464, - Blogghugleiðingar enn og aftur. Svolítið um málfar líka

Það er ósköp auðvelt að hafa allt á hornum sér. Greinilega er allt að fara til fjandans. Jákvæðni er hins vegar erfið á þessum síðustu og verstu tímum. Er samt ekki bara best að trúa því að allt fari vel að lokum? Ég held það.

Þegar bankar riða til falls og jörðin skelfur finnst mér að við bloggarar megum okkur lítils. Þessvegna sendi ég í gær bara vísur og þessháttar þó mér væri að sjálfsögðu annað efst í huga.

Ekki dugir samt að stinga höfðinu í sandinn. Mér finnst að besservisserarnir séu orðnið ansi margir. Bæði hér á blogginu og víðar. Þeim líður vel hjá Agli í silfrinu en hann er talsverður besservisser sjálfur og hló jafnan í kampinn þegar Hafliði Húsvíkingur talaði í ungmennafélagsstíl.

Svo fór Geir Haarde greyið að reyna að koma vitinu fyrir menn og brosti flírulega. Var sennilega að hugsa um sætustu stelpuna á ballinu.

Svo ég rövli nú aðeins þá var eftirfarandi inngangur að frétt á mbl.is í morgun og er þar kannski enn:

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í dag karlmann á fertugsaldri, með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra, sem hafði látið ófriðlega og verið með hótanir á dvalarstað hælisleitenda í Reykjanesbæ.

Mér finnst þetta vera ágætt dæmi um lélegt málfar. Samkvæmt þessu gæti sá sem ekki er vel verseraður í þessum málum haldið að það hafi verið sérsveitin sem lét ófriðlega. Svo hefur þó líklega ekki verið. Kannski skiptir þetta engu máli. Kannski er þetta bara útúrsnúningur hjá mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kannske var það ríkislögreglustjóri sem lét ófriðlega.

asben 30.9.2008 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband