259. - Um tölvur, Internet og skák

Fyrir utan að lesa blogg (og stundum Baggalút) er mín besta skemmtun á Netinu að tefla bréfskákir.

Ég er alveg hættur að nenna að vanda mig eins og ég gerði fyrst þegar ég byrjaði á þessu. Nú tefli ég bara fyrir skemmtunina. Stundum tefli ég líka „live" og nota þá gjarnan hraðskákreglur og vil helst hafa umhugsunartímann 15 mínútur. Þegar ég var ungur og talsvert fljótari að hugsa þótti mér 5 mínútur kappnógur tími á hraðskákir og tefldi slíkar gjarnan. Nú þykir mér mjög hæfilegt að hafa þetta meiri tíma, enda lendi ég aldrei í tímahraki.

Að tefla bréfskákir á Netinu er alveg afskaplega þægilegt. Bestu vefsetrin eru með sérstök borð fyrir önnulísur sem kallaðar eru (analysis) og það er afskaplega þægilegt. Þá getur maður leikið fram og aftur í skákinni og séð hvaða áhrif tilteknir leikir hafa án þess að þurfa að gera neitt annað en að ýta á einn músahnapp.

Vefsetrin sem ég nota mest um þessar mundir eru: Chesshere.com, Chessmaniac.com, Chessclan.com og playchess.de. Öll er þau að finna í linkunum hér til vinstri, enda þarf ég að nota þann aðgang þegar ég er í vinnunni því þar er ekki leyft að búa sér til bókmerki (bookmarks). Á hverju vefsetranna tefli ég svona 15 til 20 skákir samtímis og það hentar mér ágætlega því ég þarf ekki að hugsa neitt að ráði um hvern leik þegar ég vanda mig lítið.

Reyndar vanda ég mig svolítið mismikið eftir vefsetrum og sést það á stigunum sem ég er með þar. Öll eru setrin nefnilega þannig að þau reikna út ELO-stig eftir hverja skák. Teflendur eru þarna yfirleitt það margir að vandræðalaust er fyrir hvern sem er að finna sér andstæðing við hæfi. Svo er þetta ókeypis.

Um þessar mundir eru hérna á heimilinu fjórar tölvur. Þrjár fartölvur og ein borðtölva sem er tengd tveimur skjáum. Einum túbuskjá og einum flatskjá. Mér finnst athyglisvert að sjá hve miklu betri og skýrari myndin er í flatskjánum. Það er afskaplega þægilegt að hafa tvo skjái, þá getur maður fylgst með fleiru í einu og byrjað að gera eitthvað annað ef manni leiðist að bíða eftir tölvunni.

Þó tölvurnar séu fjórar hérna er heimilisfólkið einum færra. Bjarni er hér núna meðan hann er að bíða eftir að Charmaine komi frá Bahamaeyjum, en það verður held ég 28. febrúar.

Það er eflaust skrítið að sjá allt heimilisfólkið niðursokkið í sínar tölvur og sitt Internet. ADSL-ið er sem betur fer þráðlaust og við getum hæglega verið öll á því samtímis. Meðan við grúfum okkur niður í tölvurnar spýr sjónvarpið úr sér einhverjum leiðindum sem enginn fylgist með og dagblöðin liggja eins og hráviði út um allt og enginn nennir að lesa þau.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Freyr Rúnarsson

Þú segir nokkuð.  Maður þarf að prófa þessa "skákservera".  Maður tekur þetta svona hæfilega alvarlega.  Þetta er fyrst og fremst góð æfing.  Ég þekki þó þessa skákvefi.  Þeir eru fínir: 

Bréfskákvefir:

WWW.schemingmind.com

www.queenalice.com

www.gameknot.com

osf

Gunnar Freyr Rúnarsson, 24.2.2008 kl. 05:45

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég þekki Gameknot ágætlega, hann er góður, en ég er af einhverjum ástæðum útilokaður þar og tekst ekki að skrá mig aftur. Prófa það þó kannski seinna. Hina þarf ég að athuga betur. Af þessum sem ég nefndi er chesshere líklega bestur, en hann er þó í einhverskonar lamasessi akkúrat núna.

Sæmundur Bjarnason, 24.2.2008 kl. 11:23

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Var að senda þér póst á snerpuna.

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.2.2008 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband