455. - Ég fer um borð og borða um borð fyrst borðað er um borð á annað borð

Oft er gaman að endurtekningarbulli. Það sem hér fer á eftir gátum við að minnsta kosti oft notað þegar við fórum í siglinguna með Gullfossi forðum daga:

Ég fer um borð
og borða um borð.
fyrst borðað er um borð
á annað borð.

Ef þetta er sagt hratt er það ljómandi áheyrilegt.

Mamma kenndi mér það sem hér fer á eftir en það er til í ótal afbrigðum. Svona vil ég samt hafa það:

Ef sumir væru við suma
eins og sumir eru við suma
þegar sumir eru frá

Væru sumir betri við suma
en sumir eru við suma
þegar sumir eru hjá.

Svo var eitthvað með Skota úti í skoti sem líklega var þar í roti en ég man ekki með vissu hvernig það alltsaman var. Líka held ég að Þórarinn Eldjárn hafi einhvern tíma gert einslags vísu eða kvæði um að sleppa í sloppinn og vera ekki skyni skroppinn eða eitthvað þannig.

Margir virðast vanda sig heilmikið við bloggin sín. Eiginlega er magnað hve mikil vinna er lögð í þetta. Það er greinilega mikill fjöldi efnilegra blaðamanna þarna úti. Og svo gerir fólk þetta fyrir ekki neitt. Sumir taka bloggið mjög alvarlega og meina allt sem þeir segja. Þeirra á meðal er ég. Sumir meina bara sumt af því sem þeir segja en ætlast svo til að aðrir taki mark á þeim þegar þeim sjálfum finnst að taka eigi mark á sér.

Það er alveg rétt sem Malína sagði í kommenti hjá mér um daginn. Hann er undarlegur þessi bloggveiturígur. Það er heldur barnalegt að segja "hann byrjaði" en í mínum huga var það Stefán Pálsson sem byrjaði á þessari endemis vitleysu.

Ég les yfirleitt ekki dagblöð núorðið. Tel sjálfum mér trú um að það sé vegna þess að ég vil ekki láta mata mig á því sem aðrir álíta að ég þurfi að vita. Horfi samt á sjónvarpsfréttir þar sem ekki er minni mötun. Svo má líka halda því fram að það sé ekkert annað en mötun að lesa sí og æ þessi blogg. Allavega ef sömu bloggin eru lesin dag eftir dag. Og hver nennir að vera alltaf að skifta um uppáhaldsblogg? Ekki ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Einu sinni var Skoti sem var skotinn af Skota með skoti úti í skoti. Svo spurði annar Skoti þann Skota sem var skotinn með skoti úti í skoti, hvar væri sá Skoti sem hefði skotið hann með skoti úti í skoti. Svaraði þá sá Skoti sem hafði verið skotinn með skoti úti í skoti að sá Skoti sem hefði skotið hann með skoti úti í skoti lægi skotinn með skoti úti í skoti.

Emil Örn Kristjánsson, 19.9.2008 kl. 10:08

2 Smámynd: Kjartan Valdemarsson

Bóndinn á Á, á á á fjalli.

Kjartan Valdemarsson, 19.9.2008 kl. 17:39

3 identicon

Fyrst háæruverðugir bloggarar eru farnir að vitna í orð mín () verð ég líklega að fara að vanda betur það sem ég læt út úr mér hérna í bloggheimum - og skrúfa aðeins niður í þessum galgopahætti sem ég á vanda til!

Malína 19.9.2008 kl. 20:15

4 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

SVona orðaleikir eru eldgamlir. Öllu hnyttnari útgáfu af skotum lærði ég svona fyrir um eða yfir 30 árum.

Einu sinni var skoti sem skaut skota í ksoti með skoti.

Þá kom annar skoti sem sagði, Andskoti varstu að skjóta skota í skoti með skoti!?

Magnús Geir Guðmundsson, 21.9.2008 kl. 02:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband