78. blogg

Í sjónvarpsfréttum í kvöld var hvað eftir annað staglast á orðinu íturvaxinn og ég sá ekki betur en það orð væri notað um Hómer Simpson. Í mínum augum er sá karakter langt frá því að vera íturvaxinn. Hann er beinlínis feitur.

Ef það er raunverulega svo að orðið íturvaxinn er í huga fólks farið að tákna feitur eins og ég hef lúmskan grun um að sé, þá er þar um athyglisverðan viðsnúning.

Mér heyrðist líka vera minnst á kanínur í fréttum í kvöld og það minnir mig á að mér kom á óvart að Benni er greinilega fluttur nánast út fyrir bæinn (Norðlingaholt - Helluvað) því þar virðast vera kanínur á hverju strái. Eflaust lifa þær villtar í skóginum í kringum Elliðavatn og  koma sennilega inn í byggðina í forvitnisskyni.

Og svo eru það skák-krakkarnir. Þau stóðu sig reglulega vel og rétt er að minna á að Salaskóli er að sjálfsögðu í Kópavogi.

Ég hjó eftir því að í fréttum voru nöfn krakkanna lesin upp og nafn einu stelpunnar í hópnum var lesið síðast. Ég  hef samt trú á því að Jóhanna Björg hafi verið á fyrsta borði í sveitinni. Systir hennar sem er 8 ára gömul og heitir Hildur Berglind fer væntanlega á heimsmeistaramót í skák í haust.

Hvurslags er þetta? Eintómar tilvitnanir í fréttir, eða hvað? Nei, nú skulum við hætta.

 

Það er merkilegt hvað maður gat unað sér við lítið hér áður og fyrr. Í mínu ungdæmi var ekki sími á heimilinu, sjónvarpið var ekki komið, en hægt var að hlusta á útvarp og fyrir utan dagblöðin (þ.e.a.s. Moggann) var það eiginlega eina daglega tilbreytingin. Bíósýningar voru í hótelinu svona tvisvar í viku, en ég hafði ekki efni á að fara þangað nema stöku sinnum.

Vinsælt var að leika sér við hitt og þetta heimavið.

Ég man vel eftir einum leik sem mamma (eða amma) kenndi okkur, en hann var svona: Tveir þátttakendur setjast flötum beinum á gólf, spyrna saman iljum, takast í hendur, vagga sér fram og aftur og kyrja vísuna:

Við skulum róa á selabát

fyrst við erum fjórir.

Það eru bæði þú og ég

stýrimaður og stjóri.

 

Ég man að mér þótti vísan fyndin, einkum fjöldaósamræmið.

Að flá kött var líka vinsælt. Þá átti að halda sér uppi á bita með fótunum og fara úr einhverri flík meðan hangið var þannig, án þess að taka með höndum í bitann.

Eitt enn var að „rífa ræfil upp af svelli". Þá var einhver reistur upp sem lá á gólfi með því einu að taka um hnakka hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband