153. blogg

Bjarni er með tvo vinninga úr fyrstu tveimur umferðunum á 36. meistaramóti Bahamas í skák.

Ég á von á að hann verði ofarlega á þessu móti og taki hugsanlega þátt í næsta Ólympíumóti í skák fyrir Bahamas. Um næstu helgi verða tefldar tvær umferðir í mótinu.

Eitt sinn á unglingsárum mínum í Hveragerði var ég að drepast úr tannpínu og fór til Magnúsar Ágústssonar héraðslæknis og bað hann að taka tönnina sem var að kvelja mig. Á þessum árum voru tannlæknar ekki á hverju strái, þó held ég að einn hafi verið á Selfossi. Púlli var hann kallaður og gott ef hann var ekki pabbi Þorsteins Pálssonar.

En þetta var útúrdúr. Ég fór semsagt til Magnúsar og bað hann að draga úr mér eitt stykki tönn. Það var auðvitað guðvelkomið en Magnús sagði að ef ég vildi láta deyfa mig áður en tönnin væri tekin þá kostaði það fimm krónur, en ef ég léti hann taka tönnina án þess að deyfa nokkuð þá kostaði það ekki neitt. Fimm krónur voru talsverður peningur í þá daga svo ég ákvað að spara mér þær og láta taka tönnina án deyfingar.

Svo föst var tönnin að Magnús þurfti að taka á öllum kröftum við að ná henni og var hann þó heljarmenni að burðum. Ég sá svitadropana koma út á enninu á honum en gat ekki gert neitt nema starað framan í hann og haldið mér sem fastast í stólinn. Loksins lét tönnin undan og sleppti sínu dauðahaldi í kjálkann. En vont var það og ég ákvað að næst skyldi ég ekki reyna að spara mér fimm krónur á einfaldan hátt.

Löngu seinna var það hjá tannlækni einum í Reykjavík sem ég þurfti aftur að láta taka úr mér tönn. Tannlæknirinn tók vel í það og deyfði mig í bak

og fyrir og byrjaði síðan að glíma við tönnina. Hún vildi alls ekki fara og læknirinn prófaði ýmsar tegundir af töngum, misstórar og miskröftugar. Að lokum var hann kominn með sína allra sterkustu töng og hamaðist af öllum kröftum við að reyna að ná tönninni í burtu en ekkert dugði, ekki gaf tönnin sig. Að lokum var tannlæknirinn orðinn svitastokkinn og eldrauður í framan og þá mölbrotnaði tönnin skyndilega.

Nú gafst honum færi á að pústa svolítið því greinilegt var að breyta þurfti um bardagaaðferðir við þessa einþykku tönn. Hann sagði mér að hann yrði að skera í tannholdið og freista þess að ná taki á tönninni aftur því ekki kæmi til greina að láta hana eiga sig. Ég gat nú lítið annað en jánkað þessu svo hann hófst handa. Þegar skurðurinn var orðinn nógu djúpur kom hann aftur með sína stærstu töng og glíman hófst að nýju. Hann reyndi að toga hana á allar hliðar og snúa upp á hana og svitinn bogaði af honum. Eftir langa mæðu og mikið basl gaf tönnin sig að lokum og tannlæknirinn fleygði henni í ruslið sigri hrósandi.

Þegar ég losnaði úr stólnum var það fyrsta sem ég gerði að fá mér sígarettu. En þá bar nokkuð nýrra við. Þegar ég reyndi að soga ofan í mig reykinn úr sígarettunni skeði ekki neitt. Enginn reykur ofan í lungun og ekkert eitur sem streymdi um líkamann eins og tilætlunin var. Þetta kom alveg flatt uppá mig og ég áttaði mig ekkert á því hvernig á þessu stóð. Þetta hlaut samt að standa í einhverju sambandi við það sem tannlæknirinn var að enda við að gera við mig svo ég flýtti mér að kvarta yfir þessu við hann.

Einhvern vegin var eins og þetta kæmi honum ekki mikið á óvart og hann útskýrði fyrir mér hvað hefði gerst. Rótin á tönninni var snúin og við átökin við að ná henni hefði brotnað stykki úr kjálkanum og opnast gat upp í nefgöngin og þaðan út um nefið.

Ég komst nú reyndar fljótlega upp á lag með að setja tungubroddinn fyrir gatið þegar ég var að reykja en þetta kostaði vikudvöl á sjúkrahúsi þar sem gatinu var lokað og brotið úr kjálkanum fjarlægt. Svo merkilegt þótti þetta atvik að röntgenmyndir af kjálkanum voru settar á kennslumyndasafn Háskólans og þar eru þær sjálfsagt enn. Kjálkabrotið sem fjarlægt var fékk ég að eiga. Það var á stærð við fremstu kjúku af baugfingri eða svo og ég setti það í brúnt pilluglas og áreiðanlega er það einhvers staðar til ennþá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Æ Æ og Ó..... þetta hefur verið hroðalega vont. 

Anna Einarsdóttir, 25.10.2007 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband