73. blogg

Þetta sífellda rugl með greinaskil, fontastærð og feitletranir er ekki með ráðum gert.

Þetta hefur líklega eitthvað með stillingar á Word-inu að gera.

Ég man  þá tíð þegar 24 síðna Morgunblað var þykkt Morgunblað. Nú finnst mér að því þykkari sem dagblöðin eru því minna sé í þeim af raunverulegum fréttum og markverðri umfjöllun um mál.

Þegar við gáfum út Borgarblaðið í Borgarnesi sællar minningar, þá var hvert blað talsvert margar blaðsíður þó í A4 stærð væri (mig minnir 12) og gefið út í hverri viku. Þegar við vorum að byrja man ég að ég hugsaði með mér hvernig í ósköpunum við ættum að fara að því að fylla allar þessar blaðsíður í hverri viku. Fljótlega snerist dæmið þó á þann veg að við þurftum meira að hugsa um hvaða efni ætti að njóta þeirrar náðar að komast á síður blaðsins.

Í blogginu eru engar blaðsíðutakmarkanir en mér finnst samt að málalengingar séu oft til skaða og reyni að takmarka málæðið svolítið.

Samt finnst mér Netið að mestu hafa tekið yfir hlutverk prentaðra fjölmiðla (og í sumra augum eflaust annarra fjölmiðla einnig). Netfréttir og blogg úr ýmsum áttum eru fyrir mér miklu meiri uppspretta upplýsinga og hugmynda en dagblöðin, sem ég er að mestu hættur að lesa. (Tímaritin hef ég eiginlega aldrei tímt að kaupa) Það er eins og hafi orðið eins konar gengisfelling á því sem í blöðunum stendur þegar þau fóru að verða ókeypis.

Fyrir nokkrum árum sagði ég upp áskrift að Morgunblaðinu sem ég hafði verið með um margra ára skeið. Fréttablaðið og Blaðið eru ekki borin út til okkar nema endrum og eins. Ég veit að það mætti reyna að hringja og kvarta, en nenni því ekki.

 

Í Fljótavíkinni stóð til einn daginn eða réttara sagt eitt kvöldið að ganga á Kögrið. Þarna er ég ekki alveg viss um kynferðið, en fjallið heitir Kögur. (samanber þar sem segir í Áföngum Jóns Helgasonar "Kögur og Horn og Heljarvík" - þar sem hann hlýtur eiginlega að hafa átt við Hælavík)

Jæja, það stóð semsagt til að ganga á Kögrið og karlmennirnir á bænum ætluðu allir að taka þátt í þessari miðnæturgöngu. (gott ef sólin á ekki að dansa á haffletinum um Jónsmessuna þarna norður við heimskautsbaug)

Allir fimm fóru þeir af stað og allir komu þeir aftur. Ég sneri samt við þegar ég sá fram á að klettabeltin ofarlega í fjallinu mundu verða mér ofviða og í allra besta falli mundi ég tefja hina óhæfilega mikið. Það var eiginlega jafnvægisskynið frekar en annað sem varð þess valdandi að ég hætti við. Undir lokin var brattinn orðinn það mikill að ég var nánast farinn að skríða svo ég sá að best var að kyngja stoltinu og hætta þessu.

Hinir ofurhugarnir (Jói og Guðmundur pabbi hans ásamt Bjarna og Benna) komust allir fjórir á topp Kögursins og sáu miðnætursólina dansa. Þessu til sönnunar eru til myndir (ja, kannski ekki beinlínis af sólardansinum) en bæði eru þær myndir mér ekki tiltækar akkúrat núna og auk þess hef ég ekki ennþá prófað að setja myndir á bloggið, en geri það kannski einhverntíma seinna.

Fyrirhuguð ferð á Straumnesfjall féll niður. Hinsvegar hefði ferðin þangað upp orðið auðveldari því þangað liggur vegur síðan starfsemi mikil fór þar fram á vegum Bandaríkjahers.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband