343. - Snemmsumars árið 1970 fluttist ég að Vegamótum á Snæfellsnesi

Sumarið 1970 tók ég við starfi útibússtjóra við útibú Kaupfélags Borgfirðinga að Vegamótum á Snæfellsnesi. Þarna var þá rekin verslun og veitingahús og starfsfólk var svona um 10 - 12 yfir sumarið, en mun færri að vetrinum.

Það var Ólafur Sverrisson kaupfélagsstjóri í Borgarnesi sem réði mig til starfans, en áður hafði ég starfað sem verslunarstjóri í verslun Silla og Valda að Hringbraut 49 í Reykjavík. Ólaf hitti ég í Sambandshúsinu við Sölvhólsgötu eftir að hafa svarað auglýsingu í Morgunblaðinu. Ólafur var faðir Ólafs ríka í Samskipum og sonur Sverris sem á sínum tíma var formaður Stéttarsambands bænda. Þegar ég flutti vestur var Gunnar Guðbjartsson á Hjarðarfelli formaður þeirra samataka. Hjarðarfell er skammt frá Vegamótum.

Kynnisferð vestur á nes hafði ég farið nokkru áður en ég tók við rekstrinum, en ég man að mér þótti samt óravegur að fara þangað. Búslóðin hafði farið með bíl frá Kaupfélagi Borgfirðinga nokkrum dögum áður, en þegar að því kom að flytja hana frá Hávallagötu 44 var ég einn við að bera dótið út í bíl ofan af annarri hæð. Ég hamaðist svo mikið við það að bílstjóranum, Aðalsteini Björnssyni þótti nóg um og sagði við mig að starfsfólk kaupfélagsins vildi eflaust frekar fá mig lifandi en dauðan uppeftir.

Þegar við hjónin mættum á okkar ljósgræna Moskovíts með strákana okkar litlu tvo að Vegamótum man ég að starfsfólkið allt hafði raðað sér upp við borðið í eldhúsinu og ég mátti gjöra svo vel að ganga á röðina og taka í hendina á hverjum og einum. Ég man þetta svo greinilega vegna þess að mér þótti þetta óþægilegt og bera vott um virðingu, sem ég ætti tæplega skilið.

Allt gekk þetta þó vel og þó mikið væri að gera í fyrstunni var ágætt að vera þarna í sveitinni. Ég var við afgreiðslu í búðinni og mér til aðstoðar þar var Bragi Ingólfsson frá Straumfjarðartungu. Honum þótti gott að sofa svolítið frameftir á morgnana og eitt kvöldið var frá því sagt í fréttum að forsætisráðherra landsins Bjarni Benediktsson mundi fara vestur á Snæfellsnes daginn eftir. Bragi hafði orð á því að gaman yrði að sjá ráðherrann.

Þegar ég vakti Braga síðan morguninn eftir, sagði ég honum glóðvolgar fréttir úr útvarpinu og að ekki yrði honum að ósk sinni um að sjá forsætisráðherrann, því hann hefði brunnið inni á Þingvöllum um nóttina. Ég man að Braga var talsvert brugðið við þetta.

Bragi hætti í versluninni um haustið og Valgeir bróðir hans tók við. Bragi fór á sjóinn en tók út af bátnum sem hann var á og drukknaði. Hann var elstur ellefu systkina frá Straumfjarðartungu og kynntist ég þeim öllum og foreldrum þeirra einnig.

Að sjálfsögðu kynntist ég líka öðrum í sveitinni og voru þau kynni öll hin ánægjulegustu. Lífið þarna var skemmtilegt og ólíkt öllu sem ég hafði áður kynnst. Starfsfólkið var flest úr sveitinni en þó voru einhverjir úr Borgarnesi.

Rétt við Vegamót var Holt þar sem Einar Halldórsson frá Dal bjó ásamt fjölskyldu sinni. Íbúð hans var áföst bílaverkstæði sem hann rak og einnig spilaði hann á böllum í héraðinu ásamt Sigvalda í Skjálg. Hinum megin við Vegamót var Lynghagi. Þar bjó Sigurþór Hjörleifsson frá Hrísdal ásamt konu sinni og ungum syni. Sigurþór var veghefilsstjóri ásamt því að vera mikill íþróttamaður og áhaldahús frá vegagerðinni var skammt frá Vegamótum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafdís Lilja Pétursdóttir

Minni ektamaki ólst upp í Dalsmynni hjá Möggu og Guðmundi, Gösli heitir hann.

Ég bíð spennt eftir sögum úr sveitinni.

Hafdís Lilja Pétursdóttir, 23.5.2008 kl. 07:34

2 identicon

ég var einmitt í röðinni á Vegamótum, vann þar fyrsta sumarið þitt þar, og ég sé núna að þetta hefur verið nokkur manndómsraun fyrir þig, og ég man líka þegar Bragi vakti mig til að segja mér að Bjarni Ben, sem hann dáðist mikið að, hefði dáið með þessum hræðilega hætti, og ég held að það sé ekki ofsögum sagt að honum hafi verið brugðið .. kv. Kristín Einarsdóttir

kristín einarsdóttir 23.5.2008 kl. 09:09

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hafdís: Ég held að ég hafi lýst því einhverntíma á blogginu mínu þegar ég sá Möggu í Dalsmynni í fyrsta sinn. Sannarlega eftirminnileg. Ég þekkti Gösla líkið en vissi þó vel af honum þegar ég var í Borgarnesi. Þekkti Svan vel.

Kristín: Man óljóst eftir einhverri Stínu sem hefur þá væntanlega verið úr Borgarnesi. Man líklega betur eftir starfsfólki úr sveitunum í kring (t.d. Furubrekkustelpunum).

Sæmundur Bjarnason, 23.5.2008 kl. 15:30

4 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Komdu sæll Sæmundur Bjarnason...Ég átti í erfiðleikum með barnapössun í Reykjavík árið 1976 og réð mig í árs-vist sem ráðskona á veitingahúsinu á Vegamótum á Snæfellsnesi, vistinni lauk ári seinna-1977..Starfsfólkið á veitingahúsinu var orðið heimavant og jafnvel nennti ekki að að standa upp til að sinna störfum sínum...Sóðaskapurinn var út úr öllu korti jafnframt líkamsþyngd þeirra...Ég hef aldei verið jafnfegin og þegar vistinni lauk ...

Guðrún Magnea Helgadóttir, 23.5.2008 kl. 15:59

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sæl vertu Gunna frá Þursstöðum. Ég man vel eftir þér, en finnst óþarfi að vera að rifja upp neikvæða hluti úr grárri forneskju.

Alhæfingar þínar um starfsfólkið á Vegamótum eru óskynsamlegar.

Sæmundur Bjarnason, 23.5.2008 kl. 19:38

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Úps. Sé við yfirlestur að ég hef ekki skrifað alveg það sem ég ætlaði þegar ég var að tala um Gösla. Ég þekkti hann lítið á sínum tíma.

Svo hefði mátt bæta því við í svarinu til Gunnu að blammeringar hennar um starfsliðið í veitingahúsinu eru með öllu rangar.

Sæmundur Bjarnason, 23.5.2008 kl. 20:26

7 identicon

Skemmtileg lesning, þó auðvitað ekki það lát Braga.

alva 23.5.2008 kl. 22:47

8 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Ég bakka ekkert með sóðaskapinn á Vegamótum eða líkamsþyng ungmeyjanna úr sveitinni sem ráðnar voru til verka á Vegamótum...Bið þig hinsvegar að skila kærri kveðju til eiginkonu þinnar Áslaugar.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 25.5.2008 kl. 16:01

9 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég á nú ekki orð yfir staðhæfingum Gunnu.  Þótt ég hafi bara verið krakkaskítur, gleymi ég aldrei þegar hún gekk fyrst inn á Vegamótum........ í pels og háum hælum, máluð og fín með sig........

....... og við höfum aldrei verið jafnfegin og þegar vist hennar lauk. 

Anna Einarsdóttir, 26.5.2008 kl. 17:02

10 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Ég er án alls vafa sú allra óvinsælasta sem starfaði hefur á Vegamótum...Liðið vildi halda áfram að sitja á sínum feitu rössum og nennti ekki að hreyfa sig nema einu sinni í mánuði þegar það tók á móti launaumslaginu...

Guðrún Magnea Helgadóttir, 27.5.2008 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband