindi sem margir tóku eftir. Kannski var þetta í upphafi sex daga stríðsins eða einhvers annars stríðs. Fram að þeim tíma höfðu fjölmiðlar hér á landi ávallt tekið málstað Ísraela.

Svona breytast viðmiðin. Davíð Ben Guríon kom hingað í heimsókn einhverju sinni og sagði eitthvað ljótt um Jesú Krist og allt ætlaði vitlaust að verða. Á þessum tíma þótti plakat eitt af Goldu Meir rosalega fyndið. Þar stóð uppá ensku: "Yes, but can she type?"

Að einhverju leyti held ég að ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs sé bæði Palestínumönnum og Ísraelum að kenna. Hegðun Ísraela á Gasa-svæðinu núna er þó ekki í neinu samræmi við tilefnið. Ekki ætla ég mér þá dul að segja til um hvernig á að leysa þetta mál. Það er alltof einfalt að skipa sér bara í aðra fylkinguna og gera hróp að þeim sem eru á annarri skoðun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Sammála þér.... Guðmundur Andri var alveg magnaður.  Sá þig ekki. 

Anna Einarsdóttir, 25.1.2009 kl. 11:59

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sammála með GA - og sá þig ekki heldur! Og ekki Önnu og ekki Hrönn og ekki svo marga...

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.1.2009 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband