552. - Um verðtryggingu og fleira. Jólasaga kemur kannski seinna

Á margan hátt er verðtrygging húsnæðislána að verða mál málanna. Þegar verðbólgan æðir áfram hækka húsnæðislánin. Verðtryggingin átti sennilega rétt á sér á sínum tíma og á kannski enn að einhverju leyti. Augljóslega er hún þó vitlaust reiknuð. Margt er inni í vísitölugrunninum sem ekki ætti að vera þar. Kannanir hagstofunnar á verðlagi eru heldur ekki yfir gagnrýni hafnar. 

Gefi menn sér hve miklir vextir séu og verðbólga getur vel verið að hægt sé að reikna dæmið verðtryggingunni í hag. Hins vegar er hún greinilega til bölvunar að því leyti sem hún er verðbólguhvetjandi.

Óðaverðbólgan sem hér var viðvarandi áður fyrr var kveðin niður á endanum með þjóðarsáttinni svonefndu. Í rauninni viðurkenndu launþegar þar að stöðugleiki væri æskilegur og tóku á sig byrðar til að ná honum. Nú er stöðugleikinn rokinn út í veður og vind og verðbólgan hægir líklega ekki á sér nema krónunni verði komið fyrir kattarnef og ýmislegt fleira gert. Þjóðarsátt með gamla laginu er varla í myndinni.

Annars er ég orðinn hundleiður á að skrifa um bankahrunið og svo eru margir aðrir mun betur til þess fallnir en ég.

Yfirleitt er ekki mjög slæmt veður um jól. Þó man ég eftir einni mikilli bylgusu sem kom einmitt á aðfangadag. Þetta hefur líklega verið árið 1974. Þá bjó ég á Vegamótum á sunnanverðu Snæfellsnesi og það gerði aftakaveður seinni partinn á aðfangadag.

Nú er morgunn aðfangadags og veðrið heldur hryssingslegt hér í Kópavogi. Rok og rigning en ég held að spáð sé að það lagist. Söguna um Aðfangadagsbylinn mikla reyni ég kannski að rifja upp um jólin. Hef ekki tíma til þess núna.

Gleðileg jól.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Bíð spenntur eftir sögunni um Aðfangadagsbylinn mikla. Gleðileg jól.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.12.2008 kl. 11:48

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Gleðileg Jól Sæmi

Óskar Þorkelsson, 24.12.2008 kl. 12:39

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Gleðileg jólahátíð Sæmundur, Áslaug, Bjarni, Benni, Hafdís og fjölskyldur.

Betri eru bloggsamskipti en engin samskipti.  Takk fyrir þau. 

Anna Einarsdóttir, 24.12.2008 kl. 14:23

4 Smámynd: Egill Jóhannsson

Ég óska þér gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári.

Egill Jóhannsson, 24.12.2008 kl. 15:30

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gleðileg jól Sæmundur.

Þú átt endilega að skrifa áfram um verðtrygginguna og bankahrunið. Ég er hreinlega ósammála þér að þú sért eitthvað verr til þess fallinn að skrifa um bankahrunið en aðrir. Þú ert skynsamur maður - þótt við séum nú sjaldan sammála - og átt rétt á að tjá skoðanir þínir líkt og aðrir.

Ég er heldur enginn sérfræðingur um bankahrunið, verðtrygginguna eða efnahagsmála, en hef samt skoðanir á öllum þessum hlutum og vil koma þeim á framfæri. Ég held að ofdýrkun sú sem átt hefur sér stað undanfarin ár eigi alltaf rétt á sér.

Ég er búinn að vera í ýmsu námi allt frá því að ég lauk grunnskólaprófi og fór Verslunarskólann. Námið í tónlist, ferðamálum, tollvarðfræðum og síðan nám mitt háskólanum í þýsku og nú síðast í meistaranámi í stjórnsýslu var hið besta og þroskaði mig vonandi eitthvað.

Best hefur mér nú samt allt reynst brjóstvitið og það lærði ég nú ekki í skóla. Af brjóstvitinu er fólki mjög mismikið gefið í vöggugjöf og fer það alls ekki eftir hversu löng skólaganga viðkomandi er! Stundum hefur of mikil menntun meira að segja að mínu mati skaðað brjóstvit fólks! Ofmenntað fólk missir nefnilega stundum sjónar á kjarna málsins og flækist stanslaust í aukaatriðum og á erfitt með að komast að niðurstöðu.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 25.12.2008 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband