59. blogg

Ég fór áðan með 5 kassa af bókum og setti í gám Góða Hirðisins. Ég er ekki enn búinn að venja mig á að henda bókum þó sumir geri það eflaust.

Aftur á móti hendi ég gömlum blöðum alveg villi vekk ef ég kæri mig ekki um að eiga þau. Einu sinni þegar ég var á Vegamótum henti ég mörgum árgöngum af Time magazine og var eiginlega hálfskammaður fyrir það af einhverjum Strymplinganna því þeir vildu gjarnan eiga þau. Einu gömlu blöðin sem ég vil ekki eiga og hika við að henda eru National Geographic. Myndirnar í þeim eru oft nokkuð góðar.

Að sumu leyti er Moggabloggið eins og ruslakista. Ég hef t.d. gert það nokkrum sinnum að henda þangað inn skrám eða hlutum af skrám sem ég hef skrifað áður og af öðru tilefni. Þannig var það t.d. með frásögnina af því þegar Bláfell brann, sem einhverjir af lesendum mínum muna kannski eftir. Hana hafðí ég skrifað nokkru áður en ég byrjaði að blogga en ekki gert neitt við, svo það var upplagt að nota þá frásögn í nokkrum pörtum í bloggið.

Sama  sagan er núna. Ég tók saman í fyrra svolitla frásögn um Netútgáfuna fyrir fund eða einskonar ráðstefnu á Selfossi og nota hana núna sem uppistöðu í frásögn mína um það fyrirbrigði.

Þetta sé ég að fleiri gera og auðvitað er ekkert athugavert við þetta. Ef lesendur taka þessu með jafnaðargeði getur þetta sparað mörg lyklaborðs-slög.

 

UM  NETÚTGÁFUNA (framhald)

Það var um haustið 2001, sem Netútgáfan hætti að gefa út nýtt efni. Ástæðan fyrir því var einfaldlega sú að við gátum ekki lengur séð af öllum þeim tíma sem í þetta fór. Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði fékk hún aldrei neinn annan styrk en þann sem fólginn var í þeim ókeypis aðgangi að Netinu sem Snerpa ehf. á Ísafirði veitti okkur og veitir enn.

Þau ár sem við stunduðum útgáfu á Netinu kom okkur á óvart að rithöfundar virtust ekki hafa áhuga á að setja gömul verk sín á Netið til kynningar. Okkur fannst það blasa við að hjá langflestum rithöfundum væri höfundarréttur að löngu útgefnum verkum orðinn harla lítils virði.

Ég hef nokkrum sinnum reynt að stuðla að því að endurvekja Netútgáfuna í svipuðu formi og hún var. Nægilegt efni er til þó ekki sé hugsað til þess að gefa út annað efni en það sem höfundarréttur er runninn út á eða hefur af einhverjum ástæðum aldrei verið nýttur. Netútgáfan hefur unnið sér nokkurn sess einkum meðal skólafólks og ef haldið yrði áfram á svipaðri braut og gert var mundi það eflaust auka veg hennar. Nauðsynlegt er þó að bæta á allan hátt útlit vefsins, koma upp leitarvél og gera ýmislegt fleira. Gæta þarf þess þó, eins og við höfum alltaf gert, að aðgangur blindra og sjónskertra að efni útgáfunnar versni ekki.

Ekkert er því til fyrirstöðu að endurvekja starfsemina. Það eina sem þarf er tryggt fjármagn eða að einhverjir einstaklingar eða hópar séu tilbúnir til að leggja fram þá vinnu sem til þarf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband