492. - Eru Íslendingar einhverju bættari þó einn ráðherraræfill verði rekinn?

Skiljanlega reynir breski fjármálaráðherrann að verjast eftir mætti en verður eflaust í síðasta lagi setur af í næstu uppstokkun bresku ríkisstjórnarinnar. Viðureign okkar við Breta er þó einkum PR styrjöld og snýst um ímynd Íslendinga og orðspor ásamt því hvað valdamenn bæði breskir og aðrir telja sér óhætt að gera okkur án þess að skaðast sjálfir. Brottrekstrar ráðherra og hugsanleg málaferli skipta mun minna máli í raun.

Horfði áðan á upptöku af Silfri Egils frá í gær. Ýmislegt áhugavert koma þar fram. Viðtalið við þann sem stýrir penna á vald.org en ég man ómögulega hvað heitir var upplýsandi og studdi á vissan hátt það sem ég hélt fram á mínu bloggi um daginn. Ehemm. Þar sagði ég eitthvað á þá leið að bankaævintýrið allt saman bæði hér á Íslandi og annars staðar væri einn risastór svindlpíramídi.

Guðmundur Magnússon talaði um Nýja Ísland ( bókina sína ) og þar var margt áhugavert. Fyrir mér hófst hrunadansinn (svona eftirá séð) þegar ég hætti hjá Kaupfélaginu í Borgarnesi og tók til starfa hjá Stöð 2 árið 1986. Mér er minnisstæð sú bjartsýni og fyrirhyggjuleysi sem gegnsýrði þjóðfélagið á þeim tíma.

Allt var þetta samt sjálfsagt og eðlilegt. Það var bara ég sem var svona afturhaldssamur og forpokaður. Á þessum tíma og í mörg ár eftir það var alls ekki hægt að sjá að hið nýja Ísland mundi nokkurntíma hrynja. Þeir sem eru súpergáfaðir segja þó núna að öllum hefði átt að vera orðið það ljóst í síðasta lagi árið 2007 að allt væri að fara til fjandans.

Nýfrjálshyggjan tröllreið öllu. Allt átti að vera frjálst. Ekkert mátti banna. Allt þetta gamla sem reynst hafði okkur sæmilega var nú orðið ómögulegt og úr sér gengið. En svo bregðast krosstré sem önnur tré og nú er frjálshyggjan eins og við þekktum hana farin sömu leið og kommúnisminn.

Með tímanum aðskiljast sauðir og hafrar bæði hér á Moggablogginu og annars staðar. Að ég skyldi lenda meðal hafranna var á sínum tíma dálítið óvænt og ekki hafragrautnum að þakka sem ég útbý mér stundum í örbylgjuofninum. Nú er bara að láta ekki deigan síga og reyna að halda sér í hafraflokknum. Mér hefur lengi fundist að besta ráðið til þess sé að blogga daglega og helst hæfilega mikið í einu. Þetta er yfirleitt ekki erfitt og oft fljótlegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband