61. blogg

  Fór áðan með 6 kassa af bókum í gám Góða Hirðisins til viðbótar við það sem áður var farið þangað og er ekki frá því að bókum á heimilinu sé eitthvað að fækka, sem betur fer.

Fórum í gær upp að Drumboddsstöðum til að heimsækja Benna. Komum við í Hveragerði en hvorki Ingibjörg og Hörður eða Bjössi og Lísa voru heima svo við héldum bara áfram. Frá Drumboddstöðum fórum við að Skógum undir Eyjafjöllum til að skoða safnið þar.

Mikið hefur það safn stækkað síðan ég kom þangað síðast fyrir svona þrjátíu og eitthvað árum. Þórður Tómasson er þar samt ennþá og á margan hátt það merkilegasta sem þar er að sjá. Annars er samgöngusafnið að taka á sig skemmtilega mynd. Virkilega gaman að sjá alla þessa bíla og merkilegu vélar sem þar eru.

Að Skógum hittum við Guðmund, Hafdísi, Henry og Elínu ásamt fríðu föruneyti. Fylltum m.a. nokkurn veginn skólahúsið sem þar er til sýnis fyrir myndatökur af hópnum.

Íbúðin hjá Bjarna er komin í sölu og hann er strax farinn að fá fólk til að skoða. Charmaine er búin að taka á leigu íbúð á Bahamas.

Á föstudaginn förum við væntanlega 8 saman áleiðis í Fljótavík. Vonandi verður veðrið gott.

 

UM  NETÚTGÁFUNA  (framhald)

Bókaútgáfa fer vaxandi hér á Íslandi og þó dýrt sé að prenta bækur fer tækninni í því efni sífellt fram og prentvélarnar verða stöðugt fullkomnari. Nú er svo komið að vélar þurfa ekki annað en tölvuskrá með handriti bókarinnar til að geta búið til bækur.

Þetta er kallað "print on demand" eða "publish on demand" og hefur rutt sér nokkuð til rúms í Bandaríkjunum og víðar undanfarin ár.

Það eru einkum lítil útgáfufyrirtæki sem nýta sér þessa þróun og svo höfundar sem vilja af einhverjum ástæðum gefa út bækur sínar sjálfir, hvort sem það er af einhvers konar metnaði, eða þá að þeir telja sig einfaldlega geta haft meiri tekjur af skrifum sínum með þessu móti.

Kosturinn við þessa aðferð er sá að það er ekkert sem heitir startgjald og bækurnar sem gerðar eru með þessari aðferð kosta jafnmikið í prentun hvort sem prentuð eru tvö eintök eða tvö þúsund, eða jafnvel tvö hundruð þúsund.

Fyrirtæki í Bandaríkjunum bjóða t.d. höfundum að prenta fyrir þá bækur fyrir 500 dollara eða svo. Þá fær höfundurinn svona 50 bækur sjálfur og 30 % af útsöluverði bókarinnar í sinn hlut og allskonar þjónustu og aðstoð frá fyrirtækinu, auk þess sem verkið tekur ekki langan tíma.

(niðurlag næst)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband