63. blogg

Einmitt þegar ég hélt að ég væri loksins búinn að ná einhverjum tökum á greinaskilum og þess háttar þá fer allt í fisk. Líklega hafa snillingarnir sem hér ráða ríkjum verið að laga einhvern andskotann. Meira að segja fonturinn er vitlaus.

En svo lengist lærið sem lífið eins og kerlingin sagði og vonandi gengur þetta betur næst.

Datt svo skyndilega í hug að reyna að breyta færslunni og það virðist hafa gengið bærilega.

Aldrei held ég samt að ég verði svo forframaður að ég skrifi beint á bloggsíðuna. Ég treysti einfaldlega ekki á að sambandið haldi eins lengi og ég vil vera að ganga frá skrifunum. Kannski væri ráð að fá sér bara sem einfaldastan ritil (edlin var þó í gamla daga einum of asnalegur fyrir mig) og reyna að setja sem ómengaðastan texta inn og breyta honum „on line" eins og þarf. Athuga það.

Benni fékk íbúðina afhenta í dag og við Áslaug fórum með honum að skoða hana í kvöld. Hann þurfti líka að mæla ýmislegt og þessháttar. Á morgun ætlar hann að fá lánaðan sendiferðabíl og byrja að keyra dótið sitt í íbúðina.

Bloggskrifin hafa verið ansi gloppótt undanfarið og kannski verða þau það áfram. Það verður bara að hafa það, einhverjir virðast líta hingað öðru hvoru hvort sem er og er það vel.

Þegi þú, Niörðr, / þú vart austr heðan / gíls um sendr at goðom; / Hymis meyiar / höfðo þik at hlandtrogi / ok þér í munn migo.

Svo kvað Loki í Lokasennu sem ég var að enda við að lesa. Ég kannaðist svosem við þessa vísu en var búinn að gleyma henni. Svo segja menn að nútíminn sé kinky. Sumum kann að finnast þetta illskiljanlegt, en niðurlagið þar sem segir að „Hymis meyjar höfðu þig að hlandtrogi og þér í munn migu,"  er ekki erfitt að skilja. Kannski höfðu menn áður fyrr annan skilning á klámi en í dag (eða ætti ég kannski að segja „í gær") samanber Bósa sögu og Herrauðs og ýmsa kafla í Njálu og Grettlu sem frægir eru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband