2641 - Veðurhorfur til klukkan níu í fyrramálið

Hugsanlega er það tímanna tákn að alvinsælasta kvikmynda og sjónvarpsefnið um þessar mundir gerist á miðöldum. Þarna á ég við „Lord of the Rings“. „Hobbit“ og „Game of Thrones“ svo dæmi séu tekin. A.m.k. held ég að þetta eigi allt saman að gerast á miðöldum. Hef lítið af þessu séð og áhuginn er ekki mikill. Það er líka til bóta á margan hátt að þurfa ekkert að vera að hugsa um nýjustu tækni einsog síma, sjónvörp, útvörp, tölvur, miðunartæki, hugsandi farartæki og þessháttar. Kannski er fólk búið að fá leið á öllu þessu dóti og vill hverfa sem lengst aftur í fortíðina. Nýjustu kvikmyndatökutækni er þó beitt og margar myndanna virðast verulega vel teknar en efnið er yfirleitt ekki upp á marga fiska. Reynt er líka að mata börnin á allskyns drekum, dýrum og flygildum. Boðskapurinn er eflaust góður en óttalega er þetta þunnur þrettándi.

Var áðan að hlusta á fréttir útvarpsins í sjónvarpinu. Um leið horfði ég á fyrirsagnaborðann neðst á skjánum. Eins og oft áður var ég með vitlaus gleraugu (eru ekki öll gleraugu vitlaus?) og sýndist ein fyrirsögnin vera á þessa leið: „Ringulreiðin á bak við Seljalandsfoss...“ og komst ekki lengra. Svo áttaði ég mig á því að í stað ringulreiðarinnar var víst talað um gönguleið. 

Einu sinni, líklega þegar ég var unglingur eða táningur, jafnvel krakki eða barn, hlustaði ég talsvert á útvarp. Þegar þulurinn sagði „veðurhorfur til klukkan níu í fyrramálið,“ hélt ég að eftir það væru engar veðurhorfur. Veðurhorfur í mínum skilningi á þeim tíma var heldur óljóst hugtak. Þessvegna reyndi ég að vera vakandi og fylgjast vel með klukkan níu daginn eftir, því þá væri von á þessum veðurhorfum eða að þær færu. Ekki tókst þetta og ekki man ég nákvæmlega hvenær ég öðlaðist réttan skilning á þessu orði.

Ég man vel eftir þegar krakkar voru látnir ganga næstum sjálfala. Óttari Guðmundssyni geðlækni hefur orðið tíðrætt um þá tíma. Sóðaskapur ýmisskonar viðgekkst í gamla daga. Ekki þurfti að treysta til hreinlætis jafnmörgum þá og nú. Ekki er örgrannt um að Óttar sjái eftir þeim tímum þegar lyklabörnin voru og hétu. Nú eru bara aðrir tímar og foreldrar hugsa eflaust öðruvísi nú en þá. Auðvitað er brýnt fyrir börnum nú að gefa sig lítt á tal við ókunnuga. Kannski voru engir ókunnugir þá. Allir eru meira og minna ókunnugir núna og þar að auki á bílum.

Hef litlar áhyggjur af því að ég endurtaki mig mjög oft hér á blogginu. Þó kann það að vera þó ég taki ekki eftir því sjálfur. Hef ekki enn náð almennilega tökum á fésbókinni eða twitternum, enda er að mér sýnist alltaf verið að breyta þessum miðlum, og geðjast með því sem flestum, ímynda ég mér. Aftur á móti er Moggabloggið hæfilega íhaldssamt að þessu leyti fyrir mig. Samt er Sjálfstæðisflokkurinn sá eini af fjórflokknum sem ég hef aldrei kosið.

IMG 1046Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæmundur, ekki aðeins „Lord of the Rings“, „Hobbit“ og „Game of Thrones“, heldur líka Merlin og Ragnar loðbrók og Síðasta konungsríkið.

Jón Valur Jensson, 7.9.2017 kl. 05:21

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, segðu.

Sæmundur Bjarnason, 7.9.2017 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband