488. - Út og suður með Gísla Einarssyni eða Friðriki Páli Jónssyni

Sjónvarpsþættirnir hans Gísla eru ágætir og viðmælendur hans yfirleitt mjög áhugaverðir en ég ætlaði að fjalla hér um bók með þessu nafni sem út kom árið 1983. Útgefandi var Svart á hvítu.

Í þessari bók eru 20 ferðaþættir og hún er tekin saman af Friðriki Páli Jónssyni. Ein er sú frásögn í þessari bók sem ætið hefur heillað mig mjög. Það er frásögn Guðmundar Arnlaugssonar rektors við Hamrahlíðarskóla af ferð skáklandsliðsins íslenska til Buenos Aires í Argentínu á Ólympíuskákmótið sem þar var haldið árið 1939.

Bestu skákmenn landsins á þessum tíma voru Baldur Möller, Ásmundur Ásgeirsson, Eggert Gilfer, Einar Þorvaldsson og Jón Guðmundsson. Eggert Gilfer gat ekki farið í þessa ferð og Guðmundur Arnlaugsson var fenginn í hans stað. Hann var þá við nám í Kaupmannahöfn og hafði staðið sig mjög vel þar í skák meðan á náminu stóð en lítið teflt heima á Íslandi. Honum stóð til boða að tefla fyrir hönd Dana en auðvitað vildi hann frekar tefla fyrir Ísland.

Argentínska skáksambandið bauð öllum þátttakendum frá Evrópu fríar ferðir frá Antwerpen og uppihald meðan á mótinu stæði. Þetta var mikið kostaboð og notfærðu sér það margir.

Ekki var flugferðum fyrir að fara á þessum tíma og komst íslenska skáklandsliðið með fragtskipi til Antwerpen. Þar fluttu þeir sig yfir í stórt og glæsilegt farþegaskip sem sigldi með þá til Buenos Aires.

Keppendur á þessu móti voru frá 27 löndum. Í forkeppninni var teflt í fjórum riðlum og efstu þjóðir þar tefldu síðan í A-flokki en hinar í B-flokki. Íslendingar lentu í B-flokki eftir harða rimmu við Dani sem komust í A-flokk og urðu þar neðstir. Til að gera langa sögu stutta þá sigruðu Íslendingar í B-flokki og hlutu að launum bikarinn fagra sem nefndur er Copa Argentina og enn er til á Íslandi. Verðlaun fyrir sigur í A-flokki voru farandgripur sem kenndur er við Hamilton Russell.

Íslendingarnir byrjuðu vel, slökuðu síðan svolítið á og í síðustu umferðinni tefldu þeir við Kanadamenn sem voru þá með einn vinning umfram þá og í efsta sæti. Ísland vann Kanada með 2,5 gegn 1.5 í síðustu umferðinni og þar með voru þjóðirnar jafnar í efsta sæti en Íslendingum dæmdur sigurinn því þeir höfðu unnið Kanadamenn.

Jón Guðmundsson vann allar sínar skákir í keppninni tíu að tölu og fékk verðlaun fyrir. Guðmundur stóð sig líka mjög vel og fékk verðlaun fyrir sína frammistöðu.

Heimsstyrjöldin síðari braust út meðan á mótinu stóð og heimferð skákmannanna varð mjög ævintýraleg en ekki er tækifæri til að rekja það hér.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband