2610 - Costco (hvað annað?)

Lögreglan í Manchesterborg kvartar undan því að fá ekki að stjórna upplýsingagjöf frá hermarverki því sem framið var þar í borg síðastliðið mánudagskvöld. Skiljanlegur er pirringur lögreglunnar yfir því að t.d. nafni hermdarverkamannsins var lekið til Bandarískra fréttamiðla löngu fyrr en Manchesterlögreglan hefði viljað. Samt er það svo að erfitt er að stjórna félagslegu miðlunum og nöfn fórnarlamba og ýmsar upplýsingar um þennan mikla glæp hljóta að dreifast með öðrum hætti en lögreglan vill. Við engan er að sakast hvað það snertir.

Sjaldan lýgur almannarómur. Segir máltækið. Eftirminnilega sannaðist þetta þegar Costco fór að selja bensín. Löngu áður en sú sala byrjaði voru upplýsingar um væntanlegt verð farnar í dreifingu meðal almennings. Ekki varð það samt til þess að einokunaraðilarnir leiðréttu verðið og þeir segjast ekki ætla að gera það. Auglýsingaherferð fer sennilega í gang fljótlega þar sem mikil áhersla verður lögð á ímyndaða og raunverulega þjónustu olíu(okur)félaganna. Gott ef hún er ekki þegar hafin.

Sumir foreldrar segja að þeir eigi erfitt með að afbera að geta ekki veitt barni sínu það sama og nágrannarnir. Mín skoðun er sú (og ég er að verða 75 ára) að efnahagur foreldra skipti börn sáralitlu máli. Þau skilji vel að ríkidæmi fólks er misjafnt. Hinsvegar má búast við að snobb, fordómar og einelti skipti börnin miklu meira máli þó þau eigi hugsanlega mun verr með að koma því í orð.

 „Fötin skapa manninn“, segir máltækið. Held reyndar að það sé hin mesta vitleysa. Hefðirnar skapa fötin og fötin skapa hefðirnar. Mikið er reynt að lesa í það að eiginkona Trumps bandaríkjaforseta hafi verið með slæðu og svartklædd þegar hún hitti páfann en ekkert slíkt þegar hún heilsaði uppá kóginn í Saudi Arabíu. Ég leyfi mér að halda því fram að ekkert sé hægt að lesa í þetta. Páfinn var að sjálfsögðu í hvítum skósíðum kjól, en ég man ekki hvernig kóngurinn var til fara á þeim myndum sem ég hef séð frá þessum merka atburði. Eflaust þó sérkennilega á okkar bandaríska mælikvarða.

Mjög er nú í tísku að hallmæla Costco og þeim sem eru svo vitlausir að fara þangað. Bæði á þetta sér stað á Fésbókinni og víðar. Jón Trausti Reynisson skrifar t.d. óvenju vitlausa grein í þessa veru á Stundina sem ekki er annað en samsafn af ofnotuðum klisjum. Hann á það þó til að skrifa ágætar greinar. Ef fólk vill endilega borga meira en minna fyrir vörur svona almennt, þá finnst mér ekki ástæða til að amast við því. Sá sparnaður sem hugsanlega er fólginn í því að versla við Costco kann þó að vera ofmentinn í mörgum tilfellum.

002Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband