51. blogg

Þetta skeði í kreppunni. Sjómaður lagði frá sér skötu skammt frá húsi einu í Skuggahverfinu. Þá kom maður nokkur og tók um sporðinn á skötunni og veifaði henni í kringum sig. Var hann síðan veifiskati kallaður. Sá sem upphaflega átti skötuna kom nú til að ná í hana en sá þá að hún var horfin svo hann sagði: "Það legg ég á og mæli um að þessi staður kallist héðan í frá hverfi skata."

Þannig er nú það.

Ef menn hafa gaman af orðaleikjum og útúrsnúningum ættu þeir að lesa eitthvað eftir Hallgrím Helgason, hann er snillingur í slíku, en því miður oft óhæfilega langorður.

Þegar átti að kenna mér að skrifa var mér kennd þessi vísa:

Skrifaðu bæði skýrt og rétt

svo skötnum þyki snilli.

Orðin standa eiga þétt,

en þó bil á milli.

Mamma kenndi mér þessa vísu og hún sagði reyndar skautnum í stað skötnum í annarri ljóðlínu, en þegar ég vildi fá að vita hver þessi skauti væri varð fátt um svör. Í mínum augum var hann einhvers konar guðlegt yfirvald sem gætti þess að maður vandaði sig við að skrifa. Ekki tókst mér þó að læra að skrifa almennilega, en er þeim mun betri á ritvélar.

Hverfisgötubrandarann heyrði ég svo löngu seinna.

Um daginn var ég að skoða gömul blogg frá Önnu í Holti og rakst þar á skemmtilega frásögn um misskilning  sem átti sér stað á veitingahúsi á Spáni. Hún minnti mig á að þegar ég fór í fyrsta sinn til Spánar þá sátum við á einhverju veitingahúsi og ég þurfti að pissa eins og fara gerir.

Ég stóð upp og svipaðist um eftir hentugum stað til slíks. Fljótlega sá ég dyr nokkrar og fyrir ofan þær var skrifað með skýrum stöfum: "SENORAS". "Jahá", hugsaði ég með sjálfum mér. "Þó ég sé nú ekki vel að mér í spænsku þá er ég það góður í tungumálum yfirleitt að ég sé í hendi mér að þetta er karlaklósettið". Þangað steðjaði ég semsagt og pissaði eins og ég þurfti. Það rann svo ekki upp fyrir mér fyrr en seinna að líklega var þetta ekki karlaklósettið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband