80. blogg

Fyrir nokkrum árum var haldið á Íslandi hjá Háskólanum í Reykjavík heimsmeistaramót tölvuforrita í skák.

Flestir viðurkenna núorðið að tölvuforrit séu betri í skák en bestu stórmeistarar. Jafnvel ódýr forrit sem hægt er að nota á hvaða sæmilegri tölvu sem er standa stórmeisturum á sporði. A.m.k. gera þau ekki stórfelld glappaskot, þó eflaust megi sitthvað segja um snilldina.

Á þessu móti var það Yngvi Björnsson sem bar hitann og þungann af undirbúningnum. Ég kynntist honum svolítið í sambandi við þetta mót því tvö af þeim skákforritum sem tóku þátt í því voru munaðarlaus.

Það er að segja: Eigendur þeirra eða forritarar gátu af ýmsum ástæðum ekki fylgt þeim til Reykjavíkur, en vildu samt sem áður að þau tækju þátt í mótinu og þess vegna þurfti að útvega menn sem gætu fært mennina fyrir þau og stjórnað skákklukkunni ásamt því að tala við skákstjórann þegar þess þurfti með.

Eftir ábendingu frá Bjarna syni mínum var ég beðinn að sjá um að stjórna öðru af þessum forritum. Reyndin varð þó sú að ég stjórnaði þeim til skiptis ásamt nokkrum öðrum.

Ætli ég hafi ekki setið við skákborðið í svona sex eða sjö umferðum af níu eða tíu. Ég man þetta ekki nákvæmlega, en áreiðanlega er þetta eina heimsmeistaramótið sem ég hef tekið þátt í.

Fram að þessu hefur verið talið að tölvuforrit væru vel til þess fallin að hjálpa skákmönnum. Í þessu tilfelli var hlutunum snúið við þar sem það voru tölvuforritin sem þurftu smáhjálp, sem reyndar tengdist bara ytri umgerð mótsins. Forritin sjálf sáu alfarið um að ákveða leikina.

Það hefur áreiðanlega kostað bæði fé og fyrirhöfn að fá þetta mót hingað til lands. Ástæðan fyrir því að Háskólinn í Reykjavík og Yngvi Björnsson lögðu það á sig að fá mótið til Íslands var einkum sú að við skólann voru og eru stundaðar markverðar rannsóknir á gervigreind.

Nú hefur það komið í ljós að þetta hefur ekki verið til einskis gert. Það var einmitt alveg nýlega sem skýrt var frá því í fréttum að tekist hefði að leysa gátuna um dammið, sem er talsvert einfaldari leikur en skák og áðurnefndur Yngvi Björnsson var einn af aðalhöfundum greinar þeirrar sem birtist um málið í þekktu vísindatímariti.

Reyndar er damm svo einfaldur leikur að margra áliti að það er ekki spennandi lengur að halda mót í dammi. Sú hefur þó ekki alltaf verið raunin, því ég man eftir því að fyrir allöngu síðan voru menn sem lögðu talsvert á sig við að spila þetta spil. Mót voru haldin og meistarar útnefndir.

Þó nú hafi tekist að sýna fram á hvernig spila skal damm held ég að talsvert langt sé í að það sama verði gert við skákina. Ég ímynda mér a.m.k. að hún sé töluvert flóknari en damm. Margir mundu eflaust segja að hún væri margfalt flóknari, en hvað veit ég. Mín vegna gæti verið búið að leysa gátuna um skákina eftir svona 20 - 50 ár.

Gaman væri ef Yngvi Björnsson eða einhverjir aðrir mundu skrifa grein um hvernig þetta altsaman var gert og um þetta tölvuforrit sem fann það út að með bestu spilamennsku er ekki hægt að vinna í dammi. Því hlýtur alltaf að ljúka með jafntefli, ef báðir aðilar leika ætíð besta leikinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband