528. - Enn um icesave, Moggann og aðrar náttúruhamfarir

Undanfarið hefur mín heimasíða á Netinu verið mbl.is. Nú er ég búinn að skipta og setja google.com í staðinn. Ástæðan er sú að það gengur stundum illa að ná sambandi við mbl.is og það tefur mig dálítið. Einkum er þetta áberandi á kvöldin og ég er ekki frá því að breytingin sé til bóta. Ekki hef ég haft saemi7.blog.is sem mína heimasíðu á Netinu enda held ég að það sé óþarfi.

Undanfarið hefur verið í fréttum að Mogginn sé að fara á hausinn. Ekki er það gott og hreint afleitt þegar fyrirtæki geta ekki borgað starfsfólki sínu umsamin laun. Ef tölvukerfið þeirra er nú að fara á hliðina líka útaf fjárskorti líst mér illa á það. Verð að viðurkenna að sem Moggabloggara líst mér jafnvel verr á það en hið fyrrnefnda. Fjölyrði ekki meira um þetta núna en kannski verður ástæða til að gera það seinna. Vonandi þó ekki.

Var að lesa tilkynningu um áhugaverða grein eftir Stíg Helgason á Vefritinu. Veit ekki hvort ég nenni að lesa greinina sjálfa en í kynningunni er sagt frá tilkynningu ríkisstjórnarinnar um að tryggja bankainnistæður allra Íslendinga sem gefin var í upphafi bankakreppunnar.

Eftir því sem harðnaði á dalnum í icesave málinu varð mér æ oftar hugsað til þess hvort það hafi ekki verið enn ein vitleysan hjá stjórnvöldum að tilkynna þetta. Öll mistök eru samt að einhverju leyti eðlileg og ég veit ekki hverjir það eru sem eiga umtalsverðar innistæður á sparisjóðsreikningum. Ekki er það ég og mínir líkar sem vöndust á það á verðbólguárunum að eyða hverri krónu að minnsta kosti strax og hennar var aflað. Helst fyrr.

Kjör flestra Íslendinga rýrna áreiðanlega talsvert vegna gengisfalls og verðbólgu á næstunni. Ef ekki hefði verið tilkynnt að tryggja ætti allar innistæður Íslendinga í bönkum upp í topp hefði kannski verið hægt að sleppa skár frá icesave málinu og verðbólga og gengisfall ef til vill ekki orðið til eins mikils skaða. Bara að spögúlera.

Ég er með antipata á langlokum á blogginu. Ef blogglokur eru ógnarlangar og eftir Sigurð Þór Guðjónsson les ég þær samt. Sú nýjasta eftir hann er um sjálfsvíg og ég er beinlínis farinn að halda að hann íhugi slíkt sjálfum sér til handa. Ekki get ég talið honum hughvarf í því efni en vona bara að hann haldi áfram með blogglokurnar sínar. Veðurmas hans les ég þó á harðahlaupum og mjög illa. Sigurður mælir líka með fésbókinni. Athuga það.

Þessa vísu dreymdi mig áðan að Davíð færi með og hefði á sér ógeðslegt glott við það. (Líklega var það Steingrímur Helgason sem inspíreraði mig.)

Fánýtt mal um allt sem er.
Öllu skal ég ljúga að þér.
Ef ég næ í úldið smér
úða skal því út frá mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Mbl.is má bara alls ekki fara á hausinn...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 30.11.2008 kl. 17:46

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mín kennig er sú að menn eigi að hengja sig kvölds og morgna en una glaðir við sitt þess á milli.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.12.2008 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband