232. - Næstu borgarstjórnarkosningar, bækur og fleira

Eðlilegt er að nú strax sé farið að spá og spekúlera í hvernig útlitið verði í næstu borgarstjórnarkosninum. Auðvitað getur það farið mikið eftir því hvernig þróunin verður á næstu mánuðum og misserum. Margt á eftir að koma á óvart í borgarmálefnum á næstunni.

Þrjú framboð verða að líkindum í næstu borgarstjórnarkosningum. Sjálfstæðismenn, Samfylkingin og Vinstri grænir. F-listinn er næstum örugglega búinn að vera og líklega treystir framsókn sér ekki til að bjóða fram.

Hverjir verða þá á þessum listum? Hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum verður aðalspurningin hvort einhverjir af núverandi forystumönnum verði farnir í landsmálin. Ég er til dæmis ekkert viss um að Steingrímur Sigfússon lafi í formannsstólnum allar götur fram að næstu þingkosningum. Svandís Svavarsdóttir gæti vel verið á leiðinni i þann stól. Sennilegra að þó að hún verði í framboði til borgarstjórnar en að hún verði það ekki.

Þá er það listi Sjálfstæðismanna. Þar eru það einkum Hanna Birna og Gísli Marteinn sem eru líkleg til framhaldslífs. Það veltur þó allt á því hver þróunin verður á næstunni, hvort þeim tekst að sanna sig. Viljann og metnaðinn vantar þau ekki. Villa verður áreiðanlega sparkað. Nú sjáum við hvers vegna forysta flokksins vildi raunverulega aldrei sjá hann sem borgarstjóraefni.

Ef litið er á blogg fólks eins og Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar, Sigurðar Þórs Guðjónssonar og Grétu Bjargar Úlfsdóttur er greinilegt að nokkur hópur fólks er allt í einu búinn að fá mikinn áhuga á hugsanlegum arfi eftir Bobby Fischer. Þetta er nokkuð undarlegt því alls ekki er víst að þar sé um miklar upphæðir að ræða.

Það er þó vel hugsanlegt og alls ekki útilokað að átök verði einhver um skiptingu arfsins. Hvaða erindi þau átök kunna að eiga í opinbera umræðu hlýtur fyrst og fremst að fara eftir eðli máls. Ekki því hvað einhverju óviðkomandi fólki finnst. Sjálfur tel ég mig algjörlega óviðkomandi í þessu máli og hef ekki neinn áhuga á að ræða það í smáatriðum.

Lauk í gær við að lesa bókina eftir Jón Björnsson sem fór á reiðhjóli frá Gdansk til Istanbul. Þetta var um margt ágæt bók. Miðaldasaga Evrópu var þó ansi stór hluti bókarinnar og í endursögn Jóns var margt af því sem þar var sagt nokkuð áhugavert. Ferðasagan sjálf var þó áhugaverðari, en ekki mjög löng. Hann notaði greinilega þessar miðaldaendursagnir sem uppfyllingu og til að lengja bókina.

Nú sé ég að ég hef ekki verið alveg sanngjarn í umsögn minni um bók Hrafns Jökulssonar. Hann endursagði á sinn hátt einmitt margt af því efni sem finna má í fornum ritum um Árneshrepp og íbúa hans. Margt af því sem þar var sagt kom mér kunnuglega fyrir sjónir því ég hef lesið um það annars staðar. Þeir sem ekki hafa gert það kunna því ef til vill vel að fá það í endursögn Hrafns á sama hátt og ég kunni því ágætlega að fá ýmislegt úr miðaldasögu Evrópu í endursögn Jóns Björnssonar.

Nú er ég byrjaður á Skipinu eftir Stefán Mána og finnst hann byrja ansi bratt. Menn blóðugir upp að öxlum, hrikalegt bílslys, morð og pyndingar strax á fyrstu blaðsíðunum. Get vel trúað að sagan verði spennandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband