2664 - Hvað er að vera ríkur?

Hvað er að vera ríkur? Ef það að þurfa ekki að hafa miklar fjárhagsáhyggjur af hversdagslegum hlutum er það, þá er ég það kannski. Ég og konan mín lifum það sparlega að ellilaunin okkar og eftirlaunin duga sæmilega fyrir nauðþurftum okkar. Þó eigum við bíl. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að við eigum að mestu leyti íbúðina sem við búum í, þó hún sé um 100 fermetrar og við þurfum ekki að borga af lánum sem á henni hvíla nema svona 50 þúsund á mánuði. Þ.e.a.s. meðan verðbólgan fer ekki af stað. Auðvitað á þetta alls ekki við um alla. Ég vorkenni bókstaflega einstaklinum sem þurfa að borga himinháa húsaleigu til viðbótar við allt annað og hafa kannski ekkert sérstaklega há laun eða eftirlaun.

Skil ekki hvernig verkalýðsforingjar og fleiri fá það út að með því að afnema verðtrygginguna þá hljóti vextir bankanna að lækka verulega. Ef því er haldið fram að bankarnir sjálfir eða bankaráðin ráði vaxtastiginu held ég að vextirnir lækki ekki nema nauðsyn beri til frá þeirra sjónarmiði. Ég er heldur ekki hagfræðingur og skil þetta kannski ekki þessvegna. Skilst að nóg sé til af peningum í þjóðfélaginu. Samt lækka vextirnir ekki verulega. Er það kannski vegna þess að þeir súperríku sogi allt til sín? Kannski. En mundu þeir hætta því ef verðtryggingin hyrfi? Mundu þeir ekki bara finna upp einhverja nýja aðferð við peningasogið? Nei, æðri peningamál eru fyrir ofan minn skilning. Hagfræðingur verð ég sennilega ekki úr þessu. Enda kominn yfir 75 ára þröskuldinn.

Í gær var Þórhallur Hróðmarsson jarðsunginn. Hann var bekkjarbróðir minn og næstum alveg jafngamall mér. Hvað er að jarðsyngja? Er það að syngja einhvern ofaní jörðina? Man að pabbi Þórhalls kenndi söng í eina tíð. Hann dæmdi mig vitalaglausan og hefur sennilega haft alveg rétt fyrir sér í því. Ég hef nefnilega fremur lítið álit og litla þekkingu á allri tónlist og hún hefur allsengin áhrif á mig.

Ég mætti í jarðarför Þórhalls og í erfidrykkjunni hitti ég Atla Stefánsson. Hróðmar var á sínum tíma ekki alveg eins harður við hann, ef ég man rétt. Held samt að hann hafi sloppið við söngtímana einsog ég og fleiri. Okkur Þórhalli kom ágætlega saman þó hann hafi haft tónlistina með sér í liði.

Hróðmar féll líka frá mjög skyndilega og þar sem hann lá andaður milli Kaupfélagsins og Mjólkursamlagshússins sá ég lík í fyrsta skipti á ævinni.

Hvað er að deyja? Er það að verða á einu andartaki að einhverju sem þarf að losa sig við? Auðvitað er það ekki gert serimóníulaust. Skárra væri það nú. Oftast má hugsa sér að einhverjir vilji helst að viðkomandi hefði ekki dáið. Lífið væri í rauninni ekkert merkilegt ef dauðinn væri ekki til. Ekkert er samt skrýtið við það að menn velti því fyrir sér hvað taki við að lífinu loknu. Mér finnst það ekkert óbærileg tilhugsun að ekkert taki við. Sú er hin sanna nútímalega og vísindalega hugsun. Ekki eru samt allir þessarar skoðunar. Og það ber að virða.

IMG 0507Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þegar stórt er spurt, er oft fátt um svör. Ætli ákveðið ríkidæmi felist ekki í því, að geta litið nokkuð sáttur til baka, yfir farinn veg, án mikillar eftirsjár og vera við góða heilsu. Góð heilsa hlýtur að teljast til auðæfa. Ekki er hægt að mæla allt í peningum, þó það saki nú ekki að eiga nóg af þeim, en hvenær er nóg, nóg? 

 Kominn vel inn í seinni hálfleik lífsins, tel ég yndislega fjölskyldu, góða heilsu, reglulegar og vel formaðar hægðir, mun mikilvægari en stútfullur bankareikningur og eignir, sem maður jafnvel hrekkur uppaf frá, án þess að hafa nokkurt not fyrir það, annað en að hafa átt.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 12.11.2017 kl. 07:38

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Halldór. Hef engu við þetta að bæta. Sammála öllu. Eiginlega er þetta bara einskonar kvittun fyrir að ég hafi lesið kommentið.

Sæmundur Bjarnason, 12.11.2017 kl. 09:00

3 identicon

Tek undir með Halldóri og bæti við að þekking er eina ríkidæmið sem maður getur tekið með sér í gröfina. Peningar er fínir til að lifa af en söfnun á töfrapappírnum veldur þekkinga og hugmyndafræði-fátækt hjá mögrum.

Sigþór Hrafnsson 13.11.2017 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband