289. - Það er vegna þess að Ólympíunefndin á sig sjálf sem leikarnir eru svona vinsælir

Ég skrifaði dálítið um Ólympíuleikana á blogginu mínu um daginn og sagði meðal annars að Alþjóðaólympíunefndin ætti sig sjálf.

Þetta hefur mér alltaf fundist stærsti gallinn á þeirri ágætu nefnd, en kannski er þetta einmitt aðalkosturinn við hana. Nýir meðlimir komast bara í nefndina ef þeir sem fyrir eru kæra sig um það. Þannig að uppbyggingin er eins og í einhvers konar frímúrarareglu. Það þýðir ekkert að vera neitt sérstakt. Bara að viðurkenna þessa tilhögun og vera ekki líklegur til að stuðla að breytingum á kerfinu.

Já, já. Allskonar spilling þrífst þarna og peningaveltan er ævintýraleg. En með þessu getur nefndin verið eins ópólitísk og henni sýnist. Auðvitað er hún samt viðkvæm fyrir þrýstingi og meðlimir hennar alls ekki ópólitískari en aðrir. Ég er nokkuð viss um að sú hugmynd að sniðganga Ólympíuleikana í Kína mun ekki fá brautargengi innan íslensku ólympíunefndarinnar og þar með er málið dautt, því Alþjóðanefndin á hana náttúrulega. (altsvo íslensku nefndina) Já, það er allt fullt af undirnefndum sem aðalnefndin skipar og þar verður skipulagið að vera svipað. Alþjóðanefndin veður í peningum (eins og FIFA) og útdeilir styrkjum auðvitað með sinn eigin hag að leiðarljósi.

Það er margt skrýtið í starfsemi Ólympíunefndarinnar en um það má helst ekki ræða. Það eru nefnilega svo margir sem gera sér vonir um að hljóta einhverntíma mola af gnægtaborði hennar. Það að einhver þjóð fái að halda Ólympíuleika er auðvitað stórpólitísk ákvörðun og kostar ekki svo lítið.

Áður fyrr töpuðu þjóðir yfirleitt peningum á því að halda leikana (nema auðvitað ef áróðurinn og kynningin var álitin peninga virði) en nú í seinni tíð hafa gífurlegar fjárhæðir verið greiddar fyrir sjónvarpsréttindi  og allskyns auglýsingasamninga svo dæmið hefur snúist við. Það er heldur ekki reynt að útiloka atvinnumenn í íþróttum lengur eins og gert var. Ólympíuleikar, heimsmeistarkeppni í fótbolta og Formúlu 1 kappakstur eru langvinsælastu íþróttaviðburðir í heiminum.

Ólympíuleikarnir eru þó óviðjafnanlegir og mesta íþróttahátíð sem um getur. Um það efast enginn. Það er einmitt vegna þess að misvitrar ríkisstjórnir og stjórnmálamenn yfirleitt hafa ekki fengið að vasast í málum Alþjóðaólympíunefndarinnar sem leikarnir hafa hlotið þessar gífurlegu vinsældir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Póstur á Snerpunni frá mér... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.3.2008 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband