62. blogg

Jæja, þá er Fljótavíkurferðinni lokið. Við lá að hún endaði með ósköpum því flugvélin sem við flugum með rak hjólin í sand eða mosabarð í flugtakinu frá Fljótavík, en sem betur fór skemmdist ekkert og lendingin á Ísafirði tókst vel. 

Það var ekki fyrr en um ellefuleytið á föstudagsmorguninn sem við komumst af stað frá Reykjavík á þremur bílum. Fremst fóru Jói og Hafdís og var Benni með þeim. Síðan komu Guðmundur og Guðrún og við Áslaug ásamt Bjarna rákum lestina.  Ferðin til Ísafjarðar gekk vel og ekki var stoppað nema á fáeinum stöðum. Þegar til Ísafjarðar kom þurftum við að bíða svolitla stund eftir fluginu en von bráðar fóru Jói, Guðmundur, Áslaug og Benni af stað til Fljótavíkur og nokkru seinna við hin.

Ferðin þangað gekk vel og ekki bar á flughræðslu að neinu ráði, en þó var sagt að Áslaug hefði haft augun lokuð allan tímann þrátt fyrir hjartastyrkjandi meðöl. Farangurinn var hinsvegar með mesta móti og varð að hluti af honum eftir en kom síðan norðureftir seinna um nóttina.  

Náttúrufegurð er mikil í Fljótavík og ekki truflar áreiti dagblaða, sjónvarps og farsíma því ekkert slíkt þekkist þar. Strax á laugardag var haldið til veiða og veiddist fljótlega nóg til matar af silungi í sjónum þar. Einhverjir veiddu þar sína fyrstu fiska og allir fengu að prófa veiðiskapinn.  

Á laugardagskvöldið (að mig minnir) fóru þeir hraustustu í fjallgöngu á Kögrið og komust Jói, Guðmundur, Bjarni og Benni alla leið upp til að virða fyrir sér miðnætursólina.  

Næstu dagar liðu síðan við aðgerðarleysi og afslöppun, veiðiferðir eftir þörfum, gönguferðir, myndatökur og svefn. Veðrið var allan tímann skínandi gott og tóku sumir lit. Ekki gaf til göngu á Straumnesfjall því þar virtist þrálátur skýjahattur hafa tekið sér bólfestu. 

Það var síðan seinni part þriðjudags sem við Áslaug ásamt Bjarna og Benna fórum að hugsa okkur til hreyfings. Flugvélin var pöntuð og kom um sexleytið.

Hliðarvindur, þyngd farþega, bleyta á flugvellinum og þess háttar olli því svo að við lá að illa færi eins og lýst var hér að framan, en allt fór þó vel að lokum og eftir tíðindalitla ferð suður á Subarunum komum við svo til Reykjavíkur um miðnættið en Hafdís og Jói ásamt Guðmundi og Guðrúnu ætla að dvelja í Fljótavík fram að næstu helgi.  

UM  NETÚTGÁFUNA  (framhald) 

Niðurhal á efni af Netinu mun án efa aukast á næstu árum hvað snertir tónlist, sjónvarpsefni og kvikmyndir. Væntanlega ná höfundar slíks efnis og dreifendur samkomulagi um fyrirkomulag sem verður neytendum til hagsbóta. Ég er sannfærður um að þeir sem sækja sér slíkt efni yfir Netið vilja fremur nota löglegt efni en ólöglegt. 

Ein ástæða fyrir því að efni eins og kvikmyndir og tónlist á greiða leið að neytendum um Netið er eflaust sú að þar fær fólk efnið á líku formi og það er vant, það er að segja þess verður ekki neytt nema tæknin komi til aðstoðar.

Um bækur gegnir allt öðru máli, þær hafa fylgt manninum um aldir og munu gera lengi enn.  Auðvitað er það samt svo að í raun eru bækur samsettar úr textaskrá sem hefur að geyma efni það sem er í bókinni og síðan tækinu til að koma efninu á framfæri sem er bókin sjálf.

Á sama hátt eru kvikmyndir og tónlist bara skrár sem hafa inni að halda upplýsingar um hvernig koma eigi efninu til skila.  Af hverju hefur bókin fest sig svona í sessi að henni verður varla hnikað þaðan? Því er erfitt að svara en þó hefur mjög mikið af efni sem er tæknilegs eða vísindalegs eðlis að mestu hætt að koma út á bókum og blöðum en farið í þess stað á Netið.

Kannski munu bækurnar einhvern tíma verða úreltar en örugglega ekki nærri strax. Uppflettibækur og ýmsar handbækur munu þó eflaust eiga erfitt með að keppa við Netið, en bækur til skemmtunar, barnabækur og þær bækur sem kalla má prentgripi, munu eflaust halda gildi sínu enn um sinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Örugglega endurnærandi að kúpla sig frá áreiti dagblaða, sjónvarps og farsíma.  Annars þarf ég nú ekki að kvarta.  Hér hringir aldrei síminn nema þegar er skakkt númer.   Þá reyni ég hins vegar að kría út smáspjall hjá viðkomandi.

Anna Einarsdóttir, 28.6.2007 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband