155. blogg

Einu sinni þótti góð latína að setja minnisatriði í bundið mál.

Allskyns upptalningar sem gott var að kunna til að fá háar einkunnir á prófum voru settar í rím og stuðla. Ég man ekki eftir mörgum slíkum vísum en þó einni a.m.k. Hún er um þverár Dónár.

Í Dóná falla Ísar, Inn.

Einnig Drava og Sava.

Lech og Teiss ég líka finn

og legg svo Pruth í endirinn.

Það voru nemendur við Barna- og Miðskólann í Hveragerði sem settu Pythagorasar-regluna margfrægu í bundið mál. Ef til vill hafa þeir notið einhverrar hjálpar snillingsins Séra Helga Sveinssonar og sagt er að orðatiltækin sem fyrir koma í vísunni hafi verið töm einhverjum kennurum við skólann:

Ef spurningin skyldi skella á mér.

Skeð gæti verið ég teldi.

Langhlið í öðru jafnt skammhliða skver

og skammhlið í öðru veldi.

Sigurður Nordal tók upp á því á skólaárum sínum að skrifa nafnið sitt ætíð S. Nordal. Þá tóku félagar hans upp á því að kalla hann Snordal. Það líkaði honum ekki og tók að skrifa nafnið sitt Sig. Nordal. Þá kölluðu þeir hann Signor Dal og svo kann ég þessa sögu ekki lengri.

Það var hinsvegar annar Sigurður, sænskmenntaður og Þórarinsson sem var eitt sinn að kenna og hafði skrifað á töfluna eftirfarandi:

Atmosfer

Stratosfer

Ionosfer

Svo þurfti hann að bregða sér frá og þegar hann kom aftur var búið að bæta við á töfluna:

Lúsífer

Engifer

Sigurður fer

sem betur fer.

Sá í auglýsingu frá bókasafni í dag eftirfarandi setningu: Sænsk könnun hefur sannað að þeir sem lesa mikið verði langlífir. Mig stansar á (eins og mamma hefði eflaust sagt) hvað fjölmiðlamenn eru alltaf ginkeyptir fyrir allskyns könnunum og athugunum. Sjálfur hef ég sett saman  þessa kenningu: Það er hægt að sanna hvaða staðhæfingu sem er með könnunum. Vandinn er eingöngu að finna réttu könnunina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þetta var áhugaverð færsla og ég ætla læra þessar stuðlar... takk.
Alltaf gaman að finna "réttu" könnunina

Gunnar Helgi Eysteinsson, 27.10.2007 kl. 11:13

2 identicon

Já, svona kannanir SANNA aldrei eitt né neitt, þær geta í besta falli sýnt fram á tengsl tveggja hluta. Þó svo að tengsl finnist þá er líklegast ekki um orsakasamband að ræða. Það sem gæti t.d. legið á bak við niðurstöðurnar á sænsku könnuninni er munur á stétt - ásamt mörgu öðru.

Einnig finnst mér það líka augljóst og óþarft að kanna að þeir sem verða langlífir lesa að öllum líkindum meira en þeir sem lifa styttra. Það er því miður þannig þessir sem lifa styttra hafa minni tíma til að gera svo margt.

hafdis 27.10.2007 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband