64. blogg

Þetta er nú skáklegt númer á bloggi svo hér er sennilega rétt að láta þess getið að núorðið nota ég Netið einkum til þess að tefla þar. Bæði bréfskákir og það sem ég kalla hraðskákir. Þar reyni ég að hafa umhugsunartímann 15 mínútur og sumir mundu eflaust segja að það væri frekar gamalmennaskák en hraðskák.

Já, og svo blogga ég og satt að segja fer stundum nokkur tími í það því ég er talsverður „stickler for" texta og nostra því stundum svolítið við hann. Ekki er ég sammála því sem ég las einhvers staðar á bloggi að bloggskrif væru einskonar talmálsritmál. Annað hvort skrifa menn læsilegan texta eða bulla bara.

 

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

 

Búið er að kalla út björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar vegna manns sem féll fram af klettum við brúnna við Laxárvirkjun. Féll maðurinn í ánna en náðist að komast upp á bakka hennar af sjálfsdáðum en kemst ekki alla leið upp vegna kletta. Sigmenn frá Björgunarsveitinni Garðari á Húsavík og Hjálparsveit skáta í Aðaldal eru á leið á staðinn til aðstoðar lögreglu og sjúkraliði.

 

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

 

Þetta er nýlegur texti af mbl.is og mikið skelfing er þetta lélegur texti.  En svona er þetta yfirleitt á mbl.is. Það virðist sem liðléttingar sem ekki hafa einu sinni nennt að læra einföldustu stafsetningarreglur séu látnir um að skrifa fréttir þarna. Það er svo alveg undir hælinn lagt hvort þessi ósköp eru löguð til síðar eða ekki. Segi ekki meira.

Eitt af því merkasta sem við bar á heimleiðinni frá Fljótavík á þriðjudagskvöldið var tækifærið sem gafst til þess að sjá óviðjafnanlegar skýjamyndanir sem vindurinn hafði sorfið til og gert úr allskyns ótrúleg form sem sólin lýsti síðan upp með sínum einstæða hætti. Reyndar var minnst á þetta í sjónvarpsfréttum og það var satt að segja samfelld skemmtun alla leiðina að vestan að virða þetta fyrir sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband