405. - Jón Helgason og Sigurður Þór

Á blogginu mínu um daginn var ég að fjasa um hvernig ég læt tímann líða. Ég þykist náttúrlega vera enn að vinna þó ég sé að nálgast ellilífeyrisaldurinn. Verst ef þessir fjárglæframenn sem svo umtalaðir eru í bloggheimum og víðar verða búnir að eyða þessu öllu áður en maður nær að njóta þess. 

Þessi vinna er nú bara næturvarsla og ekki merkilegt beskæftigelsi. Vaktirnar eru að vísu fjandi langar en frí aðra hverja viku. Þessutan hjálpa ég konunni minni við skúringar í frívikunni minni.

Það fer ekki hjá því að líf mitt snúist ansi mikið um Vefinn (með stóru vaffi). Þegar ég er ekki að stúdera blogg eða annað þungmeti þá er ég gjarnan að tefla á Netinu. Ætli ég sé ekki með þónokkra tugi bréfskáka í gangi á þremur vefsetrum á hverjum tíma. Ég er alveg hættur að nenna að vanda mig og hef þess vegna skákirnar margar og fylgist lítið með stigunum mínum. Svo tefli ég stundum læf og það getur verið ansi gaman. Mest gaman er auðvitað að vinna og eftir erfiðar hraðskákir (sem ég kalla 15 mínútna skákir núorðið) er ég gjarnan dauðþreyttur.

Það fer ekki hjá því að ég veiti því athygli að Sigurður Þór er að atyrða ýmsa sem ekki kunna að meta veðurblogg. Ég veit að honum þykir vænt um ketti. Kannski er hann líka af þeirri kynslóð sem kann að meta skáldskap Jóns Helgasonar. Jón orti eitt sinn um ketti:

Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul,

geymir á bak við sig marga dul,

óargadýranna eðli grimmt

á sér í heilanum fylgsni dimmt.

 

Ólundin margsinnis úr mér rauk

er ég um kverk þér og vanga strauk,

ekki er mér kunnugt um annað tal

álíka sefandi og kattarmal.

 

Bugðast af listfengi loðið skott,

lyftist með tign er þú gengur brott;

aldrei fær mannkindin aftanverð

á við þig jafnast að sundurgerð.

 

Þetta eru bara þrjár vísur af tíu og kvæðið er ort 1939.

Varðandi MEST málið sem eflaust á eftir að verða talsvert milli tannann á fólki á næstunni vil ég segja það eitt að ef samningur Glitnis sem gerður var nokkrum dögum fyrir gjaldþrotið er gildur og eðlilegur þá eru allir samningar sem gerðir eru örstuttu fyrir gjaldþrot jafngildir. Ég hélt að svo væri ekki.

Og í lokin eru svo nokkrar myndir því það er svo langt síðan síðast. Á fyrstu myndinni er tunglið eitthvað að glenna sig yfir Móskarðshnjúkum og á þeirri næstfyrstu má sjá sumarhús á Vatnsleysuströnd.

 
IMG 2139IMG 1759IMG 1722IMG 1748IMG 2018IMG 2147IMG 2150

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

geggjaðasta ljóð sem ég hef lesið!

halkatla, 31.7.2008 kl. 02:15

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég var að atyrða þá sem ekki kunna að meta veðrið! Og það fólk ber að atyrða!

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.7.2008 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband