128. blogg

Merkilegt hve margir lesa bloggið mitt.

Auðvitað er þetta ekki merkilegt stuff, en samt reyni ég alltaf að vanda mig svolítið, því þetta er nánast það eina sem ég skrifa um þessar mundir. Tíminn sem í þetta fer er ekki mikill og alltaf að styttast. Minnstan tíma tekur að fimbulfamba um allt og ekkert eins og ég er að gera núna.

Ef ég er hinsvegar að rifja upp einhverjar gamlar minningar geta skrifin tekið meiri tíma. Stundum gengur samt vel og orðin renna á pappírinn. Er annars rétt að tala um pappír í þessu sambandi? Ég efast um það.

Til að ofgera ekki þeim lesendum sem ég hef, reyni ég alltaf að standa við að skrifa ekki nema einu sinni á dag og ekki óhóflega mikið í hvert sinn. Helst ekki nema svona rúmlega eina blaðsíðu í wordinu mínu með fonti 14.

Í heildina er þetta samt orðið gríðarlegt magn. Það er varla leggjandi á nokkurn mann að lesa þetta allt. Það hef ég þó gert og kannski fáeinir aðrir. Af því að lesendum mínum hefur verið að fjölga undanfarið getur vel verið að ég fari bráðum að endurnýta fyrri skrif.

Mér dettur t.d. í hug að ég gæti vel sameinað í eina færslu það sem ég á sínum tíma skrifaði um brunann á Bláfelli. Fleira minningatengt efni gæti vel komið til greina að endurnýta. Ég lofa því samt að lesendur mínir munu verða aðvaraðir þegar að þessu kemur.

Ég lærði að tefla þegar ég var svona fimm eða sex ára gamall. Þegar ég var 10 eða 12 ára var stofnað taflfélag í Hveragerði. Þar var Axel Magnússon á Reykjum aðalmaðurinn. Hann var besti skákmaðurinn og sá sem dreif þetta áfram. Ég man vel að á sínum tíma tefldu þarna meðal annarra Gestur Eyjólfsson, Hallgrímur Egilsson, Hans Gústafsson, Þórður Snæbjörnsson og einhverjir fleiri. Einnig vorum við þarna viðloðandi nokkrir strákar sem höfðum gaman af að tefla en gátum þó ekki mikið. Ég man samt eftir að hafa tvisvar eða þrisvar komist í úrvalslið þorpsins þegar teflt var á 10 borðum.

Á þessum árum var við lýði árleg skákkeppni milli skákfélaga í Árnessýslu og þó við Hvergerðingar værum langt frá því að vera meðal þeirra bestu tókum við þátt í þessari keppni í allmörg ár. Þarna var teflt á tíu borðum og þótti ekkert sérstaklega mikið. Mér er minnisstæð ein ferð sem við fórum austur að Þingborg til að tefla við Hraungerðishrepp. Kalli Magg keyrði okkur þangað á Garantinum sínum. Á heimleiðinni gaf kúplingin í bílnum upp öndina, en Kalli rak hann bara í gírana án þess að kúpla nokkuð og þannig komumst við heilir heim.

Þarna voru Selfyssingar, Stokkseyringar, Eyrbekkingar og Hraungerðishreppsbúar auk okkar Hvergerðinga og jafnvel einhverjir fleiri þó ég muni ekki eftir því. Selfyssingar og Stokkseyringar voru bestir og varla nema Axel á Reykjum úr okkar hópi sem hafði eitthvað í bestu menn þeirra að gera. Reyndar var einhver Sigurður Jónsson sem skyldur var þeim á Hrauni stundum með okkur og hann var mjög góður.

Meðal þeirra meistara sem ég man eftir úr þessum viðureignum voru t.d. Magnús í Haga, Vilhjálmur Pálsson, Siggi Gísla og svo náttúrulega bræðurnir frá Skipum þeir Sigtryggur og Hannes. Þorsteinn Sigurðsson sem útibússtjóri var hjá kaupfélaginu í Hveragerði um skeið á þessum árum var einnig ágætis skákmaður. Sömuleiðis man ég vel að Frímann fangavörður tefldi stundum fyrir þá Stokkseyringa.

Við vorum þrír strákar í Hveragerði sem stundum vorum kenndir við mæður okkar auk feðranna. Það voru: Mummi Gunnu Bjarna Tomm = Guðmundur Bjarnason sem lést fyrir nokkrum árum en stundaði sjóinn til margra ára. Maggi Klöru Kalla Magg = Magnús Karlsson sem fórst í snjóflóðinu á Flateyri um árið og svo ég sem stundum var kallaður Sæmi Rósu Bjarna Sæm og lifi enn.

Þetta þótti engum mikið í þá daga, þó nú sé óskapast mikið útaf uppnefnum. Menn voru bara fremur uppnefndir áður fyrr, einkum í minni plássum þar sem allir þekktu alla og götur, húsnúmer og húsanöfn voru svolítið á reiki.

 

Hans Haraldsson heitir Moggabloggari einn sem þeim Morgunblaðsmönnum hefur þótt ástæða til  að vekja sérstaka athygli  á. A.m.k. birtast blogg frá honum oft á forsíðu bloggsins.

Mér finnst skoðanir hans vera mjög öfgakenndar þó hann sé greinilega vel að sér  um suma hluti. Nýjustu færslu sinni hefur hann valið fyrirsögnina "Eigum við að ganga í Zimbabwe?" Ef þessi titill er einkennandi fyrir það sem Hans kallar vitræna umræðu þá verð ég  bara  að segja pass.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband