2504 - Mjór er mikils vísir

Einn versti ókosturinn við Reykjavík er æðibunugangurinn á öllum. Hér á Akranesi er borin virðing fyrir gangandi vegfarendum og oftast ekið hægt. Bíll við bíl langtímum saman þekkist ekki. Annaðhvort eru alltof fáar götur í Reykjavík eða of margir bílar. Þriðja skýringin sem mér dettur í hug núna á meðan ég skrifa þetta er að ég sé alltaf á aðalumferðargötunum þegar ég fer til Reykjavíkur. Engar slíkar eru hér á Akranesi. Það er helst að þeir sem eru á reiðhjólum séu stundum að flýta sér.

Hvað pólitíkina varðar þá eru það einkum stjórnarskrármál sem valda mér áhyggjum. Hjá þingmönnum virðist alls ekki vera grundvöllur til þess að láta sverfa til stáls í þeim málum. Kannski er það bara vel skiljanlegt. Mikilvægasta ákvæðið í þeim drögum sem mikið verða rædd á næstu vikum er að mínum skilningi ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hugsanlega breytist þá hið þingbundna lýðræði sem við höfum lengi búið við í beint lýðræði. Ef hið þingbundna lýðræði breytist í beint lýðræði missa þingmenn e.t.v. þau endanlegu völd sem þeir hafa hingað til haft. Kannski er það þessvegna sem þeir eiga mjög erfitt með að koma sér saman um breytt fyrirkomulag.

Mér hefur skilist að stjórnarandstaðan muni ekki vilja þá útgáfu stjórnarskrárbreytinga sem nefnd sem skipuð var kom sér saman um. Í mínum huga er það sama og að segja: „Ef ég fæ ekki allt sem ég vil, vil ég ekkert.“ Slíkt er í mínum augum óþolandi frekjugangur. Samt mun ég að líkindum kjósa Píratana eins og síðast ef kosningar verða í októberlok eins og boðað hefur verið.

Annars á áreiðanlega mikið eftir að ræða um stjórnmál á næstu vikum. Flestir vilja þó komast hjá því að ræða alvarleg mál og fimbulfamba bara um einskisverð málefni eins og Nígeríubréfið um spítalann í Mosfellsbæ. Fésbókar-ræksnið er eiginlega ekki lesandi um þessar mundir og á bara eftir að versna fram að kosningum.

Megrunin gengur bara vel. Vigtin hélt því fram að ég væri bara 118,0 kg síðast þegar ég talaði við hana. Þetta er nú sennilega einhver vitleysa en svo er á það að líta að fyrstu kílóin í öllum megrunarkúrum eru auðveldust og þau síðustu erfiðust. Komst aldrei niður fyrir 100 kg síðast þegar ég reyndi.

IMG 4116Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband