2513 - Næstu kosningar

Sá möguleiki er alveg fyrir hendi, ef Framsóknarmönnum tekst að losa sig við SDG og vinna aftur eitthvað af fylgi sínu frá síðustu kosningum, að Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Viðreisn nái meirihluta í komandi kosningum og myndi stjórn. Ekki er þá líklegt að stjórnarstefnan breytist mikið en vafasamt er að sú stjórn hangi út allt kjörtímabilið.

Vinstri og hægri í stjórnmálum mætti sem best kalla „stjórnlyndi“ og „einstaklingsfrelsi“. Mér finnst sagan hafa kennt okkur að farsælast sé að fara bil beggja. Hvorttveggja getur gengið út í öfgar. Enginn vafi er á að stjórnlyndið gekk út í öfgar í Ráðstjórnarríkjunum sálugu og gerir það kannski ennþá í Rússlandi nútímans. Mér finnst sömuleiðis einstaklingsfrelsið í ómenguðum kapítalisma bera dauðann í sér. Bandaríkjamenn hafa tekið upp stjórnlynda stefnu í einstaka málum. Sem Evrópubúa og einkum Norðurlandabúa finnst mér þó að þeir gangi full-langt í frelsis-sóttinni og misskiptingin þar í öllum allsnægtunum getur fyrr eða síðar orðið þeim að verulegu fótakefli.

Ríkisforsjá og ríkisafskipti af atvinnulífi mega alls ekki verða of mikil. Það sýndi Hitler okkur eftirminnilega. Hugsanlega eru Kínverjar þó á réttri leið. Ég hef samt meiri trú á Skandinavísku leiðinni. Evrópusambandið, Kína og Indland eru hugsanlega að verða of stórar einingar ef ekki tekst að koma á fót alheimsstjórn þar sem þjóðríkin hefðu samt verulegt sjálfstæði. Líklega getur ekkert annað komið í veg fyrir styrjaldir milli ríkja með öllu. Borgarastyrjaldir geta alltaf blossað upp, en alheimsstjórn ætti að geta ráðið við það. Að stórveldin séu svo fá og stór sem raun ber vitni getur ekki verið til góðs fyrir heiminn allan þegar til lengdar lætur.

Frá því hefur verið sagt í fréttum að ákveðið lyf sem SÁÁ var vant að kaupa á 525 krónur hafi skyndilega hækkað í 25.000 krónur. Þetta er talsverð hækkun og silkihúfurnar keppast nú við að afsaka þetta. Ótíndur almúgamaður eins og ég freistast til að álíta þetta bara dæmi um tilraun elítunnar til að féfletta þá fátæku. Vel getur samt verið að fleira blandist í þetta og mér dettur ekki í hug að halda að svona mikil hækkun sé algeng og almenningur þurfi að vara sig á svona löguðu. Pólitík og lyfjaverðlagning almennt kunna sem best að blandast í þetta, en þó blandast mér ekki hugur um að umhyggja fyrir þeim sem varla hafa efni á lyfjum er ekki efst í huga þeirra sem þessu ráða.

Þó ég hafi gaman af að skrifa og sé jafnvel búinn að ákveða hvað ég muni kjósa í næstu kosningum sem nálgast víst óðfluga, er ég ekki að hugsa um að auka mín pólitísku skrif á næstunni. Ég hef hvort eð er mjög takmörkuð áhrif og finnst þess utan að mín skrif styðji flokkana svolítið á víxl. Auðvitað gæti ég skrifað ýmislegt fleira um mínar stjórnmálalegu skoðanir en hvort lesendur mínir (sem ekki eru ákaflega margir) mundu taka mig til fyrirmyndar er í besta falli vafasamt. Þessvegna mun ég halda áfram að skrifa bara um það sem mér dettur í hug hverju sinni.

Líklega kýs ég Píratana aftur að þessu sinni eins og síðast. Samt er ég gjörsamlega andvígur stefnu þeirra í stjórnarskrármálinu. Finnst samt að þeir hafi unnið þannig á því kjörtímabili sem nú er að líða að þeir eigi skilið fleiri þingmenn. Þar að auki er stefna þeirra í ýmsu öðru en stjórnarskrármálinu mér að skapi. Nafnið læt ég mér í léttu rúmi liggja þó það sé ákaflega misheppnað.

IMG 3510Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband